Hoppa yfir valmynd
1. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Starfshópur um bætt heilbrigði ungs fólks

Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem leita á leiða til að bæta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14-23 ára. Þörf er á að hlúa betur að þessum aldurshópi.

Hér á landi hefur náðst mikill árangur í bættri heilsu og betri lífsgæðum ungbarna og barna fram að unglingsárum, en betur þarf að huga að því æviskeiði sem þá tekur við. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á góða, aðgengilega og samfellda heilbrigðisþjónustu við ungmenni.  Ekki er miðað við 18 ára aldur, líkt og oft tíðkast, en margt bendir til þess að skörp skil við þann aldur valdi einmitt vandkvæðum og hindri nauðsynlega samfellu í heilbrigðisþjónustu við einstaklinga. Er starfshópnum falið að kanna hvort svo sé og gera tillögur um úrbætur.

Starfshópurinn skal sérstaklega skoða áhættuþátti sem blasa við ungmennum umfram aðra aldurshópa.

Þar þarf ekki síst að líta til forvarna því miklu skiptir að feta rétta braut á þessu æviskeiði, svo hægt sé að forðast m.a. offitu, sykursýki, og hjartasjúkdóma síðar á ævinni – að ógleymdum afleiðingum af misnotkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna.

Ennfremur þarf að líta til áhættuþátta hvað varðar slys og sjúkdóma sem hrjá þennan aldurshóp og eru af öðrum toga en hjá öðrum aldurshópum. Þar ber að nefna áfengi og önnur vímuefni, kynferðislega misnotkun, kynheilbrigði og kynsjúkdóma – sem tengjast m.a. staðalmyndum og kynhlutverki. Einnig er þessi aldurshópur líklegastur til að lenda í alvarlegum umferðarslysum.

Gefa þarf sérstakan gaum að þeim sem eru á jaðri í hóps ungmenna. Þar er t.d. átt við þá sem hafa hætt í námi, eru félagslega einangraðir, eignast börn á unga aldri, eru heimilislausir eða dvelja á unglingaheimilum eða í fangelsum. Einnig hefur verið bent á að stöðu ungra nýbúa þurfi að skoða sérstaklega.

Í öllu starfi skal hópurinn leitast við að kalla eftir upplýsingum með tilliti til kynferðis og búsetu – svo unnt sé að greina hvort og þá hvar sértækra úrræða sé þörf.

Starfshópurinn skal kalla til valda fulltrúa með þekkingu á málaflokknum,  svo glögg mynd fáist af stöðu mála. Í framhaldinu skulu unnar tillögur að því hvernig breyta megi skipulagi, fjölga úrræðum eða bæta heilbrigðisþjónustu.

Óskað er eftir að fyrstu tillögur liggi fyrir 1. desember 2010.

Hópurinn er þannig skipaður:
Katrín Davíðsdóttir, barnalæknir, formaður
Bryndís Þorvaldsdóttir, sérfræðingur, heilbrigðisráðuneytinu
Sveinn Magnússon, læknir, heilbrigðisráðuneytinu
Orri Smárason, sálfræðingur, Egilsstöðum
Þóroddur Bjarnason, prófessor, Háskólanum á Akureyri
Sigurlaug Hauksdóttir, yfirfélagsráðgjafi, Landlæknisembættinu
Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnisstjóri, Lýðheilsustöð
Auður Axelsdóttir, forstöðumaður, Geðheilsa eftirfylgd/iðjuþjálfun


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta