Hoppa yfir valmynd
28. október 2003 Forsætisráðuneytið

A-165/2003 Úrskurður frá 28. október 2003

ÚRSKURÐUR

Hinn 28. október 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-165/2003:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 18. ágúst sl., kærði [ …] trúnaðarmaður, f.h. læknaritara Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, synjun Landspítala háskólasjúkrahúss, dagsetta 22. júlí sl., um að veita henni aðgang að upplýsingum um föst laun 28 nafngreindra læknaritara og skrifstofustjóra á sjúkrahúsinu.

Með bréfi, dagsettu 29. ágúst sl., var kæran kynnt Landspítala háskólasjúkrahúsi og því veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 10. september sl. Jafnframt var þess óskað að í umsögn sjúkrahússins kæmi fram á hvern hátt umbeðnar upplýsingar væru varðveittar. Að beiðni stofnunarinnar var frestur þessi framlengdur um eina viku og barst umsögnin, dagsett 16. september sl., innan þess frests. Þar segir að yfirlit eða skjal með umbeðnum upplýsingum sé ekki til í því formi sem um hafi verið beðið. Á hinn bóginn er þar tekið fram að þegar gerðir hafi verið formlegir samningar við starfsmenn um fasta yfirvinnu séu þeir varðveittir í starfsmannamöppu viðkomandi launþega á launadeild stofnunarinnar.

Í ljósi þessa var því beint til Landspítala háskólasjúkrahúss að kanna hvort slíkir samningar hafi verið gerðir við einhvern þeirra, sem nafngreindur er í bréfi kæranda til sjúkrahússins, dagsettu 26. maí sl. Hafi svo verið gert, var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té afrit af þeim samningum. Með bréfi, dagsettu 1. október sl., bárust afrit af samningum við 21 þeirra starfsmanna sem nafngreindir eru í fyrrgreindu bréfi kæranda til sjúkrahússins.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til Landspítala háskólasjúkrahúss, dagsettu 15. maí sl., fór kærandi fram á að fá upplýsingar um grunnlaun og fasta yfirvinnu löggiltra læknaritara á sjúkrahúsinu á síðastliðnu ári. Sjúkrahúsið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 21. maí sl., þar sem tekið er fram að fastar yfirvinnugreiðslur séu hluti af ráðningarkjörum læknaritara við sjúkrahúsið, en mismunandi eftir eðli og umfangi starfa hvers og eins. Jafnframt var því hafnað að veita upplýsingar um umfang þeirra með vísun til úrskurðar úrskurðarnefndar, uppkveðnum 27. nóvember 1997, í málinu nr. A-32/1997.

Með bréfi kæranda til Landspítala háskólasjúkrahúss, dagsettu 26. maí sl., var í ljósi framangreinds úrskurðar og með skírskotun til 3. gr., sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, farið fram á að fá að aðgang að upplýsingum um föst laun, þ.e. grunnlaun og fastar yfirvinnugreiðslur, nokkurra nafngreindra læknaritara og skrifstofustjóra á sjúkrahúsinu. Var þessari beiðni kæranda einnig hafnað af hálfu sjúkrahússins með bréfi, dagsettu 22. júlí sl. Þar segir að yfirvinnugreiðslur séu greiddar hlutaðeigandi starfsmönnum fyrir vinnuframlag sem geti verið mismunandi, bæði eftir deildum og innan deilda, auk þess sem slíkar greiðslur geti tekið breytingum frá einum tíma til annars. Í þessu sambandi er enn vísað til úrskurðar í máli nr. A-32/1997. Af hálfu sjúkrahússins sé heldur ekki litið á umræddar yfirvinnugreiðslur á sama hátt og mánaðarlaun eða taxtalaun.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. ágúst sl., er áhersla lögð á að með samningsbundnum föstum yfirvinnugreiðslum sé átt við fastar greiðslur, sem samsvari tilteknum fjölda yfirvinnustunda er greiddar séu til launþega, hvort sem hann hefur unnið þessar stundir eða ekki og séu þær því hluti af umsömdum kjörum hans. Með öðrum orðum sé átt við óunna yfirvinnu, sbr. úrskurð í máli nr. A-32/1997, þar sem sama hugtak sé notað án þess að vafi leiki á merkingu þess. Áréttað er að beiðni kæranda taki til upplýsinga um fjölda fastra, umsamdra yfirvinnustunda hjá nokkrum nafngreindum læknariturum sem valdir hafi verið af handahófi. Ennfremur að beiðnin taki hvorki til svonefndra launalista né upplýsinga um aðra þætti launa hjá þeim.

Í umsögn Landspítala háskólasjúkrahúss til úrskurðarnefndar, dagsettri 16. september sl., segir m.a. svo: „Yfirvinna á föstum forsendum sem greidd er til hluta þeirra starfsmanna sem um er spurt er ekki óunnin yfirvinna sem greidd er fyrir dagvinnu eina og sér. Hér er um að ræða greiðslu fyrir vinnuframlag sem þó kann að vera mismunandi . . . Vegna þessa er fjöldi yfirvinnutíma mismunandi eftir því hvaða störf er um að ræða. - Í þessu sambandi má benda á að í samningum um yfirvinnutíma á föstum forsendum sem gerðir eru nú um stundir á LSH, m.a. við læknaritara, er eftirfarandi texti: „ . . . Starfsmaður fær ekki greidda yfirvinnu umfram þann tímafjölda á mánuði er að framan greinir, enda ekki gert ráð fyrir að yfirvinna starfsmanns verði að jafnði meiri en því nemur." Þá er bent á að um sé að ræða greiðslur fyrir vinnuframlag og því hluti af ráðningarbundnum kjörum sem varði starf hvers og eins starfsmanns. Upplýsingar um fjölda fastra tíma varði því persónubundin kjör og feli að hluta í sér upplýsingar um vinnuframlag hvers og eins starfsmanns.

Í umsögn Landspítala háskólasjúkrahúss er ennfremur tekið fram að upplýsingar um yfirvinnu, bæði fasta og breytilega, séu varðveittar eins og aðrar launaupplýsingar í launakerfi stofunarinnar. Yfirlit eða skjal í því formi, sem um sé beðið, sé ekki til sem slíkt. Þegar gerðir hafi verið formlegir samningar við starfsmenn um fasta yfirvinnu séu „þeir varðveittir í starfsmannamöppu viðkomandi launþega á launadeild stofnunarinnar ásamt tilkynningum um breytingar sem kunna að hafa verið gerðar á slíkum samningum í gegnum tíðina." Í sumum tilvikum séu skriflegir samningar ekki til staðar um þessi ráðningarkjör, en það eigi einkum við um eldri starfsmenn.

Með skírskotun til síðastgreindra upplýsinga var í bréfi úrskurðarnefndar til Landspítala háskólasjúkrahúss, dagsettu 24. september sl., farið fram á að kannað yrði hvort slíkir samningar hafi verið gerðir við einhvern þeirra sem nafngreindur er á lista með bréfi kæranda til sjúkrahússins, dagsettu 26. maí sl. Hafi svo verið gert, var því jafnframt beint til sjúkrahússins að láta úrskurðarnefnd afrit slíkra samninga í té í trúnaði. Með bréfi sjúkrahússins, dagsettu 1. október sl., voru úrskurðarnefnd send afrit af samningum um fasta yfirvinnutíma við 21 starfsmann af þeim 28, sem listi kæranda tók til, ásamt afritum af breytingatilkynningum. Samningar þessir bera ýmist yfirskriftina „Samningur um fasta yfirvinnu" eða „Samningur um yfirvinnu á föstum forsendum". Í samningunum er m.a. vísað til þess að samningur um fasta yfirvinnu gildi ákveðinn tíma. Í bréfi sjúkrahússins er þess getið að ekki hafi verið til formleg gögn varðandi sjö af þeim starfsmönnum sem er að finna á lista kæranda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Skýra verður beiðni kæranda svo, m.a. með hliðsjón af því hvernig hún orðar kæru sína, að hún óski eftir upplýsingum um „fastar yfirvinnugreiðslur" til 28 nafngreindra starfsmanna á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Upplýst hefur verið af hálfu sjúkrahússins að gerðir hafi verið samningar um slíkar greiðslur við 21 af þessum 28 starfsmönnum.

Í öðrum málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, eins og honum var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000, er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til. Í 2. mgr. 44. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er kveðið svo á um að þau lög takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, hefur kærandi eins og áður greinir óskað eftir aðgangi að upplýsingum úr 21 samningi, ásamt fylgiskjölum, en þau skjöl falla öll undir 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Þar með ber að leysa úr á málinu á grundvelli þeirra laga, en ekki laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 5. gr. laganna er að finna svohljóðandi ákvæði: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, segir svo um skýringu á þessu ákvæði: „Að því er snertir laun opinberra starfsmanna þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings. Á grundvelli 5. gr. er það aftur á móti undanþegið aðgangi almennings hver heildarlaun hver opinber starfsmaður hefur haft, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör, sem stöðu hans fylgja, sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri vegna launafrádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika."

Í þeim 21 samningi, sem áður eru nefndir, er í öllum tilvikum samið um fastar lágmarksgreiðslur fyrir yfirvinnu á mánuði til handa þeim starfsmönnum, sem hlut eiga að máli, óháð því hvort vinnuframlag þeirra breytist frá einum mánuði til annars. Samkvæmt framansögðu teljast þessar greiðslur því til fastra launa starfsmannanna og eru upplýsingar um þær þar af leiðandi ekki undanþegnar upplýsingarétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga.

3.

Sá sem fer fram á aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því að tilgreina annaðhvort þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Eins og mál þetta er vaxið hefur kærandi óskað eftir aðgangi að tilteknum upplýsingum úr 21 stjórnsýslumáli. Með vísun til þess að um er að ræða sams konar upplýsingar og með hliðsjón af málsatvikum að öðru leyti er það niðurstaða úrskurðarnefndar að beiðnin sé nægilega afmörkuð í skilningi 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga til þess að Landspítala háskólasjúkrahúsi sé skylt að verða við henni.

Samningar þeir um fastar yfirvinnugreiðslur, sem um er að ræða, eru staðlaðir ef frá eru taldar almennar upplýsingar um hlutaðeigandi starfsmann, starfshlutfall hans, fjölda fastra yfirvinnustunda á mánuði og gildistíma hvers samnings. Af þeim sökum er rétt að kærandi fái aðgang að samningunum í heild sinni, ásamt tilkynningum um breytingar á þeim.

Úrskurðarorð:

Landspítala háskólasjúkrahúsi er skylt að veita kæranda, [ …] , aðgang að samningum um yfirvinnugreiðslur við 21 starfsmann á sjúkrahúsinu, eftir því sem nánar er kveðið á um í úrskurði þessum.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta