Menntaþing 2024 – endurgjöf og framhald
Menntaþing var haldið á mánudag þar sem næstu aðgerðir í menntastefnu til ársins 2030 voru kynntar. Mennta- og barnamálaráðuneytið þakkar þinggestum fyrir framlag sitt og verður það nýtt við endanlega útfærslu á 2. aðgerðaáætlun menntastefnu sem nær yfir árin 2024–2027.
Opnunarávarp ungmenna á Menntaþingi
Á þinginu var rætt um stöðu menntakerfisins, hvað verið er að gera og næstu skref í menntaumbótum. Fyrirhugaðar aðgerðir voru kynntar fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica.
Fagmennska, kennaramenntun, virðing og samvinna stóðu upp úr í könnun meðal þinggesta um hvað sé mikilvægast til að efla menntakerfið.
Að lokinni kynningu á fyrirhuguðum aðgerðum komu fram sjónarmið ungmenna, foreldra, kennara, fræðafólks, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Í kjölfarið hófst hópvinna um aðgerðirnar.
Hópvinna á Menntaþingi
Áhugasamir sem ekki sáu sér fært að taka þátt eru hvattir til að kynna sér upptökuna og koma tillögum og áherslum á framfæri hér að neðan fyrir 10. október:
Eftir að unnið hefur verið úr niðurstöðum þingsins verður önnur aðgerðaáætlun kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda.