Mannanafnanefnd, úrskurðir 25. september 2008
FUNDARGERÐ
Ár 2008, fimmtudaginn 25. september, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram að Neshaga 16, Reykjavík. Mætt voru Ágústa Þorbergsdóttir, Baldur Sigurðsson og Kolbrún Linda Ísleifsdóttir. Neðangreind mál voru tekin fyrir:
2. Mál nr. 50/2008 Eiginnafn: Eikar (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Eikar (kk.) tekur beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið fallbeygist þannig: Eikar – um Eikar – frá Eikari – til Eikars.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Eikar (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
3. Mál nr. 51/2008 Eiginnafn: Bói (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Bói (kk.) tekur beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Bói (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
4. Mál nr. 52/2008 Eiginnafn: Karlinna (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Karlinna (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Karlinna (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
5. Mál nr. 53/2008 Eiginnafn: Míó (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Míó (kk.) tekur beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Míó (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsendingu þess, Míós.
6. Mál nr. 54/2008 Eiginnafn (ritháttur): Maggnús (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
· Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
· Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
· Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Eiginnafnið Magnús á sér langa sögu í íslensku og má rekja uppruna þess til hins latneska heitis á Karli mikla Frakklandskonungi, Carolus magnus. Ritháttur með einu g-i er því samræmi við uppruna nafnsins og þannig hefur nafnið jafnan verið ritað í íslensku og öðrum málum. Umsækjandi getur þess í rökstuðningi að hann telji eðlilegra að skrifa nafnið með tveimur g-um, Maggnús. Í íslenskum framburði heyrist ekki munur á einföldum og tvöföldum samhljóða þegar annar samhljóði fer á eftir. Af þeim sökum heyrist ekki munur í framburði á rithættinum Magnús og Maggnús, ekki frekar en heyrast mundi munur á Ragnar og Raggnar, logn og loggn. Hin almenna regla íslenskrar réttritunar er sú að rita beri einfaldan samhljóða í þessum tilvikum nema sérstök ástæða eða uppruni bendi til annars. Ef litið er til tíðni tví- og þrístöfunga í orðaforða íslenskunnar (sjá Íslenska orðtíðnibók), kemur í ljós að tvístöfungurinn –gn- kemur fyrir í 488 orðum, -gg- kemur fyrir í 549 orðum en –ggn- kemur hvergi fyrir í því safni orða sem liggur til grundvallar Íslenskri orðtíðnibók. Rithátturinn Maggnús með –ggn- á sér því fá eða engin fordæmi í tungunni og getur engan veginn talist eðlilegur ritháttur, hvort sem vísað er til uppruna nafnsins, sögu þess í málinu né með skírskotun til framburðar og almennra ritreglna í íslensku.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er enginn karl skráður með eiginnafnið Maggnús. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Maggnús uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um ritháttinn Maggnús (kk.) er hafnað.
7. Mál nr. 55/2008 Eiginnafn: Fabio (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
· Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
· Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
· Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa
átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Eiginnafnið Fabio (kk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi og getur ekki talist ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls miðað við að eðlilegur íslenskur framburður nafnsins sé Fabíó.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er einn karl skráður með eiginnafnið Fabio sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna og er hann fæddur árið 1983. Auk ofangreinds eru 8 karlar skráðir í Þjóðskrá með nafnið. Þeir eru allir erlendir ríkisborgarar sem búa eða hafa búið hér á landi. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Fabio uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Fabio (kk.) er hafnað.
8. Mál nr. 56/2008 Eiginnafn: Annalinda (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
· Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
· Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
· Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Kvenmannsnafnið Annalinda er samsett úr tveimur sjálfstæðum eiginnöfnum, Anna og Linda, sem bæði eru á mannanafnaskrá. Tvínefnið Anna Linda er borið af 27 konum sem skráðar eru á þjóðskrá. Samkvæmt íslensku málkerfi ber að beygja bæði nöfnin í tvínefnum. Anna Linda er því Önnu Lindu í öllum aukaföllum. Þegar um samsett einnefni er að ræða beygist einungis síðari liður nafnsins og því yrði nafnið Annalinda að vera Annalindu í aukaföllunum. Slík beyging getur hins vegar ekki talist í samræmi við íslenskt málkerfi og málvitund og mun mjög líklega valda nafnbera ama og óþægindum þegar kemur að því að skrifa nafnið og beygja það. Slíkur ritháttur uppfyllir þ.a.l. ekki ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er engin kona skráð með eiginnafnið Annalinda. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Annalinda uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögu-legt að fallast á það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Annalinda (kvk.) er hafnað.
9. Mál nr. 57/2008 Eiginnafn: Uxi (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Uxi (kk.) tekur beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Mannanafnanefnd telur rétt að benda umsækjendum á að orðið uxi er stundum notað í líkingamáli um fólk til að lýsa mjög ákveðnum eiginleikum þess. Annars vegar er vísað til líkamsvaxtar uxans, hins vegar til skapferlis. Þótt þessir eiginleikar séu að sumu leyti jákvæðir munu margir tengja nafn uxa við eiginleika sem gætu orðið tilefni til stríðni eða eineltis og því orðið nafnbera til ama.
Mannanafnanefnd telur þó ekki rétt að hafna nafninu formlega á þeim forsendum heldur treystir hún dómgreind forráðamanna barnsins til að velja því nafn sem það getur borið kinnroðalaust. Þetta er gert í anda laga nr. 45/1996 um mannanöfn og með vísun til athugasemda með lagafrumvarpinu á sínum tíma, sem einkennist af fullu trausti á smekkvísi og dómgreind almennings.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Uxi (kk.) er samþykkt en nafnið skal ekki fært á mannanafnaskrá fyrr en skráning þess hefur verið framkvæmd hjá Þjóðskrá.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.