Hoppa yfir valmynd
21. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Fórnarlömb mansals og heilbrigðisþjónusta

Aðgengi fórnarlamba mansals að heilbrigðisþjónustu var rætt á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar sem hófst í Riga í Lettlandi í gær, en ráðstefnunni lauk í dag.

Ráðstefnan bar yfirskriftina Stop Trafficking and Stand for Health. Meðal helstu umræðuefna var hvernig megi bæta aðgengi fórnarlamba mansals að heilbrigðisþjónustu. Í verkefni sem unnið var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á aðgenginu kom í ljós að á öllum Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum var vissum hindrunum að mæta, t.d. af lagalegum toga.

Á ráðstefnunni voru ræddar hugmyndir um hvernig hægt er að ryðja þessum hindrunum úr vegi og aðstoða fórnarlömb mansals við að taka á nýjan leik þátt í daglegu lífi í samfélaginu.

Þrír íslenskir þátttakendur voru á ráðstefnunni, þau Sveinn Magnússon, yfirlæknir í heilbrigðisráðuneytinu, Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Sveinn tók á ráðstefnunni þátt í pallborði um hvernig megi bæta ferlið varðandi heilbrigðisþjónustu við fórnarlömb mansals. Hann segir að þar hafi m.a. komið fram að mikilvægt væri að fræða starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar um aðstæður fórnarlambanna. Þá stýrði Guðrún umræðuhópi um þessi mál á ráðstefnunni.

Norræna ráðherranefndin hefur frá árinu 2001 barist gegn verslun með fólk í norðurhluta Evrópu ásamt Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og aþjóðlegum samtökum. Baráttan er komin til sem viðbrögð við því alvarlega og vaxandi vandamáli sem mansal er. Markmið samstarfsins eru m.a. að deila reynslu landanna á svæðinu, auka þekkingu á málaflokknum þar og skapa grunn að samvinnu milli landa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta