Mikilvægt að vinna að því að bæta líf barna og fjölskyldna
Þeir sem starfa við að tryggja og bæta líf barna eða fjölskyldna vinna mikilvægustu störfin í samfélaginu. Þetta kom fram í erindi sem Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra, flutti við setningu ráðstefnunnar Fjölskyldan og barnið, sem kvenna- og barnasvið Landspítala boðaði til á dögunum.
Á ráðstefnunni, sem haldin var á Hótel Nordica þann 8. október, voru kynntar ýmsar rannsóknir. M.a. var fjallað um þróun fósturskimunar á Islandi, áhrif tóbaksreykinga á meðgöngu og óbeinna reykinga á börn og reynslu foreldra of feitra barna.
Heilbrigðisráðherra sagði í opnunarávarpi sínu að velferðarþjónustan, jafnt á tímum þrenginga sem á uppgangstímum, ætti að „tryggja fjárhagslegt öryggi, húsaskjól, gott andlegt og líkamlegt atlæti, gott uppeldi og menntun, heilbrigðisþjónustu og tómstundir“.
„Á meðan við stillum saman að nýju útgjöld og tekur okkar sameiginlega sjóðs, reynir á alla þessa þætti. Því er mikilvægara en nokkru sinni að hafa á hreinu til hvers velferðarþjónustan er, fyrir hvern við erum að vinna og hvers við þurfum að gæta,“ sagði ráðherra og fagnaði því að haldin væri ráðstefna þar sem sérstaklega væri fjallað um börn. „Hún skapar umgjörð og tækifæri til að dreifa þekkingu, kveikja hugmynir og vekja upp nýjar vonir.“
Ávarp heilbrigðisráðherra