Hoppa yfir valmynd
17. desember 2003 Forsætisráðuneytið

A-167/2003 Úrskurður frá 17. desember 2003

ÚRSKURÐUR

Hinn 17. desember 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-167/2003:

Kæruefni

Með bréfum, dagsettum 17. nóvember sl., kærðu [ …] og [ …] , til heimilis að [ …] á [ …] , meðferð forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis á beiðnum þeirra, dagsettum 19. september sl., um að veita þeim aðgang að gögnum í þeirra vörslum um málefni sonar þeirra sem lést í Hollandi á fyrra ári.

Með bréfum, dagsettum 19. nóvember sl., voru kærurnar kynntar ráðuneytunum og því beint til þeirra að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kærenda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 28. nóvember sl. Yrði kærendum synjað um aðgang að umbeðnum gögnum var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin afrit þeirra í té sem trúnaðarmál innan sama frests. Í því tilviki var ráðuneytunum ennfremur gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum innan sömu tímamarka.

Utanríkisráðuneyti synjaði um aðgang að hluta þeirra gagna, sem ráðuneytið hefur í vörslum sínum, og lét nefndinni í té afrit af þeim með bréfi, dagsettu 27. nóvember sl.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að sonur kærenda, [ …] , hvarf í Rotterdam í Hollandi 27. júní 2002 og fannst síðar látinn þar tveimur dögum síðar, 29. júní 2002. Fljótlega eftir andlát hans leituðu kærendur eftir atbeina íslenskra stjórnvalda til þess að fylgja eftir rannsókn á aðdraganda þess í Hollandi. Með bréfum til forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis, dagsettum 17. september sl., fóru kærendur þess á leit að fá staðfest endurrit af öllum gögnum er ráðuneytin byggju yfir í málinu.

Forsætisráðuneytið svaraði beiðni kærenda með bréfi, dagsettu 17. nóvember sl., og lét þeim í té afrit af öllum gögnum málsins, sem voru í vörslum þess, ásamt lista yfir málsgögn. Utanríkisráðuneyti svaraði beiðni kærenda með bréfi, dagsettu 27. nóvember sl., og lét þeim einnig í té öll gögn ráðuneytisins, sem málið varða, önnur en þau sem það taldi varða samskipti íslenskra og hollenskra lögregluyfirvalda.

Í umsögn utanríkisráðuneytis til úrskurðarnefndar, dagsettri 27. nóvember sl., kemur fram að gögn þessi hafi verið látin ráðuneytinu í té í trúnaði og að nauðsynlegt sé fyrir lögregluyfirvöld að geta treyst því að trúnaður ríki í samskiptum þeirra. Auk þess varði gögn þessi rannsókn opinbers máls sem ekki sé lokið. Þau kunni jafnframt að hafa að geyma upplýsingar sem séu þess eðlis að þær verði að fara leynt samkvæmt hollenskum lögum. Með vísun til þess telur ráðuneytið að takmarka beri aðgang að þeim á grundvelli 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. sömu laga.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Mál það, sem til úrlausnar er, varðar beiðni kærenda um aðgang að gögnum í vörslum forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis er lúta að rannsókn sem fram fer á aðdraganda að andláti sonar þeirra í Hollandi. Upplýst er að forsætisráðuneytið hefur veitt þeim aðgang að öllum gögnum í vörslum þess ráðuneytis sem varða umrætt mál. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa kæru á hendur því ráðuneyti frá úrskurðarnefnd.

2.

Fyrrgreind rannsókn beinist að því að upplýsa hvort lát sonar kærenda verði rakið til refsiverðs verknaðar og, ef svo er, hver eða hverjir hafi verið þar að verki. Þótt íslensk yfirvöld og rannsóknaraðilar hafi veitt aðstoð við rannsóknina er hún í höndum hollenskra yfirvalda.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki „um rannsókn eða saksókn í opinberu máli." Samkvæmt þessu lagaákvæði er enginn greinarmunur gerður á því hvort rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi fer fram hér á landi eða erlendis. Þar af leiðandi tekur ákvæðið til þeirrar rannsóknar sem mál þetta snýst um.

Ekki er tekið fram í upplýsingalögum eða lögskýringargögnum hvers konar gögn það eru sem varða rannsókn eða saksókn í opinberu máli í skilningi hins tilvitnaða lagaákvæðis. Þó er ljóst að til þeirra teljast skjöl og önnur gögn, sem eru eða munu að öllum líkindum koma til skoðunar við rannsókn lögreglu á ætluðum refsiverðum brotum. Ennfremur hljóta bréfaskipti milli lögregluyfirvalda og, eftir atvikum, handhafa ákæruvalds vegna rannsóknar opinbers máls að flokkast undir slík gögn, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar 6. desember 2001 í máli nr. A-137/2001.

Þau skjöl, sem utanríkisráðuneyti hefur synjað kærendum um aðgang að, eru þessi:

1. Bréf ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dagsett 6. ágúst 2002.

2. Bréf ráðuneytisins til ríkislögreglustjóra, dagsett 2. september 2002.

3. Bréf ríkislögreglustjóra til saksóknara í Rotterdam í Hollandi (á íslensku og í hollenskri þýðingu), dagsett 24. október 2002.

4. Bréf saksóknara í Rotterdam í Hollandi til ríkislögreglustjóra (á hollensku og í enskri þýðingu), dagsett 26. nóvember 2002.

5. Orðsending ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dagsett 17. desember 2002.

6. Bréf ráðuneytisins til ríkislögreglustjóra, dagsett 4. apríl 2003.

7. Bréf ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dagsett 7. apríl 2003.

8. Bréf ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dagsett 8. apríl 2003.

9. Erindi ráðuneytisins til sendiráðs Íslands í Lundúnum, dagsett 1. maí 2003.

10. Tölvubréf ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dagsett 1. maí 2003.

Með skírskotun til þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að þau skjöl, sem auðkennd eru nr. 3, 4, 9 og 10 hér að framan, séu þess eðlis að þau varði rannsókn opinbers máls í skilningi ákvæðisins í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Vegna þess að ekki verður krafist aðgangs að skjölunum á grundvelli upplýsingalaga verður synjun um aðgang að þeim ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ber því að vísa frá nefndinni þeim hluta kærunnar á hendur utanríkisráðuneyti sem snýr að þessum skjölum.

Eins og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar 6. september 2001 í máli nr. A-127/2001, áskilur nefndin sér rétt til þess að meta það, í ljósi atvika hverju sinni, hvort aðgangur skuli veittur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga þótt þau kunni að tengjast rannsókn opinbers máls. Í því efni skiptir m.a. máli hvort ætla megi að gögn þau, sem um er að ræða, verði tekin til skoðunar við rannsókn málsins.

Í bréfum þeim og erindum, sem farið hafa á milli utanríkisráðuneytis og ríkislögreglustjóra og auðkennd eru nr. 1, 2, 5, 6, 7 og 8 hér að framan, er fyrst og fremst að finna upplýsingar um afskipti íslenskra stjórnvalda af rannsókn þeirri sem mál þetta snýst um. Ekki verður séð að þessi skjöl, sem farið hafa á milli íslenskra stjórnvalda, verði tekin til skoðunar við rannsókn þá sem fram fer á vegum hollenskra yfirvalda og mál þetta er sprottið af. Samkvæmt því og með vísun til þess, sem að framan greinir, lítur úrskurðarnefnd svo á að leysa beri úr rétti kærenda til aðgangs að þessum síðastgreindu skjölum á grundvelli upplýsingalaga, enda er hér ekki um að ræða mál, þar sem tekin verður ákvörðun af hérlendum stjórnvöldum um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

2.

Kærendur hafa sem foreldrar látins sonar síns einstaklega hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að síðastgreindum skjölum. Af þeim sökum ber að leysa úr beiðni þeirra samkvæmt III. kafla upplýsingalaga.

Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. þeirrar greinar gilda ákvæði 1. mgr. ekki „um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni er leynt eiga að fara skv. 6. gr." Ennfremur er heimilt að takmarka aðgang skv. 1. mgr. 9. gr. „að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum", eins og segir í 3. mgr. þeirrar greinar.

Ekki verður séð að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að efni umræddra skjala sé haldið leyndum fyrir kærendum með tilliti til samskipta íslenska ríkisins við önnur ríki, skv. 2. tölul. 2. mgr. 9. gr., sbr. 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þótt í skjölunum sé að finna upplýsingar um persónuleg málefni, sem sanngjarnt er og eðlilegt að haldið sé leyndum fyrir almenningi, að minnsta kosti á þessu stigi máls, er ekkert sem mælir á móti því að kærendur fái aðgang að þeim sem nánustu eftirlifandi aðstandendur hins látna. Samkvæmt því ber utanríkisráðuneyti að veita þeim aðgang að umræddum sex skjölum.

Úrskurðarorð:

Kæru [ …] og [ …] á hendur forsætisráðuneyti er vísað frá úrskurðarnefnd.

Utanríkisráðuneyti ber að veita kærendum aðgang að skjölum sem varða rannsókn á andláti sonar þeirra og auðkennd eru nr. 1, 2, 5, 6, 7 og 8 hér að framan. Kæru þeirra á hendur ráðuneytinu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta