Hoppa yfir valmynd
30. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Fyrstu bleiku slaufurnar afhentar

Fyrstu bleiku slaufurnar í átaki Krabbameinsfélagsins sem ætlað er að vekja athygli á konum og krabbameini, voru afhentar í heilbrigðisráðuneytinu í dag. Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra nældi fyrstu slaufunum í þær Ágústu Ernu Hilmarsdóttur, Guðnýju Kristrúnu Guðjónsdóttur og Stefaníu Guðmundsdóttur, en þær hafa allar barist við krabbamein.

Í ár verða alls 50.000 bleikar slaufur boðnar til sölu, en þær verða seldar dagana 1.-15. október. Undanfarinn áratug hefur Krabbameinsfélag Íslands beint sjónum landsmanna að krabbameinum kvenna í októbermánuði, einkum þó brjóstakrabbameini, sem er algengast þeirra. Þetta hefur verið gert undir merki bleiku slaufunnar og bleiki liturinn verið notaður til að leggja áherslu á málefnið.

Ráðherra minnti við afendinguna á mikilvægi átaks sem þessa fyrir starf Krabbameinsfélagsins. Hann sagði að hjá mörgum væri það orðin hefð að kaupa bleiku slaufuna árlega. „Ég hvet þjóðina til þess að kaupa bleiku slaufuna og bera hana allan októbermánuð til þess að styðja hið góða starf Krabbameinsfélagsins og til að minna okkur öll stöðugt á mikilvægi árvekni og forvarna á þessu sviði,” sagði Guðbjartur.

„Sjálfum þykja mér slaufurnar fallega hannaðar og hef oft keypt þær til gjafa,“ sagði ráðherra ennfremur, en í ár var í fyrsta sinn haldin samkeppni um hönnun slaufunnar. Þar bar sigur úr býtum Ragnheiður I. Margeirsdóttir, en hún sótti innblástur sinn í skúfinn á íslensku skotthhúfunni. 

Hægt verður að kaupa bleiku slaufuna í tveimur útgáfum hjá samstarfsaðilum Krabbameinsfélagsins um land allt. Þá verður hægt að kaupa viðhafnarútgáfu af slaufunni úr silfri hjá Leonard í Kringlunni, Smáralind og Leifsstöð.  

Ár hvert greinast um 640 íslenskar konur með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins. Um 15.000 konur koma í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð ár hvert og um fimm þúsund konur mæta í krabbameinsleit á vegum félagsins um land allt. 

Bleikar slaufur afhentar

 Heilbrigðisráðherra afhenti fyrstu bleiku slaufurnar í heilbrigðisráðuneytinu í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta