Ný reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar
Heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar. Með henni eru felldar saman fjórar gildandi reglugerðir á þessu sviði.
Markmiðið er að sameina í eina reglugerð ákvæði sem varða þátttöku í kostnaði við tannlækningar, til einföldunar og samræmingar.
Reglugerðin tekur gildi 15. september næstkomandi.
Í henni er kveðið á um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við almennar tannlækningar aldraðra, öryrkja og barna og kostnaði við tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ennfremur á þetta við um tannlækningar og tannréttingar vegna mjög alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
Þá er í reglugerðinni kveðið á um styrkveitingu sjúkratrygginga vegna kostnaðar við almennar tannréttingar og um gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands þegar samningar við tannlækna eru ekki fyrir hendi. Auk þess er að finna í reglugerðinni almenn ákvæði um sjúkratryggingu, umsóknir, ákvarðanir, kærur og fleiri atriði.
Helsta breytingin sem reglugerðin hefur í för með sér er einföldun, þar sem ein reglugerð mun gilda á þessu sviði í stað fjögurra áður. Réttindi sjúkratryggðra verða að mestu óbreytt en þó eru gerðar ákveðnar breytingar, svo sem að miðað sé við tennur framan við endajaxla í stað tólfárajaxla og að ekki þurfi að sækja sérstaklega um fóðrun blóðgóma.
- Reglugerð nr. 698/2010 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar
- Auglýsing nr. 703/2010 um staðfestingu gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands fyrir tannlækningar sem ekki hefur verið samið um skv. IV. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.