Svæðisfundur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu
Í þessari viku stendur yfir í Moskvu 60. svæðisfundur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Evrópu. Fundinn sækja fulltrúar 53 ríkja á Evrópusvæði WHO sem nú orðið nær yfir öll fyrrum Sovétlýðveldin í Asíu.
Meðal helstu mála sem eru til umfjöllunar eru framtíðarsýn á þróun heilbrigðismála í Evrópu og gerð heilbrigðisáætlunar til ársins 2020, heilbrigðismál í utanríkisstefnu, þróunarsamvinnu og samstarfi aðildarríkjanna, samspil umhverfis og heilsu í framhaldi af fundi í Parma á Ítalíu fyrr á þessu ári, fjármál og fjármögnun WHO til framtíðar og útrýming lömunarveiki í Evrópu en nýlega hafa greinst nokkur hundruð tilfelli í Tajikistan og nágrannalöndum. Þá eru á fundinum ræddar áætlanir um að útrýma mislingum og rauðum hundum í Evrópu í síðasta lagi árið 2015.
Jafnhliða störfum svæðisnefndarinnar eru á hverjum degi haldnar málstofur um ýmis athyglisverð efni. Má þar nefna:
- Heilsa á heimsvísu
- Stefnumótun og gerð heilbrigðisáætlana
- Félagslegir orsakavaldar heilsu
- Áhrif efnahagskreppunnar á heilsu og heilbrigðiskerfi
- Heilsutengd þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Af Íslands hálfu sitja fundinn Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri, og Haraldur Briem, sóttvarnalæknir. Haraldur er jafnframt einn af stjórnendum fundarins.