Hoppa yfir valmynd
11. desember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hlaut nýsköpunarverðlaun ársins á degi íslenskrar tónlistar

Verðlaunahafarnir í Hörpu - mynd Ásgeir Helgi Þrastarson

Dagur íslenskrar tónlistar var haldinn hátíðlegur í Hörpu föstudaginn 1. desember. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hlaut nýsköpunarverðlaun dags íslenskar tónlistar í ár.

Viðurkenninguna hlaut ráðherra fyrir að eiga stóran þátt í að koma á fót Tónlistarmiðstöð Íslands. Einnig fyrir að tala fyrir og koma í framkvæmd lögum um tónlist og fyrstu opinberu tónlistarstefnu landsins.

„Þessar breytingarnar munu þýða stóraukinn stuðning við tónlistarlífið í landinu. Ég deili þessum verðlaunum þeim kraftmikla hópi úr tónlistarlífinu sem vann að þessu verkefni: Jakob Frímann Magnússon, formaður, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir.“

Í maí á þessu ári samþykkti Alþingi frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra um fyrstu heildarlöggjöfina um tónlist á Íslandi. Löggjöfin er byggð á nýrri tónlistarstefnu til ársins 2030 og hefur það að markmiði að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi, marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði.

Tónlistarmiðstöð var svo formlega stofnuð í Hörpu þann 15. ágúst. Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.

Það var mikill hátíðarbragur á verðlaunaafhendingunni í Hörpu á föstudag. Þjóðhátíðarvestmannaeyja hlaut þar verðlaunin Gluggann í ár fyrir metnaðarfulla tónleikadagskrá og fyrir árlega þjóðhátíðarlagið. Korda Samfónía hlaut hvatningarverðlaun ársins en útflutningsverðlaunin í ár hlaut Iceland Sync.

Glatkistan hlaut heiðursverðlaunin í ár, Litla fuglinn, og Rás 2 hlaut sérstakan þakklætisvott í tilefni af 40 ára afmæli stöðvarinnar.

Sjá einnig: 

Stefna í málefnum tónlistar 2023-2030

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta