Hoppa yfir valmynd
26. júní 2003 Forsætisráðuneytið

A-161/2003 Úrskurður frá 26. júní 2003

ÚRSKURÐUR

Hinn 26. júní 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-161/2003:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 3. júní sl., kærði [ …], til heimilis að [ …] , synjun iðnaðarráðuneytisins, dagsetta 26. maí sl., um að veita honum aðgang að nánar tilteknum gögnum um þátt ráðuneytisins í sölu Hitaveitu Dalabyggðar ehf.

Með bréfi, dagsettu 4. júní sl., var kæran kynnt iðnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 18. júní sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu í trúnaði látin í té afrit þeirra gagna, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 18. júní sl., barst innan tilskilsins frests, ásamt umbeðnum gögnum.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi til iðnaðarráðuneytisins, dagsettu 15. maí sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að gögnum sem varpað „kunna ljósi á þátt ráðuneytisins í því ferli sem leitt hefur til þess að undirritaður hefur verið kaupsamningur milli Hitaveitu Dalabyggðar ehf. og Orkubús Vestfjarða hf. þar sem Orkubú Vestfjarða kaupir Hitaveitu Dalabyggðar." Til stuðnings beiðninni vitnaði kærandi til erindis iðnaðarráðherra til Orkubús Vestfjarða, dagsetts 10. mars 2003, og óskaði sérstaklega eftir aðgangi að gögnum sem skýrt geti þá ákvörðun ráðherra „að óska eftir því við Orkubú Vestfjarða hf. að fyrirtækið taki upp viðræður við Hitaveitu Dalabyggðar ehf. um kaup á eignum og rekstri fyrirtækisins".

Iðnaðarráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 26. maí sl. Lét það honum í té öll umbeðin gögn, að undanskildum tveimur minnisblöðum, sem ráðuneytið taldi að væru undanþegin aðgangi almennings á grundvelli 1. og 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í kæru til nefndarinnar, dagsettri 3. júní sl., heldur kærandi því fram að ekkert komi fram í þeim gögnum, er honum hafa verið látin í té, sem skýrt geti tilvitnaða ákvörðun iðnaðarráðherra hér að framan.

Í umsögn iðnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. júní sl., er áréttað að umrædd minnisblöð séu undanþegin aðgangi almennings á grundvelli 1. og 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Annars vegar sé um að ræða minnisblað sem iðnaðarráðherra hafi lagt fyrir ríkisstjórnina til þess að upplýsa hana um stöðu málsins. Minnisblaðið hafi ekki verið kynnt á öðrum vettvangi og uppfylli þar með ótvírætt þau skilyrði sem gerð séu til þess að fella megi skjal undir undanþáguákvæði 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Hins vegar sé um að ræða minnisblað skrifstofustjóra ráðuneytisins til ráðherra og ráðuneytisstjóra, þar sem dregnar séu saman þær upplýsingar sem fyrir lágu í málinu. Þar sé ekki að finna ákvörðun um afgreiðslu málsins. Að þessu athuguðu telur ráðuneytið að minnisblaðið sé undanþegið aðgangi almennings á grundvelli 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Aðspurt hefur ráðuneytið upplýst að síðarnefnda minnisblaðið hafi ekki verið sýnt öðrum utan ráðuneytisins.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr. laganna."

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til „fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi". Í upphafi 17. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni." Regla þessi er áréttuð í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands. Markmið hins tilvitnaða ákvæðis í 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga er, eins og ráðið verður af athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna, að ríkisstjórn og einstakir ráðherrar geti, með tilliti til almannahagsmuna, fjallað á fundum sínum um pólitísk mál og mótað í sameiningu stefnu í mikilvægum málum, án þess að þeim sé skylt að veita almenningi aðgang að gögnum sem tekin hafa verið saman fyrir þá fundi.

Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur upplýsingaréttur almennings heldur ekki til „vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá". Skilyrði fyrir því, að skjal teljist vinnuskjal í skilningi þessa ákvæðis, er að það sé ritað til eigin afnota fyrir stjórnvaldið sjálft. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, segir svo um þetta atriði: „Með vinnuskjölum er hér einkum átt við skjöl sem stjórnvald ritar til eigin afnota, svo og skjöl sem fara á milli deilda, skrifstofa eða að öðru leyti á milli starfsmanna hjá sama stjórnvaldi."

Eins og tekið er fram í niðurlagi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, ber að veita aðgang að vinnuskjölum, sem falla undir ákvæðið, ef þau hafa að geyma „upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá". Síðastgreint orðalag er skýrt svo í athugasemdum með frumvarpi til laganna að með því sé „einkum átt við upplýsingar um staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa vegið þungt við ákvörðunartöku."

2.

Mál það, sem til úrlausnar er, snýst um það hvort kærandi eigi rétt á því, samkvæmt upplýsingalögum, að fá aðgang að tveimur minnisblöðum í vörslum iðnaðarráðuneytisins.

Fyrra minnisblaðið, sem dagsett er 27. febrúar sl., var ritað af skrifstofustjóra ráðuneytisins til ráðherra og ráðuneytisstjóra. Samkvæmt framansögðu var því um að ræða vinnuskjal sem fellur undir undantekningarákvæðið í 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

Í fyrri hluta minnisblaðsins eru dregnar saman staðreyndir þess máls, sem til umfjöllunar var, og koma þær í höfuðdráttum fram í þeim gögnum sem iðnaðarráðuneytið hefur látið kæranda í té. Í síðari hluta minnisblaðsins eru dregnar ályktanir af þessum staðreyndum og m.a. sett fram tillaga þess, sem það tók saman, um afgreiðslu málsins af hálfu ráðuneytisins. Þar er hvorki að finna endanlega ákvörðun ráðuneytisins um afgreiðslu málsins, sem fram kemur hins vegar í bréfi þess til Orkubús Vestfjarða hf. 10. mars sl., né upplýsingar um staðreyndir málsins sem máli skipta og ekki verður aflað annars staðar frá. Með vísun til þess, sem að framan greinir, er það því niðurstaða úrskurðarnefndar að minnisblaðið sé undanskilið upplýsingarétti almennings í heild sinni.


Síðara minnisblaðið, sem dagsett er 1. apríl 2003 og fjallar um sama mál, var lagt fyrir ríkisstjórnina af iðnaðarráðherra. Upplýst er að það hafi ekki verið kynnt á öðrum vettvangi. Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. upplýsingalaga tekur upplýsingaréttur almennings því ekki til þess.


Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta þá ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að umræddum minnisblöðum.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að synja kæranda, [ ...] , um aðgang að minnisblöðum, dagsettum 27. febrúar sl. og 1. apríl sl., sem fjalla m.a. um hugsanleg kaup Orkubús Vestfjarða hf. á Hitaveitu Dalabyggðar ehf.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta