Hoppa yfir valmynd
3. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skipar starfshóp um framtíð skjalasafna og rafræna langtímavörslu skjala

Skipar starfshóp um framtíð skjalasafna og rafræna langtímavörslu skjala - myndÞjóðskjalasafn Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mun skipa starfshóp um framtíðarfyrirkomulag skjalasafna og mótun stefnu um rafræna langtímavörslu skjala. Ráðherra kynnti minnisblað um verkefnið á fundi ríkisstjórnar fyrr í dag.

Starfshópurinn er settur á laggirnar til að fylgja eftir aðgerð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um rafræna langtímavörslu skjala og endurnýjun rafrænna innviða opinberrar skjalavörslu.

„Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi skjalasafna bæði hérlendis og erlendis og hefur stjórnsýsluhlutverk þeirra aukist á kostnað menningar- og rannsóknahlutverks,“ segir ráðherra um skipun starfshópsins.

Þróunin kallar á samstarf

Margar sveitarstjórnir hafa hugleitt starfsemi héraðsskjalasafna og kannað þann lagalega möguleika að skila gögnum til Þjóðskjalasafns Íslands og fá því það hlutverk að sinna ráðgjöf, eftirliti, vörslu og miðlun. Einnig liggur fyrir að Reykjavíkurborg hefur lýst yfir vilja til að leggja niður Borgarskjalasafn og bíður sú ákvörðun staðfestingar borgarstjórnar.

Þessi þróun kallar á náið samráð aðila um hvernig staðið er að yfirfærslu safnkosts auk kostnaðarmats og frekari greininga. Því er lagt til að í starfshópnum eigi sæti fulltrúar tilnefndir af menningar- og viðskiptaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Stafrænu Íslandi, Þjóðskjalasafni, Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem mun tilnefna tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera héraðsskjalavörður. Formaður hópsins verður tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðherra.  

„Brýnt er að skoðað verði heildstætt hvernig framtíðarfyrirkomulagi skjalasafna verði fyrir komið og flýta uppsetningu rafrænna lausna, nýta stærðarhagkvæmni og kanna möguleika til frekara samstarfs,“ segir meðal annars í minnisblaði ráðherra.

Starfshópurinn mun leggja fram stefnu í málaflokknum sem fellur vel að stafrænni stefnu ríkis og sveitarfélaga og áætlað er að hópurinn skili af sér sinni vinnu eigi síðar en 10. september 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta