Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Yfirlýsing frá dómsmálaráðherra

Síðustu ár hefur Ísland tekist á við nýja stöðu í málefnum útlendinga, sérstaklega hvað varðar umsóknir um alþjóðlega vernd. Þær eru nú rúmlega þrjátíu sinnum fleiri en fyrir tíu árum og rúmlega tvöfalt fleiri en fyrir fimm árum. Gjörbreytt umhverfi hefur kallað á nýtt skipulag til að tryggja skilvirka en um leið mannúðlega afgreiðslu umsókna.

Réttarríkið hvílir á þeirri undirstöðu að lög séu almenn, skýr, traust og fyrirsjáanleg. Þessi sjónarmið eiga við um málefni útlendinga rétt eins og önnur mál þar sem réttindi einstaklinga eru til meðhöndlunar hjá stjórnvöldum. Allir einstaklingar í sömu aðstöðu eiga að fá sambærilega meðferð og afgreiðslu hjá opinberum stofnunum. Jafnræðis er gætt með því að gagnsæi ríki um meðferð mála hjá stjórnvöldum. Þá geta alþingismenn, fjölmiðlar og almennir borgarar gegnt nauðsynlegu eftirliti með framkvæmdinni.

Ný útlendingalög frá árinu 2017 mynda umgjörð um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Lögin voru samin af þverpólitískri nefnd og samþykkt nær samhljóða á Alþingi.

Kærunefnd útlendingamála tók til starfa árið 2015 og er óháður og óhlutdrægur úrskurðaraðili. Nefndin endurskoðar ákvarðanir Útlendingastofnunar og metur að nýju alla þætti hvers máls sem skotið er til hennar. Með tilkomu kærunefndarinnar færðist úrskurðavald í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðherra til nefndarinnar. Kærunefndinni var ekki síst komið á fót vegna gagnrýni frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossi Íslands á það fyrirkomulag að ráðuneytið endurskoðaði ákvarðanir undirstofnunar sinnar.

Kærunefnd útlendingamála hefur sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi. Þótt dómsmálaráðherra fari með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir yfir nefndinni í samræmi við þá ábyrgð sem á honum hvílir samkvæmt íslenskri stjórnskipan þá hefur ráðherra ekki heimild til að hafa bein afskipti eða önnur áhrif á málsmeðferð eða niðurstöður í einstökum málum.

Stjórnvöld hafa endurskoðað reglur sem gilda um málefni útlendinga þegar einstök mál hafa varpað ljósi á alvarlega galla á kerfinu, einkum varðandi lengd málsmeðferðartíma. Slík afskipti heyra til undantekninga en réttlæta ekki stöðug inngrip stjórnmálamanna. Slík háttsemi grefur undan kerfinu og dregur úr fagmennsku við framkvæmdina. Mikilvægt er að hafa hugfast að þegar dómsmálaráðuneytið breytti reglugerð á dögunum var um almenna stjórnvaldsframkvæmd að ræða sem tók til allra umsækjenda um alþjóðlega vernd í sömu stöðu. Ráðherra hefur ekki heimild til að grípa inn í einstök mál umsækjenda eða breyta niðurstöðu kærunefndar útlendingamála.

Verndarkerfið tryggir umsækjendum um alþjóðlega vernd einnig rétt til að óska eftir endurupptöku máls, t.d. ef aðstæður hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, svo og frestun réttaráhrifa ef málinu er skotið til dómstóla.

Ísland tekur sem kunnugt er þátt í Schengen-samstarfi Evrópuríkja og hefur innleitt Dyflinnar-reglugerðina á grundvelli þess samstarfs. Flest ríki innan Evrópu eru með sambærilegt kerfi og Ísland varðandi meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og bera sömu skyldur og við með vísan til alþjóðlegra samninga um flóttamenn og mannréttindi. Undir vissum kringumstæðum leggja lög um útlendinga þær skyldur á íslensk stjórnvöld að taka mál einstaklinga til efnismeðferðar þótt annað ríki Dyflinnar-samstarfsins beri ábyrgð á meðferðinni. Á það t.d. við þegar viðkomandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður er varða umsækjandann sjálfan mæla annars með því. Í öllum slíkum málum fer fram ítarlegt og heildstætt einstaklingsbundið mat á aðstæðum viðkomandi og ástandi í viðtökuríki.

Við ákvarðanir um afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd þegar um börn er að ræða skal hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi og taka skal afstöðu til þess sem er barni fyrir bestu. Við framkvæmd þjónustu er Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna einnig hafður að leiðarljósi. Réttur barns til að tjá sig er ein forsenda þess að unnt sé meta bestu hagsmuni barnsins. Útlendingastofnun býður nú öllum börnum í fylgd til viðtals hjá stofnuninni eftir aldri þeirra og þroska. Málsmeðferðartími hefur verið styttur í málefnum barna svo tryggt sé að þau fái efnismeðferð hafi málið þeirra dregist. Sjá nánar um málsmeðferð barna og Dyflinnarsamstarfið á heimasíðu Útlendingastofnunar:

Mikilvægt er að stöðugt sé unnið að því að endurmeta lagaumhverfið á þessu sviði. Líkt og flestir vil ég mæta þeim sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd af mannúð og sanngirni. Ég mun áfram beita mér fyrir því að meðferð mála sé sanngjörn og að kerfið sé skilvirkt. Til þess að við náum sem mestum árangri í stórum og viðkvæmum málaflokki - ef við ætlum að veita þeim vernd hratt og örugglega sem þurfa á því að halda - er nauðsynlegt að taka umræðu um kerfið og meðferð mála í heild sinni, af yfirvegun, með rökum og staðreyndum.

Ég vonast til þess að slík umræða geti farið fram á næstu misserum og mun leggja mig fram um að taka þátt í henni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta