Hoppa yfir valmynd
8. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Norrænar gæðamælingar í heilbrigðisþjónustunni

Komin er út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar skýrsla um gæðamælingar í heilbrigðisþjónustunni. Í henni er greint frá vinnu fjögurra verkefnishópa. sem Norræna ráðherranefndin skipaði til þriggja ára til að skoða ýmsa þætti varðandi gæðaþróun og öryggi sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni á Norðurlöndunum.

Hóparnir voru skipaðir árið 2007, en þeir hafa nú lokið starfi sínu og skilað skýrslu. Í vikunni fór fram ráðstefna í Kaupmannahöfn um helstu niðurstöðurnar.

Helsta markmið vinnunnar var að gefa norrænum borgurum, stjórnmálamönnum, heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisyfirvöldum tækifæri til að meta og bera saman heilbrigðisþjónustu á öllum Norðurlöndunum. Annað markmið var að skilgreina svið þar sem Norðurlandaþjóðirnar geta lært hver af annarri með það fyrir augum að auka gæði heilbrigðisþjónustu.

Á Norðurlöndunum eru einstök tækifæri til þess að mæla heilbrigðisþjónustuna og hafa eftirlit með henni vegna þess að öll löndin skrá jafnóðum gögn í heilbrigðisskrár, segir í samantekt verkefnishópanna. Í starfi sínu skoðuðu vekefnishóparnir eftirfarandi þætti:

  • Almenna og sjúkdómstengda gæðavísa
  • Gæðavísa fyrir munn- og tannheilsu
  • Gæðavísa fyrir öryggi sjúklinga
  • Gæðavísa um reynslu sjúklinga af gæðum heilbrigðisþjónustunnar

Á verkefnistímanum hefur verið náin samvinna við OECD til að tryggja samvinnu í alþjóðlegri vinnu með gæðavísana.

Í niðurstöðum verkefnishópanna kemur m.a. fram að draga megi þá ályktun að hægt sé að greina viðeigandi gæðavísa fyrir öll löndin. Eftir sem áður sé þörf á töluverðri vinnu við að tryggja gæði gagnanna ásamt því að útvega gögn frá ýmsum sviðum til viðbótar.

Verkefnishóparnir mæla með að í framhaldinu verði gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • að á sviðum þar sem fyrir liggja traust gögn í tengslum við hina völdu gæðavísa skuli NOMESCO birta þessi gögn jafnóðum með það að markmiði að veita almenningi, stjórnmálamönnum, heilbrigðisstarfsfólki og stjórnvöldum yfirsýn yfir gæði þjónustunnar í heilbrigðiskerfinu á öllum Norðurlöndunum
  • að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar verði komið á fót starfshópi sem þrói áfram samnorræna gæðavísa fyrir geðheilbrigði, ásamt forvörnum og heilsueflingu
  • að komið verði á fót starfshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem hafi það meginverkefni að þróa áfram samnorrænt samstarf um öryggi sjúklinga
  • að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar verði komið á fót starfshópi í því skyni að þróa áfram gæðavísa á sviði munn- og tannheilsu

Skýrsla um gæðamælingar í heilbrigðisþjónustunni


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta