Hoppa yfir valmynd
23. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisstarfsfólk fái fræðslu um eðli og einkenni ofbeldis í nánum samböndum

 

Fræðsla um eðli og einkenni ofbeldis í nánum samböndum ætti að vera hluti af grunnnámi allra starfshópa í heilbrigðiskerfinu. Þetta er meðal tillagna sem settar eru fram í nýrri rannsókn á viðbrögðum heilbrigðisþjónustunnar við ofbeldi gegn konum.

Jafnframt er lagt til að starfsfólki í heilbrigðiskerfinu verði séð fyrir endurmenntunarnámskeiði á þessu sviði.

Rannsóknin var unnin fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið, sem hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og börnum. Ingólfur V. Gíslason, dósent  við Háskóla íslands, framkvæmdi rannsóknina.

Hún fólst í að skoða hver væru viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar gagnvart konum sem þangað leituðu og hefðu verið beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka.

Rætt var við starfsfólk heilbrigðisstofnana sem líklegast þótti til að hafa yfirlit yfir stöðu þessara mála á sinni stofnun. Alls voru viðmælendur 19 og unnu á 9 stofnunum.

Vilja aukna fræðslu

Í rannsókninni kom í ljós að starfsfólk í heilbrigðiskerfinu óskar meiri fræðslu um hvernig taka skuli á málum þegar konur sem leita heilbrigðisþjónustu skýra frá því að þær hafi orðið fyrir ofbeldi.  Töldu þátttakendur í rannsókninni æskilegt að fá meiri fræðslu um helstu einkenni, hvernig eigi að spyrja og hvað eigi að gera ef upp kemur ofbeldisbeiting.  

Meðal helstu niðurstaðna rannsóknarinnar er að skráningar í heilbrigðiskerfinu geti ekki verið grundvöllur að mati á tíðni heimilisofbeldis eða hvort tilfellum fer fækkandi eða fjölgandi. Hvergi í hinu almenna heilbrigðiskerfi eru spurningar um reynslu af ofbeldi hluti af almennum upplýsingum um skjólstæðinga.

Ekki eru heldur til neinar fastmótaðar leiðir varðandi það hvernig tekið er á þeim tilfellum þar sem kona skýrir frá ofbeldi.  Þá nefndu þátttakendur í rannsókninni oft að mikilvægt væri að til staðar væri miðstöð sem gæti komið málum tengdum ofbeldi í réttan farveg.

Í rannsókninni er m.a lagt til að gerð verði tilraun á nokkrum heilsugæslustöðvum um skimun fyrir ofbeldi og síðan metið hvort æskilegt sé að gera skimun að almennu verklagi. Einnig verði skoðað hvort mæðraskrár eigi að innihalda spurningar um reynslu af ofbeldi þannig að allar þungaðar konur verði spurðar.

Umfjöllun á vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta