Mál nr. 1/2009: Úrskurður frá 3. apríl 2009
Ár 2009, föstudaginn 3. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 1/2009.
Bergur Axelsson,
Helgi Kristjánsson,
Jón M. Haraldsson,
Kristinn Sigurðsson og
Örn Gunnarsson
gegn
Samtökum atvinnulífsins vegna
Air Atlanta Icelandic og
Félagi íslenskra atvinnuflugmanna
vegna starfsráðs Air Atlanta Icelandic.
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta var tekið til úrskurðar 25. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Helgi Áss Grétarsson.
Stefnendur eru Bergur Axelsson, Þingási 37, Reykjavík, Helgi Kristjánsson, Fannafold 158a, Reykjavík, Jón M. Haraldsson, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Kristinn Sigurðsson, , Danmörku og Örn Gunnarsson, Klapparbergi 27, Reykjavík.
Stefndu eru Samtök atvinnulífsins vegna Air Atlanta Icelandic og Félag íslenskra atvinnuflugmanna vegna starfsráðs Air Atlanta Icelandic.
Dómkröfur stefnenda
Stefnendur krefjast þess aðallega að starfsaldurslisti flugmanna Air Atlanta Icelandic verði ógiltur með dómi.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð ef til hennar kemur. Einnig er krafist virðisaukaskatts á málskostnað þar sem stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir.
Dómkröfur stefnda, Samtaka atvinnulífsins
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Félagsdómi.
Til vara krefst stefndi þess að sýknað verði af dómkröfum stefnenda.
Þá er gerð krafa um að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Dómkröfur stefnda, Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Þess er aðallega krafist að málinu verði vísað frá Félagsdómi, en til vara er gerð krafa um að sýknað verði af dómkröfum stefnenda.
Að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati Félagsdóms, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hver sem úrslit málsins verða.
Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfur stefndu fór fram 25. febrúar sl. Er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Gera stefndu þær kröfur að málinu verði vísað frá dómi og að þeim verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnenda. Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað.
Málavextir
Stefnendur eru flugmenn og störfuðu allir áður hjá flugfélaginu Íslandsflugi hf. Flugfélagið Atlanta ehf. og Íslandsflug hf. voru sameinuð í eitt félag árið 2005. Samkvæmt fyrirtækjaskrá er nafn hins sameinaða félags Flugfélagið Atlanta ehf. en erlent heiti Air Atlanta Icelandic. Flugmenn Íslandsflugs áttu aðild að Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) sem gerði kjarasamning fyrir þeirra hönd við Íslandsflug. Flugmenn Atlanta voru hins vegar í Frjálsa flugmannafélaginu (F.F.F.) og fór um kjör þeirra samkvæmt kjarasamningi þess félags við Atlanta. Við sameininguna voru því í gildi tveir mismunandi kjarasamningar og tveir starfsaldurslistar, sinn fyrir hvort félag. Sú breyting varð einnig að félagsmenn Frjálsa flugmannafélagsins gengu í FÍA og var félagið lagt niður í kjölfar þess. Eitt meginviðfangsefni í viðræðum stefndu við endurnýjun kjarasamninga flugmanna, sem hófust haustið 2007, var því sameining þessara tveggja samninga og starfsaldursreglna þeirra.
Samkomulag náðist með aðilum um starfsaldursreglurnar í nóvember 2007. Samkvæmt 4. gr. starfsaldursreglnanna, sem er samhljóða starfsaldursreglum Íslandsflugs, byrjar starfsaldur þann dag sem flugmaður er fastráðinn til flugmannsstarfa. Á grundvelli ofangreinds samkomulags gaf starfsráð út sameinaðan starfsaldurslista fyrir flugmenn Air Atlanta Icelandic þann 28. nóvember 2007.
Stefnendur benda á að mismunandi reglur hafi gilt hjá félögunum tveimur varðandi viðmið fastráðningardags. Hjá gamla Atlanta hafi gilt sú regla að flugmenn hlutu fastráðningu frá þeim degi sem þeir hófu störf hjá félaginu. Hjá Íslandsflugi hafi hins vegar sú regla gilt að flugmenn hlutu ekki fastráðningu fyrr en að afloknum átta mánaða reynslutíma. Þar sem fastráðningardagsetningar hins nýja starfsaldurlista voru miðaðar við sömu fastráðningardagsetningar og gömlu starfsaldurslistarnir hafi þetta leitt til þess að flugmenn sem starfað höfðu fyrir Íslandsflug tóku allir sæti á hinum nýja starfsaldurslista eins og þeir hefðu starfað 8 mánuðum skemur en þeir í raun höfðu gert. Niðurstaðan hafi því orðið sú að flugmaður sem hóf starf hjá Íslandsflugi 1. janúar 2001 fór aftar á listann en þeir flugmenn sem hófu störf hjá Atlanta á tímabilinu 2. janúar - 2. september 2001.
Frestur til að koma að skriflegum athugasemdum eða mótmælum var til 31. desember 2007. Alls bárust 25 kærur fyrir lok kærufrests. Tvær kærur bárust að kærufresti loknum.
Stefnandi kveður kærur stefnenda einkum hafa lotið að tveimur atriðum. Annars vegar hafi verið gerð athugasemd við þann dag sem fastráðning ákveðinna flugmanna gamla Atlanta var miðuð en hins vegar hafi verið gerð athugasemd við þá aðferð sem beitt var við röðun á hinn sameiginlega starfsaldurslista.
Starfsráð Air Atlanta Icelandic hafi hafnað öllum kærunum. Röksemdir starfsráðsins sé að finna í gögnum málsins en þar segi m.a. að með samþykkt starfsaldurslista flugmanna Atlanta og Íslandsflugs hafi verið búið að viðurkenna fastráðningardaga flugmanna félaganna. Ýmis réttindi flugmanna séu tengd röðun á starfsaldurslista sem byggist á fastráðningardögum. Það þurfi mjög mikið til að koma til að réttindi, sem flugmenn hafi öðlast, verði aftur af þeim tekin.
Lögmaður stefnenda sendi stefnda bréf dags. 22. maí sl. þar sem farið var fram á að breytingar yrðu gerðar á röðun á starfsaldurslista stefnda. Með bréfi dags. 3. júní 2008 var kröfum stefnanda hafnað og það tilkynnt að starfsráð sæi sér ekki fært að taka erindið til frekari meðferðar. Ennfremur segir í bréfinu að starfsaldursreglurnar séu hluti kjarasamnings og úrskurðir starfsráðs séu endanlegir og bindandi fyrir báða aðila og þeim verði ekki skotið til dómstólanna, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglnanna.
Hinn 23. júlí 2008 fór lögmaður stefnenda fram á það við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) að félagið höfðaði mál fyrir hönd stefnenda fyrir Félagsdómi. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2008, synjaði FÍA beiðni þeirra.
Stefnendur telja sig því knúna til að höfða sjálfir mál fyrir félagsdómi til að leita réttar síns.
Málsástæður stefnenda
Stefnendur byggja kröfur sínar aðallega á því að sú aðferð sem beitt hafi verið við niðurröðun á hinn sameiginlega starfsaldurslista brjóti í bága við meginreglu íslensks vinnuréttar um jafnrétti launafólks þar sem aðferðin hafi verið til þess fallin að mismuna fyrrverandi flugmönnum Íslandsflugs með ólögmætum hætti.
Við niðurröðun á hinn nýja sameiginlega starfsaldurslista hafi verið notast við sömu fastráðningardaga og flugmennirnir höfðu samkvæmt starfsaldurslistum hinna gömlu félaga. Við ákvörðun fastráðningardaga hjá félögunum tveimur hafi hins vegar verið notast við mismunandi reglur þegar fastráðningardagur var ákveðinn. Þannig hafi fastráðningardagur hjá flugmönnum Íslandsflugs miðast við þann dag er flugmenn höfðu starfað í 8 mánuði hjá félaginu en fastráðningardagur flugmanna Atlanta hafi miðast við þann dag er menn hófu störf.
Þegar starfsráð Air Atlanta Icelandic ákvað að miða fastráðningardaga flugmanna á hinum nýja starfsaldurslista við fastráðningardaga þeirra á gömlu starfsaldurslistunum hafi sú aðferð því leitt til þess að fyrrverandi flugmenn gamla Íslandsflugs hafi lent átta mánuðum aftar á listanum en þeir flugmenn gamla Atlanta sem starfað höfðu jafnlengi. Það sé því ljóst að sú aðferð sem notuð hafi verið við niðurröðun á hinn nýja starfsaldurslista hafi leitt til þess að stefnendur og aðrir fyrrverandi flugmenn Íslandsflugs hafi lent í lakari stöðu en fyrrverandi flugmenn Atlanta.
Aðferðin hafi jafnframt leitt til ólögmætrar mismununar flugmannanna. Ólögmæt mismunun geti ýmist verið bein eða óbein. Bein mismunun sé það þegar tveir sambærilegir hópar hljóti mismunandi meðferð sem ekki verði réttlætt með málefnalegum ástæðum. Óbein mismunun á hinn bóginn felist í því þegar ósambærilegir hópar hljóti sömu meðferð. Í báðum tilfellum þurfi meðferðin að leiða til þess að annar hópurinn lendi í lakari stöðu en hinn.
Ljóst sé að um sambærilega hópa sé að ræða en það eitt, að annar hópurinn starfaði hjá Íslandsflugi en hinn hjá Atlanta, réttlæti ekki mismunandi meðferð á þeim við niðurröðun á starfsaldurslista nýs félags. Staða hópanna tveggja sé hins vegar mismunandi þar sem fastráðningardagar þeirra samkvæmt eldri starfsaldurslistum hafi verið ákvarðaðir á mismunandi máta. Því megi segja sem svo að hóparnir séu sambærilegir að því leyti að í báðum þeirra séu atvinnuflugmenn en ósambærilegir að því leyti að mismunandi reglur hafi gilt um ákvörðun fastráðningardags þeirra. Þá sé ljóst að annar hópurinn hafi hlotið meðferð sem leitt hafi til lakari stöðu. Ekki verði séð að málefnalegar ástæður réttlæti hina mismunandi meðferð, engin fordæmi séu fyrir sameinuðum starfsaldurslistum hér á landi enda sé starfsaldurslisti stefnda fyrsti sameinaði starfsaldurslisti flugmanna á Íslandi sem búinn hafi verið til án milligöngu Alþingis. Ekki verði séð að sanngirnissjónarmið hnígi til þess að setja listann saman á þennan hátt enda alveg ljóst að annar hópurinn lendi í lakari stöðu. Eins og áður segi séu engin fordæmi til hvernig setja skuli saman sameinaðan starfsaldurslista hér á landi. Engin fyrirmæli séu um að fara skuli eftir sömu fastráðningardögum á nýjum sameinuðum lista og farið var eftir á gömlu listunum, einkum þegar mismunandi reglur giltu um ákvörðun fastráðningardaganna á listunum tveimur. Þannig hnígi engin rök til þess að tveir listar, sem lúti ólíkum reglum, verði lagðir til grundvallar starfsaldurslista hins nýja félags. Þar sem starfsaldurslisti Air Atlanta sé nýr listi og Air Atlanta sé nýtt félag sé eðlilegt og nauðsynlegt til að sátt geti myndast um hinn nýja lista að við niðurröðun á listann verði beitt hlutlægum reglum sem ekki hygli einum hópi fram yfir hinn. Sú aðferð sem beitt hafi verið við niðurröðun á listann frá 27. nóvember 2007 sé ótæk enda niðurstaða hans ólögmæt mismunun stórs hóps flugmanna. Listinn brjóti í bága við grundvallarreglu íslensks vinnuréttar um jafnrétti launafólks.
Ljóst sé að ekki verði hjá því komist að einhverjir flugmenn missi eitthvað af áður áunnum réttindum sínum við sameiningu tveggja starfsaldurslista enda sé það eðli slíkra lista að númer á listanum skipti meginmáli. Það sé því viðmiðið við aðra flugmenn á listanum sem skipti máli. Sé það ólíkt flestum öðrum kjarasamningum þar sem lengd ráðningar og menntun færi starfsmönnum réttindi óháð lengd ráðningar og menntun annarra starfsmanna.
Eins og fram hafi komið hafi verið notast við mismunandi viðmið við ákvörðun fastráðningardags hjá hvoru félagi fyrir sig. Hjá félögunum tveimur hafi áður gilt mismunandi reglur um það hvenær menn hlytu fastráðningu. Flugmenn gamla Atlanta hafi hlotið fastráðningu frá þeim degi er þeir hófu störf en flugmenn gamla Íslandsflugs hafi hlotið fastráðningu 8 mánuðum eftir að þeir hófu störf. Við niðurröðun á hinn sameiginlega starfsaldurslista hafi ekki verið tekið tillit til þessara mismunandi reglna og þar af leiðandi hafi allir flugmenn gamla Íslandsflugs sjálfkrafa farið 8 mánuðum aftar á listann en flugmenn gamla Atlanta, sem hófu störf á 8 mánaða tímabili eftir að flugmenn gamla Íslandsflugs hófu störf. Þar með hafi flugmenn gamla Íslandsflugs þurft að sæta því að flugmenn sem hófu störf allt að 8 mánuðum síðar en þeir sjálfir færu fram fyrir þá á hinum sameinaða starfsaldurslista. Stefnendur, sem margir hverjir hafi verið mjög ofarlega á starfsaldurslista Flugfélags Íslands og hafi lengri starfsreynslu en þeir menn sem séu fyrir ofan þá á hinum nýja sameinaða lista, eigi ekki að þurfa að sæta því að þeir missi svo mikið af áunnum réttindum sínum vegna þessa.
Um aðild stefnenda að málinu er vísað til 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938. Stefnendur óskuðu eftir því að Félag íslenskra atvinnuflugmanna höfðaði málið fyrir þeirra hönd fyrir Félagsdómi. Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafi synjað þeirri beiðni og hafi stefnendur því séð sig knúna til að höfða málið sjálfir eins og heimilt sé samkvæmt 3. mgr. 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
Varðandi aðild stefndu að málinu telja stefnendur nauðsynlegt að hafa í huga að starfsráð Air Atlanta Icelandic samanstandi af fulltrúum frá Air Atlanta Icelandic og Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þar sem starfsráð Air Atlanta Icelandic hafi samþykkt starfsaldurslistann, sem krafa sé gerð um að verði ógiltur með dómi, telji stefnendur nauðsynlegt að stefna bæði Samtökum atvinnulífsins vegna Air Atlanta Icelandic og Félagi íslenskra atvinnuflugmanna vegna starfsráðs Air Atlanta Icelandic Byggist það á ákvæðum 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Um rétt stefnenda til að höfða málið fyrir Félagsdómi er vísað til 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en þar segi að verkefni Félagsdóms sé að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Aðila þessa máls greini á um gildi starfsaldursreglna stefnda. Þær reglur séu hluti af kjarasamningi eins og staðfest hafi verið af oddamanni starfsráðs stefnda. Meginmálsástæða stefnenda byggist á því að starfsaldurslisti flugmanna Air Atlanta Icelandic sé ógildanlegur þar sem sú aðferð sem beitt hafi verið við gerð hans brjóti í bága við jafnræðisreglur. Af þessum sökum telja stefnendur að ágreiningsefnið heyri undir Félagsdóm.
Um rétt stefnenda til að leita til dómstóla vísa stefnendur til 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í reglum starfsráðs Air Atlanta segi í 2. mgr. 13. gr. að úrskurðir starfsráðs séu endanlegir og bindandi fyrir báða aðila. Þá segi að þeim verði ekki skotið til dómstóla. Stefnendur telja þetta ákvæði brjóta gegn grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar sem lögfest sé í 70. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segi að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Réttur stefnanda sé jafnframt staðfestur í 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Hér beri sérstaklega að hafa í huga að verkefni starfsráðs séu eftirfarandi: að setja sér reglur, útbúa starfsaldurslista og skera úr ágreiningi sem kann að rísa vegna starfsaldurslistans. Regla 2. mgr. 13. gr. starfsaldurslistareglnanna sé í hrópandi andstöðu við viðtekin viðhorf um rétt manna til að fá leyst úr ágreiningsefnum sínum fyrir óhlutdrægum og óvilhöllum dómstól.
Stefnandi byggi aðallega á meginreglunni um jafnrétti launafólks sem sé ein af grundvallarreglum íslensks vinnuréttar um stéttarfélög og vinnudeilur. Um aðild fyrir Félagsdómi er vísað til 1. mgr. 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Um rétt aðila til að bera ágreiningsefnið undir Félagsdóm er annars vegar vísað til 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 og hins vegar til 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988, en stefnendur þessa máls séu ekki virðisaukaskattskyldir og sé þeim því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.
Málsástæður stefnda, Samtaka atvinnulífsins, vegna frávísunarkröfu.
Frávísunarkrafa stefnda byggist á því að ágreiningsefni málsins eigi ekki undir valdsvið dómstóla, þar með talið Félagsdóms. Ákvarðanir starfsráðs séu endanlegar og verði ekki skotið til dómstólanna.
Ágreiningslaust sé að stefnendur eigi aðild að meðstefnda, FÍA, sem sé stéttarfélag í skilningi laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, og því lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna samkvæmt 5.gr. þeirra laga.
Stefndu hafi gert kjarasamning um starfsaldursreglur flugmanna Flugfélagsins Atlanta. Séu stefnendur bundnir af þessum samningi, sbr. 3. gr. laga nr. 80/1938.
Samkvæmt 13. gr. samningsins sé verkefni starfsráðs m.a. að gera starfsaldurslista sem gildi um alla flugmenn félagsins og skeri úr öllum ágreiningi sem kann að rísa út af starfsaldursreglunum eða röð á starfsaldurslista. Þar sé einnig kveðið á um að úrskurðir starfsráðs séu endanlegir og bindandi fyrir báða aðila og verði ekki skotið til dómstólanna. Með vísan til þess beri að vísa máli þessu frá dómi.
Stefndi mótmæli því að ofangreint ákvæði starfsaldursreglnanna brjóti gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ávallt hafi verið litið þannig á að mönnum væri heimilt að ákveða með samningi að leggja réttarágreining sín á milli í gerð, sbr. lög 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Stefndi bendi sérstaklega á að stéttarfélög og samningsréttur þeirra njóti sérstakrar verndar samkvæmt 74. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, og einnig 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994.
Tilvísun stefnenda til 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 hafi enga þýðingu þar sem ákvæðið sæti þeim takmörkunum sem leiði af fyrrgreindu kjarasamningsákvæði um að ákvarðanir starfsráðs séu endanlegar.
Þá mótmæli stefndi því sem röngu að beitt hafi verið ólögmætri aðferð við niðurröðun á hinn sameiginlega starfsaldurslista og hann sé því ógildanlegur.
Frávísunarkrafa stefnda sé einnig byggð á því að aðild málsins, hvað stefndu varðar, sé haldin slíkum annmörkum að vísa beri málinu frá Félagsdómi. Ágreiningsefni málsins sé röðun stefnenda á starfsaldurslista. Starfsráð geti, að mati stefnda, ekki átt aðild að slíku máli. Stefna hefði þurft þeim flugmönnum til varnar sem teljist eiga hagsmuni af úrlausn málsins.
Frávísunarkrafan sé auk þess byggð á því að krafa stefnenda sé ódómtæk. Krafist sé ógildingar starfsaldurslistans í heild án nánari afmörkunar eða tilgreiningar á því hvernig röðun á listann skuli háttað. Krafan sé því ekki til þess fallin að leysa ágreining aðila. Þá sé í raun verið að krefjast þess að hluti kjarasamnings verði ógiltur. Rökstuðningur kröfunnar sé ekki sjálfri sér samkvæmur. Samkvæmt stefnu virðist meint mismunun vera á því byggð að sú aðferð sem beitt hafi verið leiði til þess að fyrrverandi flugmenn gamla Íslandsflugs lendi 8 mánuðum aftar á lista en þeir flugmenn gamla Atlanta sem starfað hafi jafnlengi án þess að gerð sé grein fyrir því hvaða áhrif það hafi á stefnendur eða aðra flugmenn á listanum.
Þessi framsetning sé ekki í samræmi við kærur stefnenda til starfsráðs. Þar telji Örn Gunnarsson og Bergur Axelsson að miða eigi fastráðningardaga þeirra við 20. mars 1988 þegar þeir hófu störf hjá Arnarflugi innanlands hf. í stað 1. febrúar 1991. Jón M. Haraldsson, Kristinn Sigurðsson og Helgi Kristjánsson geri athugasemdir við fastráðningardaga flugmanna sem áður voru í FFF. Önnur sjónarmið komi einnig fram í bréfi lögmanns stefnenda til Air Atlanta Icelandic, dags. 22. maí 2008, þar sem fundið sé að ákvörðun fastráðningardags þeirra flugmanna sem hafi flogið vélum Atlanta fram til ársins 1995.
Um frá vísunarkröfuna vísist að öðru leyti til greinargerðar samstefnda.
Málsástæður stefnda, Félags íslenskra atvinnuflugmanna, vegna frávísunarkröfu.
Stefndi kveður frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi byggjast á því að ágreiningsefni málsins eigi ekki undir valdsvið dómstóla, þ.m.t. Félagsdóms. Því til stuðnings sé bent á eftirfarandi:
Samkvæmt gr. 03-1 í kjarasamningi FÍA við Samtök atvinnulífsins vegna AAI sé kveðið á um að starfsaldursreglur, sem birtar séu með samningnum, séu hluti af kjarasamningnum. Starfsaldursreglurnar liggi fyrir í gögnum málsins. Samkvæmt 1. gr. skal stjórn eða forstjóri fyrirtækisins skipa flugmenn í stöður, taka ákvarðanir um fækkun eða fjölgun flugmanna og veita þeim leyfi í samræmi við starfsaldursreglurnar. Starfsaldur flugmanns miðast við þann starfstíma sem hann hefur starfað sem fastráðinn flugmaður, sbr. 2. gr. starfsaldursreglna. Skal útbúa starfsaldurslista sem búinn skal númeraröð, með nöfnum allra fastráðinna flugmanna hjá flugfélaginu, sbr. 3. gr. Í 4. gr. sé sérstaklega kveðið á um að starfsaldur byrji þann dag sem flugmaður sé fastráðinn til flugmannsstarfa. Starfsaldursreglunum sé í samræmi við 1. gr. reglnanna ætlað að gilda um alla flugmenn þegar komi að stöðuhækkunum eða lækkun, fjölgun, fækkun eða endurráðningu flugmanna, sbr. nánar 5. gr. starfsaldursreglnanna. Samkvæmt 12. gr. starfsaldursreglna skal stofna starfsráð, skipað 5 mönnum. Tveir fulltrúar skulu tilnefndir úr hópi flugmanna, tveir af hálfu AAI og oddamaður skal nefndur sameiginlega af aðilum, en annars af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, ef ekki næst samkomulag. Varamenn skal skipa með sama hætti. Verkefni starfsráðs séu tíunduð í 13. gr. starfsaldursreglna, en þau séu: a) að gera starfsaldurslista og skera úr um öllum ágreiningi, sem rísa kann út af starfsaldursreglunum eða röðun á starfsaldurslista, b) veita umsögn um atriði sem eiga undir 11. gr., sem fjallar um misfellur flugmanns í starfi, og c) að úrskurða um önnur atriði sem AAI og FÍA koma sér saman um að leggja fyrir starfsráð. Í lokamálsgrein 13. gr. gefi síðan að finna svofellt ákvæði: „Úrskurðir starfsráðs eru endanlegir og bindandi fyrir báða aðila og verður ekki skotið til dómstóla. Þetta gildir þó ekki um umsagnir, sem það gefur skv. ákvæðum 11. gr.“ Efnislega samhljóða ákvæði séu einnig í eldri starfsaldursreglum sem settar hafi verið á grundvelli kjarasamnings FÍA við Íslandsflug. Í því sambandi sé vakin á því athygli að á félagsfundi FÍA, þann 6. september 2006, þar sem fjallað hafi verið um sameiningu starfsaldurslista flugmanna AAI, hafi verið samþykkt einróma tillaga um að sameiginlegar starfsaldursreglur flugmanna AAI skyldu verða samhljóða starfsaldursreglum flugmanna Íslandsflugs. Eins og áréttað sé í stefnu, þá séu stefnendur allir úr hópi þeirra flugmanna sem áður gegndu störfum hjá Íslandsflugi.
Réttur til þess að stofna stéttarfélög sé sérstaklega varinn af 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Óumdeilt sé að FÍA sé stéttarfélag sem starfar á grundvelli ákvæða laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt 1. gr. laganna eiga menn rétt á að stofna stéttarfélög í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt. Stéttarfélög skuli vera opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu eða eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Í 1. mgr. 3. gr. laganna sé tekið fram að stéttarfélög ráði málefnum sínum með þeim takmörkunum sem sett séu í lögunum. Einstaka meðlimir stéttarfélaga séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess sem það kunni að vera í. Í 2. mgr. 3. gr. laganna sé síðan kveðið á um að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins sé farinn úr því, en samningar sem hann hafi orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, séu skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinni þau störf, sem samningurinn sé um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi fyrir uppsögn. Samkvæmt 5. gr. séu stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna.
Sé horft til lögfestra reglna sem lúti að samskiptum atvinnurekenda og launafólks á vinnumarkaði og almennt viðurkenndra reglna á hinum almenna vinnumarkaði, þá megi slá fram þeirri meginreglu að atvinnurekandi hafi einn val um það hvaða einstakling hann ákveði að ráða til starfa, segja upp störfum eða hver skuli njóta framgangs í starfi. Frá þessari meginreglu séu undantekningar sem skipti ekki máli í þessu sambandi. Með setningu starfsaldursreglna og starfsaldurslista hafi aðilar kjarasamningsins komið sér saman um reglur sem takmarki eða skerði frelsi atvinnurekanda til ákvörðunar um ráðningu, uppsögn, endurráðningu eða framgang flugmanna. Um leið hafi aðilar kjarasamningsins skapað reglur um það hvernig skuli leysa úr ágreiningi sem snerti starfsaldursreglur og starfsaldurslista. Samkvæmt reglunum sé starfsráði falið endanlegt úrskurðarvald um það atriði sem hér sé ágreiningur um, þ.e. röðun á starfsaldurslista AAI, en eins og málsatvikalýsing stefnanda og framlögð gögn beri með sér þá sé málsmeðferðin fyrir starfsráði vönduð og flugmönnum tryggður andmælaréttur áður en endanleg úrlausn liggi fyrir. Engir formlegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins á fyrri stigum. Að mati stefnda FÍA hafi aðilar kjarasamningsins þannig fullt forræði á því að semja svo um að starfsráð hafi endanlegt úrskurðarvald í málefnum sem þessum og verði slíkt samningsákvæði hvorki talið í andstöðu við viðtekin viðhorf um rétt manna til þess að fá leyst úr ágreiningi sínum fyrir dómstólum, né ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar. Líkja megi málsmeðferð vegna ágreinings um röðun á starfsaldurslista AAI fyrir starfsráði við gerðardómsmeðferð og hafa til hliðsjónar reglur þar um. Þegar samið sé um slíka meðferð, falli mál ekki undir forræði Félagsdóms.
Frávísunarkrafan sé í annan stað byggð á því að aðild málsins, hvað stefndu varðar, sé haldin slíkum annmörkum að vísa beri málinu frá Félagsdómi. Stefndu í máli þessu séu annars vegar Samtök atvinnulífsins vegna AAI og hins vegar FÍA vegna starfsráðs AAI. Eins og ágreiningsefni málsins sé háttað, þ.e. ágreiningur sé um röðun stefnenda á starfsaldurslista AAI, þá sé það mat stefnda FÍA að starfsráð AAI geti ekki átt aðild að slíku máli. Stefna hefði þurft þeim flugmönnum til varnar sem teljist hafa hagsmuni af úrlausn málsins. Af málatilbúnaði stefnenda fyrir Félagsdómi verði ráðið að þeir telji að þeim hafi verið ranglega skipað í röð á starfsaldurslista. Miða hafi átt við dagsetningu sem sé 8 mánuðum fyrir það tímamark sem starfsaldurslisti segi til um. Samkvæmt því verði að telja að a.m.k. þeir flugmenn sem í dag séu með lægra starfsaldursnúmer og skráðan fastráðningardag sem falli innan þessara tímamarka hafi hagsmuni af úrlausn málsins. Þeim hafi ekki verið stefnt og verði af þeim sökum að vísa málinu frá ex officio.
Frávísunarkrafa stefnda FÍA sé loks byggð á því að krafa stefnenda, í þeim búningi sem hún er, sé ódómtæk. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sé Félagsdómi falið það hlutverk að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Krafa stefnenda sé um að starfsaldurslisti AAI verði ógiltur með dómi. Með því sé í raun verið að krefjast þess að hluti kjarasamnings verði ógiltur. Krafan sé allt of víðtæk og þess eðlis að niðurstaða um hana sé ekki til þess fallin að leysa úr ágreiningi aðila. Stefnendur krefjist ekki tiltekinnar röðunar á starfsaldurslista eða viðurkenningar á því að leggja beri tilteknar forsendur til grundvallar við röðun á starfsaldurslista, heldur ógildingar á listanum í heild sinni. Hér sé um að ræða 5 af 103 flugmönnum sem séu ósáttir við stöðu sína. Almenn tilvísun til þess að heimilt hafi verið í kjarasamningi FÍA við gamla Íslandsflug að ráða flugmenn til reynslu í allt að 8 mánuði segi ekkert til um hver raunin hafi verið í tilviki stefnenda. Staðreyndin sé sú að a.m.k. hluti stefnenda hafi verið fastráðinn á skemmri tíma en 8 mánuðum frá því þeir komu fyrst til félagsins, þannig að ekki geti hið sama yfir þá alla gengið. Ennfremur þyrfti að taka afstöðu til fleiri sjónarmiða er varða flugmenn „gamla Atlanta“ í tengslum við röðunina. Krafan sé, samkvæmt framangreindu, of víðtæk og ekki nægilega afmörkuð og því beri, að mati stefnda FÍA, með vísan til d- og e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, að vísa málinu frá dómi.
Niðurstaða
Stefnendur máls þessa eru fimm starfsmenn hins stefnda flugfélags, Air Atlanta Icelandic, sem varð til við sameiningu Íslandsflugs hf. og Flugfélagsins Atlanta ehf. á árinu 2005. Stefnendur krefjast þess að starfsaldurslisti flugmanna félagsins verði ógiltur með dómi, en þann lista gaf starfsráð félagsins út hinn 28. nóvember 2007 og skyldi hann gilda frá 15. febrúar 2008 til 15. febrúar 2009. Starfsaldurslisti þessi var gerður á grundvelli starfsaldursreglna flugmanna Air Atlanta Icelandic/Flugfélagsins Atlanta ehf., er samþykktar voru hinn 27. nóvember 2007, og tóku við af eldri starfsaldursreglum flugmanna Íslandsflugs hf. og flugmanna F.F.F. hjá Air Atlanta Icelandic. Fram er komið að umræddur starfsaldurslisti var byggður á síðastgildandi starfsaldurslistum þeirra flugfélaga, sem sameinuðust í hinu stefnda flugfélagi, og var þar annars vegar um að ræða starfsaldurslista flugmanna Íslandsflugs hf. frá 30. nóvember 2006 og hins vegar starfsaldurslista flugmanna Atlanta ehf. frá 17. júlí 2006. Samkvæmt 4. gr. umræddra starfsaldursreglna byrjar starfsaldur þann dag sem flugmaður er „fastráðinn til flugmannsstarfa“. Óumdeilt er að við röðun á hinn nýja lista var byggt á tilgreiningu fastráðningardaga samkvæmt hinum eldri listum.
Stefnendur, sem áður störfuðu hjá Íslandsflugi hf., eru ósáttir við röðun sína á umræddum starfsaldurslista frá 28. nóvember 2007, enda halli á þá þar sem fastráðningardagur hjá Íslandsflugi hf. hafi miðast við þann dag þegar flugmaður hafði starfað í allt að átta mánuði hjá félaginu. Kærðu stefnendur röðun sína til starfsráðs sem hafnaði kærunum, sbr. fundargerðir frá 23. og 28. janúar 2008, sbr. og bréf oddamanns, dags. 3. júní 2008, til lögmanns stefnenda.
Af hálfu stefndu er krafa um frávísun málsins frá Félagsdómi í fyrsta lagi byggð á því að ágreiningsefni málsins eigi ekki undir valdsvið dómstóla, enda hafi starfsráð endanlegt úrskurðarvald í þessum málefnum, sbr. 13. gr. starfsaldursreglna frá 27. nóvember 2007. Í öðru lagi er krafan byggð á því að aðild varnarmegin sé áfátt, enda hafi nauðsyn borið til að stefna þeim flugmönnum sem hafi hagsmuni af úrlausn málsins. Í þriðja lagi er frávísunarkrafan reist á því að dómkrafa stefnenda sé ódómtæk, enda sé hún allt of víðtæk og leysi ekki úr ágreiningi aðila, sbr. d- og e-lið 80. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð einkamála.
Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, er hlutverk Félagsdóms m.a. að dæma í málum sem rísa út af kærum á vinnusamningi (kjarasamningi) eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi (kjarasamningi) eða gildi hans.
Samkvæmt grein 03-1 í kjarasamningi milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna annars vegar og Flugfélagsins Atlanta ehf. hins vegar, sem undirritaður var hinn 14. maí 2008, eru reglur um starfsaldur hluti af kjarasamningnum. Eins og áður greinir eru gildandi starfsaldursreglur frá 27. nóvember 2007 og eru þær í 17 greinum. Samkvæmt 1. gr. reglnanna skipa stjórn eða forstjóri flugfélagsins flugmenn í stöður, taka ákvarðanir um fækkun eða fjölgun flugmanna og veita þeim leyfi í samræmi við starfsaldursreglurnar. Í reglunum er fjallað um gerð starfsaldurslista og ákvörðun starfsaldurs svo og þýðingu hans, m.a. við stöðuhækkun eða stöðulækkun, fjölgun eða fækkun og endurráðningu. Þá er í reglunum kveðið á um starfsráð og hlutverk þess. Er það skipað fimm mönnum til þriggja ára. Nefnir flugfélagið annars vegar og flugmenn hins vegar tvo aðalmenn og tvo til vara hvor aðili um sig, en fulltrúar beggja aðila tilnefna oddamann og annan til vara. Hlutverk starfsráðs er m.a. að gera starfsaldurslista og skera úr öllum ágreiningi sem kann að rísa út af starfsaldursreglunum eða röð á starfsaldurslista, sbr. 13. gr. reglnanna.
Hvað sem líður orðan dómkröfu stefnenda er ljóst að málatilbúnaður þeirra varðar röðun þeirra á starfsaldurslistanum og forsendur og viðmið fyrir þeirri röðun. Er fyrst og fremst á því byggt að samræmis og jafnræðis hafi ekki verið gætt varðandi ákvörðun fastráðningardaga þar sem byggt hafi verið á mismunandi verklagi hjá hinum eldri félögum. Því hafi hallað á stefnendur vegna tilhögunar á fastráðningu hjá Íslandsflugi hf.
Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að út af fyrir sig sé neinn ágreiningur um skilning á greindum starfsaldursreglum sem eru hluti kjarasamnings. Líta verður svo á að ágreiningsefnið varði einstaklingsbundna röðun stefnenda með tilliti til ákvörðunar á fastráðningardögum, en fram er komið að viðlíka álitaefni geta risið í fleiri tilvikum. Að þessu athuguðu og þar sem það er ekki hlutverk Félagsdóms að fjalla um röðun á slíkan lista, sem hér um ræðir, verður ekki talið að málið eigi undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938. Hafa ber í huga að Félagsdómur er sérdómstóll og ber að skýra valdsvið hans þröngt. Þegar af þessum sökum ber að vísa málinu frá Félagsdómi og er þá ekki þörf á að taka frekari afstöðu til málsástæðna fyrir frávísun málsins.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, verða stefnendur dæmdir til að greiða stefndu, hvorum um sig, 100.000 krónur í málskostnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnendur, Bergur Axelsson, Helgi Kristjánsson, Jón M. Haraldsson, Kristinn Sigurðsson og Örn Gunnarsson, greiði stefndu, Samtökum atvinnulífsins vegna Air Atlanta Icelandic og Félagi íslenskra atvinnuflugmanna vegna starfsráðs Air Atlanta Icelandic, hvorum um sig, 100.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Valgeir Pálsson
Helgi Áss Grétarsson