Hoppa yfir valmynd
26. mars 2004 Forsætisráðuneytið

A-170/2004 Úrskurður frá 26. mars 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 26. mars 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-170/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 12. janúar sl., kærði [ …] synjun Fiskræktarsjóðs um að veita félaginu aðgang að nánar tilgreindum upplýsingum um umsóknir um styrki og styrkveitingar úr sjóðnum á árunum 2002 og 2003.

Með bréfi, dagsettu 26. janúar sl., var kæran kynnt Fiskræktarsjóði og sjóðnum veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 6. febrúar sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn Fiskræktarsjóðs, dagsett 29. janúar sl., barst innan tilskilins frests, ásamt eftirtöldum gögnum:

1. Ódagsettu bréfi frá Jóhannesi Sturlaugssyni, fyrrum starfsmanni Veiðimálastofnunar, til stjórnarformanns Fiskræktarsjóðs.

2. Umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til verkefnis um útbreiðslu og atferlisvistfræði íslenskra laxa í sjó – mælimerkingar gönguseiða, dagsettri 26. mars 2002.

3. Erindi Veiðimálastofnunar til Fiskræktarsjóðs, dagsettu 8. apríl 2003.

4. Ódagsettri umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til verkefnis um sjávardvöl íslenska laxins.

5. Bréfi frá stjórn Fiskræktarsjóðs til Veiðimálastofnunar, dagsettu 10. júní 2003, um afgreiðslu umsókna stofnunarinnar úr sjóðnum.

Með bréfi úrskurðarnefndar til Fiskræktarsjóðs, dagsettu 20. febrúar sl., var gerð athugasemd við það að umsögn sjóðsins hafi ekki fylgt nema hluti þeirra gagna sem kæran tekur til. Með vísun til 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 var þess farið á leit að sjóðurinn léti nefndinni þegar í stað í té öll gögn er varða upplýsingar um hverjum Fiskræktarsjóður hafi veitt styrki árin 2002 og 2003, hversu háa fjárhæð í hverju tilviki og um vinnuheiti þeirra verkefna sem styrkt hafa verið. Að því marki sem upplýsingar um það kæmu ekki fram í þessum gögnum, var þess jafnframt farið á leit að nefndinni yrðu látin í té gögn um það hvaða afgreiðslu umsóknir frá Veiðimálastofnun hafi fengið á árinu 2002. Ennfremur allar umsóknir frá þeirri stofnun um styrki til rannsókna á laxi í sjó.

Eftir að beiðni þessi hafði verið ítrekuð í símtali 9. mars sl. lét Fiskræktarsjóður úrskurðarnefnd í té afrit af eftirtöldum fundargerðum veiðimálanefndar sem jafnframt er stjórn sjóðsins:

6. Fundargerð frá 8. maí 2002.

7. Fundargerð frá 4. júní 2003.

Jafnframt sendi sjóðurinn nefndinni allar umsóknir um styrki úr sjóðnum á árunum 2002 og 2003. Meðal þeirra voru eftirtalin gögn sem kæruna kunna að varða:

8. Erindi Veiðimálastofnunar til Fiskræktarsjóðs, dagsett 26. mars 2002.

9. Umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til sjávarrannsókna á laxi, með nýtingu gagna um umhverfisþætti sjávar og laxgengd, dagsett 26. mars 2002.

10. Viðaukar við umsókn, auðkennda nr. 2 hér að framan, um mælimerkin DSTmicro og DSTmilli – útlit, eiginleika og notkun – og um þróun laxveiðinnar hérlendis 1970–2000, ásamt skrá yfir rit og aðra birtingu verka Jóhannesar Sturlaugssonar til og með árinu 2001.

11. Ódagsett umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til sjávarrannsókna á laxi með nýtingu gagna um umhverfisþætti sjávar og laxgengd.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til stjórnarformanns Fiskræktarsjóðs, dagsettu 28. september sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að umsóknum frá Veiðimálastofnun um styrki úr sjóðnum til rannsókna á laxi í sjó og að upplýsingum um afgreiðslu þeirra á árunum 2002 og 2003. Í beiðni kæranda kom fram að leitað væri eftir aðgangi að þessum gögnum til þess að gæta hagsmuna fyrrum starfsmanns Veiðimálastofnunar sem verið hefði verkefnisstjóri þessara rannsókna meðan hann starfaði þar.

Fiskræktarsjóður synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 14. október sl., á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga með vísun til þess að umbeðin gögn varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Veiðimálastofnunar sem stofnunin hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir að veittur verði aðgangur að. Að fenginni þessari synjun fór kærandi fram á að fá aðgang að upplýsingum um það, hverjum Fiskræktarsjóður hafi veitt styrki á árunum 2002 og 2003, hversu háa styrkfjárhæð í hverju tilviki og hvert hafi verið vinnuheiti þeirra verkefna sem styrkt voru. Bréf þessa efnis er dagsett 28. september sl., en samkvæmt kæru virðist það ekki hafa verið ritað fyrr en um miðjan októbermánuð. Með bréfi, dagsettu 26. október sl., synjaði Fiskræktarsjóður einnig þessari beiðni með vísun til þess að samþykki þeirra, sem sjóðurinn hafi styrkt, liggi ekki fyrir.

Með bréfi, dagsettu 12. janúar sl., var þessi tvíþætta synjun Fiskræktarsjóðs kærð til landbúnaðarráðherra. Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi landbúnaðarráðuneytið úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæruna með bréfi, dagsettu 19. janúar sl.

Í kærunni dregur kærandi í efa að 5. gr. upplýsingalaga geti átt við um aðgang að upplýsingum um styrki úr opinberum sjóðum. Sérstaklega er því vísað á bug að Veiðimálastofnun geti notið verndar þessa ákvæðis.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga er kærufrestur til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 30 dagar. Þótt sá frestur hafi verið liðinn, þegar hinar kærðu ákvarðanir Fiskræktarsjóðs voru bornar undir nefndina, er afsakanlegt að kæran barst ekki fyrr, þar sem kæranda voru ekki veittar leiðbeiningar um heimild til þess að kæra ákvarðanirnar, kærufrest eða hvert beina skyldi kærunni, svo sem skylt er skv. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Verður henni því ekki vísað frá nefndinni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. þeirra laga.

2.

Kærandi hefur farið fram á að fá aðgang að umsóknum frá Veiðimálastofnun um styrki til rannsókna á laxi í sjó og að upplýsingum um afgreiðslu þeirra á árunum 2002 og 2003. Ennfremur að upplýsingum um það, hverjum Fiskræktarsjóður hafi veitt styrki á árunum 2002 og 2003, hversu háa styrkfjárhæð í hverju tilviki og hvert hafi verið vinnuheiti þeirra verkefna sem styrkt voru. Ber að leysa úr þessari beiðni hans á grundvelli II. kafla upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4. – 6. gr. þeirra, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, t.d. með því að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum.

Í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða." Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli. Með hliðsjón af því verður að skýra beiðni kæranda á þann veg að hún beinist að því að fá aðgang að eftirgreindum skjölum í vörslum Fiskræktarsjóðs:

A. Erindi Veiðimálastofnunar til Fiskræktarsjóðs, dagsettu 26. mars 2002, skjal auðkennt nr. 8 hér að framan.

B. Umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til verkefnis um útbreiðslu og atferlisvistfræði íslenskra laxa í sjó – mælimerkingar gönguseiða, dagsettri 26. mars 2002, skjal auðkennt nr. 2.

C. Umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til sjávarrannsókna á laxi, með nýtingu gagna um umhverfisþætti sjávar og laxgengd, dagsettri 26. mars 2002, skjal auðkennt nr. 9.

D. Erindi Veiðimálastofnunar til Fiskræktarsjóðs, dagsettu 8. apríl 2003, skjal auðkennt nr. 3.

E. Ódagsettri umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til sjávarrannsókna á laxi með nýtingu gagna um umhverfisþætti sjávar og laxgengd, skjal auðkennt nr. 11.

F. Ódagsettri umsókn frá Veiðimálastofnun um styrk úr Fiskræktarsjóði til verkefnis um sjávardvöl íslenska laxins, skjal auðkennt nr. 4.

G. Bréfi frá stjórn Fiskræktarsjóðs til Veiðimálastofnunar, dagsettu 10. júní 2003, um afgreiðslu umsókna stofnunarinnar úr sjóðnum, skjal auðkennt nr. 5.

H. Fundargerð veiðimálanefndar, sem jafnframt er stjórn Fiskræktarsjóðs, frá 8. maí 2002, skjal auðkennt nr. 6, þar sem í liðum 1.1. – 1.11. er gerð grein fyrir afgreiðslu umsókna um styrki úr sjóðnum.

I. Fundargerð veiðimálanefndar, sem jafnframt er stjórn Fiskræktarsjóðs, frá 4. júní 2003, skjal auðkennt nr. 7, þar sem í liðum 1. – 9. er gerð grein fyrir afgreiðslu umsókna um styrki úr sjóðnum.

3.

Fiskræktarsjóður starfar á grundvelli XIV. kafla laga nr. 76/1970 um lax og silungsveiði. Veiðimálanefnd fer með stjórn sjóðsins og er henni heimilt að veita styrki og lán úr sjóðnum, með eftirfarandi samþykki landbúnaðarráðherra, eftir því sem nánar er kveðið á um í 2. mgr. 98. gr. og 99. gr. laganna.

Í 5. gr. upplýsingalaga er að finna svofellt undantekningarákvæði frá fyrrgreindri meginreglu 1. mgr. 3. gr. laganna: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila."

Veiðimálastofnun er rannsókna- og ráðgjafarstofnun í veiðimálum sem rekin er af ríkinu skv. 2. mgr. 90. gr. laga nr. 76/1970. Vegna þess að 5. gr. upplýsingalaga takmarkar einungis upplýsingarétt almennings með tilliti til einkahagsmuna, en ekki almannahagsmuna, verður því ákvæði ekki beitt til þess að takmarka rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um umsóknir Veiðimálastofnunar um styrki úr Fiskræktarsjóði og afgreiðslu þeirra. Ekki verður heldur séð að takmarka beri þennan rétt með vísun til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, enda hefur því ekki verið haldið fram af hálfu Fiskræktarsjóðs. Sama á við um rétt kæranda til þess að fá upplýsingar um umsókn um styrk frá veiðimálastjóra og afgreiðslu hennar.

Við mat á því, hvort veita skuli kæranda aðgang að upplýsingum um umsóknir frá einstaklingum og öðrum einkaaðilum um styrki úr Fiskræktarsjóði og afgreiðslu þeirra, verður annars vegar að líta til réttar almennings til þess að fá upplýsingar um úthlutun fjár úr opinberum sjóðum í formi styrkja og hins vegar hagsmuna umsækjenda og styrkþega af því að þeim upplýsingum sé haldið leyndum. Með hliðsjón af fyrrgreindri meginreglu upplýsingalaga verður ekki séð að umræddir hagsmunir þeirra, sem sótt hafa um styrki úr Fiskræktarsjóði og eftir atvikum fengið styrki úr sjóðnum, vegi þyngra en réttur almennings til að fá vitneskju um þessar umsóknir og afgreiðslu þeirra, sbr. dóm Hæstaréttar 8. október 1998 í máli nr. 497/1997, sem er að finna í dómasafni réttarins 1998, bls. 3096. Samkvæmt því er Fiskræktarsjóði skylt að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum, merktum A – G, í heild sinni, svo og að þeim hlutum af fundargerðum stjórnar sjóðsins, merktum H og I, þar sem gerð er grein fyrir afgreiðslu umsókna um styrki úr sjóðnum á árunum 2002 og 2003.

4.

Eins og áður greinir, lét Fiskræktarsjóður undir höfuð leggjast að sinna lögboðinni skyldu sinni skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga til þess að veita kæranda leiðbeiningar um að heimilt væri að kæra synjun á beiðni hans um aðgang að gögnum og upplýsingum í vörslum sjóðsins, svo og um kærufrest og hvert beina skyldi kærunni. Þá sinnti sjóðurinn ekki þeirri skyldu sinni að láta úrskurðarnefnd í té afrit af þeim gögnum, sem fram komin kæra laut að, svo sem honum er skylt skv. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, fyrr en eftir að írekað hafði verið kallað eftir þeim gögnum af hálfu nefndarinnar. Verður ekki hjá því komist að átelja þessa málsmeðferð.

Úrskurðarorð:

Fiskræktarsjóði er skylt að veita kæranda, [ …] , aðgang að umbeðnum upplýsingum um umsóknir um styrki og styrkveitingar úr sjóðnum á árunum 2002 og 2003, eftir því sem nánar er kveðið á um í úrskurði þessum.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta