Mál nr. 5/2009: Dómur frá 24. apríl 2009
Ár 2009, föstudaginn 24. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 5/2009.
Sjúkraliðafélag Íslands f.h.
Þorbjargar Guðmundsdóttur
gegn
íslenska ríkinu vegna
Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R :
Mál þetta var dómtekið 20. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Arnfríður Einarsdóttir, Kristjana Jónsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Kristján Torfason.
Stefnandi er Sjúkraliðafélag Íslands, Grensásvegi 16, Reykjavík, f.h. Þorbjargar Guðmundsdóttur, sjúkraliða á Víðihlíð í Grindavík.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík, vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sem tilkynnt var Þorbjörgu Guðmundsdóttur, Hólagötu 29, Reykjanesbæ, sjúkraliða á Víðihlíð í Grindavík, um að hætta keyrslu hennar til og frá Víðihlíð á vegum stofnunarinnar auk greiðslna fyrir aksturstíma, sé andstæð grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst þess hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Málavextir
Sjúkraliðafélag Íslands (hér eftir SLFÍ) er fagstéttarfélag sjúkraliða og er aðili að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB. Þorbjörg Guðmundsdóttir er félagsmaður í SLFÍ. Hún starfar sem sjúkraliði á Víðihlíð í Grindavík samkvæmt ráðningarsamningi dags. 5. júlí 2004. Víðihlíð er hjúkrunarheimili fyrir aldraða og er rekið af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem er ríkisstofnun. Kjarasamningur milli Sjúkraliðafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gildir um réttarsamband Þorbjargar og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Þorbjörg er í hópi sjúkraliða á Víðihlíð, sem búsettir eru í Reykjanesbæ. Fram til þessa hefur stofnunin séð þeim fyrir ferðum til og frá Víðihlíð og greitt þeim laun fyrir ferðatímann. Það fyrirkomulag telur stefnandi vera í samræmi við ákvæði greinar 5.4.1 í kjarasamningi aðila, sem hljóðar svo:
Vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skal stofnunin sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða ferðakostnað. Slíkar ferðir teljast til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.
Í bréfi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til Þorbjargar Guðmundsdóttur, dags. 19. desember 2008, segir eftirfarandi:
Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu og tilmælum fjármálaráðuneytis um lækkun útgjalda, hefur sú ákvörðun verið tekin að hætta keyrslu starfsmanna til og frá Víðhlíð á vegum stofnunarinnar auk greiðslna fyrir aksturstíma.
Þessi ákvörðun verður til þess að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mun ekki lengur sjá um að aka þér til og frá vinnu í Víðihlíð, né greiða sérstaklega fyrir keyrslutíma með 3 mánaða fyrirvara miðað við næstu mánaðamót. Eftir þann tíma mun þér ekki vera ekið né greitt sérstaklega fyrir akstur til og frá vinnu.
Lögmaður SLFÍ mótmælti ákvörðuninni með bréfi, dags. 3. febrúar 2009. Þar er vakin athygli á áðurnefndu ákvæði í kjarasamningi félagsins. Var skorað á stofnunina að draga ákvörðunina til baka. Bréfi þessu var ekki svarað af hálfu stefnda og hefur ekki verið samið um eða tilkynnt um neinar ráðstafanir, sem eiga að koma í stað fyrirkomulagsins, sem aflagt skyldi samkvæmt bréfinu. Telur stefnandi því nauðsyn bera til að höfða mál þetta.
Stefnandi kveður ágreiningsefni aðila lúta að túlkun á ákvæðum kjarasamnings og eiga undir Félagsdóm, sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi telur einsýnt að með ákvörðuninni, sem um er deilt, sé brotið gegn ákvæði gr. 5.4.1 í kjarasamningi aðila og þar með virt að vettugi réttindi sjúkraliðanna.
Stefnandi vísar einnig til áralangrar framkvæmdar á kjarasamningsákvæðinu. Því verði ekki sagt upp með þeim hætti, sem gert var með áðurgreindu bréfi stefnda frá 19. desember 2008. Þá telur stefnandi aðstæður í þjóðfélaginu ekki réttlæta brot eða einhliða uppsagnir á einstökum kjarasamningsákvæðum.
Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst ekki hafa frádráttarrétt vegna kostnaðar af virðisaukaskatti af aðkeyptri lögmannsþjónustu.
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi auglýst eftir starfi sjúkraliða í fullt starf við hjúkrunardeildina Víðihlíð í Grindavík. Þorbjörg Guðmundsdóttir, búsett í Reykjanesbæ, hafi verið ráðin í starfið, sbr. framlagðan ráðningarsamning. Ljóst sé að starfsstöð Þorbjargar sé í Grindavík samkvæmt ráðningarsamningi og sé það skylda hennar að mæta til vinnu á venjubundnum tíma til starfsstöðvar sinnar að Víðihlíð í Grindavík. Meginregla vinnuréttarins sé sú að starfsmenn komi sér sjálfir til og frá vinnu í eigin tíma og á eigin farartækjum, án þess að þeim beri tiltekin þóknun eða laun fyrir það umfram hefðbundin og regluleg laun. Í kjarasamningum sé sumstaðar kveðið á um undantekningu frá þessari meginreglu. Taki vinnuveitandi þá að sér að annast flutninga starfsmanna til og frá vinnustað, svo og um launagreiðslur á meðan á ferðum stendur. Eigi þetta einkum við þegar vinnustaður er fjarri þéttbýli, eða þegar vinnutími hefst eða lýkur á þeim tíma þegar almenningssamgöngur liggja niðri.
Vegna skorts á starfsmönnum í Grindavík hafi Heilbrigðisstofnunin, umfram skyldu, séð starfsmönnum sem búsettir voru í Reykjanesbæ fyrir akstri til og frá Víðihlíð auk greiðslna fyrir aksturstíma. Með bréfi Heilbrigðisstofnunarinnar, dags. 19. desember 2008, til Þorbjargar hafi henni verið tilkynnt að í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, og vegna tilmæla fjármálaráðuneytis um lækkun útgjalda, hafi sú ákvörðun verið tekin að hætta keyrslu starfsmanna sem búsettir væru utan Grindavíkur til og frá Víðihlíð á vegum stofnunarinnar auk greiðslna fyrir aksturstíma. Þurfi ekki að fjölyrða um hverjar þessar aðstæður í þjóðfélaginu séu en ljós sé þörf þess að gæta aðhalds í ríkisrekstri. Sé óhjákvæmilegt að taka tillit til þess. Jafnframt hafi komið fram að ákvörðun þessi tæki gildi með 3 mánaða fyrirvara miðað við næstu mánaðamót. Með bréfi Heilbrigðisstofnunarinnar, dags. 12. mars sl., til lögmanns Þorbjargar hafi uppsögnin verið rökstudd með því að verið væri að segja upp fyrirkomulagi sem hefði byggst á hefð en ekki grein 5.4.1 í kjarasamningi SLFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
Samkvæmt grundvallarreglunni um stjórnunarrétt vinnuveitanda fari forstöðumaður með vald til að stjórna og stýra starfsemi þeirrar stofnunar sem hann sé skipaður fyrir. Vald hans í þessum efnum sé óskert fyrir utan þær takmarkanir sem lög, samningar og fyrirmæli æðri stjórnvalda kunni að setja honum.
Í stjórnunarréttinum felist meðal annars vald til að ákveða fyrirkomulag vinnunnar, hvaða verk skuli unnin og skipa mönnum til verka. Vald forstöðumanna í þessum efnum byggist einkum á hinni óskrifuðu reglu um stjórnunarrétt vinnuveitanda.
Til viðbótar hefðbundnum verkstjórnarrétti geti forstöðumaður beinlínis breytt störfum og verksviði einstakra starfsmanna með afgerandi hætti. Heimildir hans í þeim efnum byggist á 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar sé lögfest sérstaklega skylda starfsmanna til að sæta breytingum á störfum sínum. Ríkisstarfsmenn verði að þola meiri breytingar í þessum efnum en starfsmenn á almennum markaði.
Breytingar á starfi samkvæmt 19. gr. laganna geti t.d. lotið að verksviði/verkefnum, breyttri starfslýsingu og eftir atvikum starfsheiti sem geti ýmist verið til hækkunar, lækkunar eða hliðsett, vinnustað/starfsstöð, t.d. flutningur milli herbergja, deilda og/eða húsa en slíkar breytingar geti verið sársaukafullar líkt og allt sem lúti að starfsaðstöðu og vinnutíma, t.d. vegna breytts opnunartíma eða breytinga á fyrirkomulagi vinnutímaskipulags til að mynda úr dagvinnu í vaktavinnu. Breytingar sem lúti einvörðungu að vaktakerfinu (vaktamynstrinu) falli þó ekki hér undir en við slíkar breytingar þurfi að gæta að ákvæðum í kjarasamningi varðandi fresti o.fl. Breytingarnar þurfi almennt ekki að rökstyðja en hafa skuli sjónarmið um jafnræði og meðalhóf í huga.
Í framkvæmd hafi verið litið svo á að þær heimildir sem felist í 19. gr. laganna til að breyta störfum og verksviði séu allrúmar. Auk þess sé ljóst að það sé komið undir mati forstöðumanns á aðstæðum hvort tilefni sé til slíkra breytinga. Skýra verði 19. gr. laganna þannig að það sé forstöðumaður sem fari með vald til að beita henni. Samþykki starfsmanns fyrir breytingum sé ekki nauðsynlegt. Ákvarðanir um breytingu samkvæmt nefndri 19. gr. laga nr. 70/1996 hafi oft í för með sér breytingar á ráðningarkjörum, þ.e. ákvæðum ráðningarsamnings, t.d. sé starfsstöð breytt, mörkum daglegs vinnutíma eða starfsheiti. Slíkar breytingar hafi í för með sér breytingar á ráðningarsamningi starfsmanns sem breytist til samræmis við ákvörðunina.
Stefndi mótmæli því sem fram komi í stefnu að fyrirkomulag þetta sé í samræmi við ákvæði greinar 5.4.1 í kjarasamningi aðila. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sé í dag með 4 virkar starfstöðvar en hafi verið með 2 til viðbótar aðra í Garði og hina í Sandgerði, en þeim hafi verið lokað í sparnaðarskyni. Starfsstöðvar Heilbrigðisstofnunarinnar séu nú:
- Sjúkrahúsið og heilsugæslan í Keflavík (sambyggt).
- Heilsugæsla í Grindavík sem sé opin alla daga vikunnar (aðskilin frá Víðihlíð).
- Hjúkrunardeildin Víðihlíð í Grindavík.
- Heilsugæsla í Vogunum (með læknismóttöku 1 sinni í viku).
Samkvæmt ráðningarsamningi Þorbjargar hafi hún verið ráðin til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og sé vinnustaður (ráðningarstaður) hennar hjúkrunardeildin Víðihlíð í Grindavík. Ákvæði greinar 5.4.1 eigi því ekki við í tilviki Þorbjargar. Eins og segi í greininni þá eigi hún við ef starfsmaður vinnur fjarri leiðum almenningsvagna og skuli þá stofnunin sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða ferðakostnað. Slíkar ferðir teljast til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar. Ljóst sé að vinnustaður Þorbjargar liggi innan marka aðalíbúðarsvæðis Grindavíkur. Sú meginregla vinnuréttarins um að starfsmenn komi sér sjálfir til og frá vinnu í eigin tíma og á eigin farartækjum gildi því í tilviki Þorbjargar, en undantekningin í grein 5.4.1 eigi hér ekki við þar sem Þorbjörg hafi ráðið sig á starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Grindavík, auk þess sem starfsstöðin sé innan þéttbýlis Grindavíkur og vinnuveitandi því ekki skyldugur að annast akstur þeirra starfsmanna sem búsettir eru utan Grindavíkur og hafa ráðið sig til starfsstöðvar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Grindavík.
Hér megi og benda á þá þróun sem átt hafi sér stað á síðari árum að svæðið frá Akranesi, Selfossi, Reykjanesi, sem og höfuðborgarsvæðið, hafi þróast í einn vinnumarkað þar sem fjöldi manna ferðist daglega milli þessara staða til og frá vinnu.
Stefndi bendi jafnframt á að ekkert liggi fyrir um að Þorbjörg vinni fjarri leiðum almenningsvagna, eins og gert sé ráð fyrir í grein 5.4.1. í kjarasamningi og hafi stefnandi enga grein gert fyrir því og ekki byggt á því í málinu sem málsástæðu og ekki getið þess í málavaxtalýsingu. Hafi stefnandi ekki að neinu leyti byggt á almenningssamgöngum í málinu og hvernig þeim sé háttað, þrátt fyrir að hann byggi málatilbúnað sinn allan á tilvísun í umrætt ákvæði kjarasamnings. Mikið af almenningssamgöngum sé á Reykjanesi, en stefnandi geti þess ekki.
Stefndi bendi á að í stefnu vísi stefnandi til áralangrar framkvæmdar á umræddu ákvæði kjarasamningsins, en ekki geri hann þó neina grein fyrir því hver sú framkvæmd sé og hvaða áhrif hann telji hana eiga að hafa.
Að öðru leyti sé málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Ágreiningsefni máls þessa lýtur að túlkun á kjarasamningsákvæði. Málið á því undir Félagsdóm, sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986.
Með ráðningarsamningi dags. 5. júlí 2004 var Þorbjörg Guðmundsdóttir ráðin til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem sjúkraliði á Víðihlíð í Grindavík. Í ráðningarsamningi segir að um launakjör og önnur starfskjör fari eftir því sem í þeim samningi greinir og samkvæmt kjarasamningi sjúkraliða. Engin ákvæði um akstur til og frá vinnu er að finna í ráðningarsamningi hennar, en ágreiningslaust er að vinnuveitandi hefur frá upphafi ráðningar séð um að aka Þorbjörgu, sem búsett er í Reykjanesbæ, til og frá vinnu í Víðihlíð og greitt henni laun í þeim ferðatíma. Byggir stefnandi á því að það fyrirkomulag sé í samræmi við ákvæði greinar 5.4.1 í kjarasamningi aðila, sem hljóðar svo:
Vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skal stofnunin sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða ferðakostnað. Slíkar ferðir teljast til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.
Við aðalmeðferð málsins lagði stefnandi fram upplýsingar og bókun um áætlunarferðir í Reykjanesbæ. Þar kemur fram að almenningsvagnar gangi ekki til Grindavíkur og áætlunarferðir þangað séu allt of stopular til að geta haft raunhæfa þýðingu. Ekki er fallist á þau andmæli stefnda að þessi bókun stefnanda feli í sér í sér nýja málsástæðu, sem sé of seint fram komin. Hér er um að ræða atriði sem varðar túlkun á hinu umdeilda ákvæði kjarasamningsins og hefur þýðingu við úrlausn málsins. Í grein 5.4.1 er engin takmörkun þess efnis að ákvæðið geti ekki átt við um starfsmenn, sem búsettir eru utan þess þéttbýlissvæðis þar sem vinnustaður er. Verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnda er að þessu lýtur.
Svo sem fyrr greinir er óumdeilt að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi séð Þorbjörgu Guðmundsdóttur fyrir akstri til og frá vinnu og greiðslu fyrir ferðatímann. Hefur þessi framkvæmd, sem staðið hefur í tæp fimm ár, verið í samræmi við ákvæði 5.4.1 í kjarasamningi aðila og hefur ekki verið sýnt fram á að sú tilhögun hafi haft við annan grundvöll að styðjast. Verður því lagt til grundvallar að um starfskjör þessi fari samkvæmt kjarasamningsákvæði þessu og í samræmi við framkvæmd þess. Sú ákvörðun stefnda að hætta keyrslu starfsmanna til og frá Víðihlíð og greiða ekki sérstaklega fyrir ferðatímann er andstæð greindu kjarasamningsákvæði og samrýmist ekki heldur venjubundinni og áralangri framkvæmd þess. Þá er ekki fallist á að ágreiningsefnið falli undir reglur um stjórnunarrétt þar sem skýrt ákvæði er um það að finna í kjarasamningi aðila. Heimild til breytingar á störfum samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 rýmir ekki burt réttindum samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og er þeirri málsástæðu stefnda hafnað.
Ber samkvæmt framansögðu að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda, eins og nánar greinir í dómsorði.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennt er að ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sem tilkynnt var Þorbjörgu Guðmundsdóttur, Hólagötu 29, Reykjanesbæ, sjúkraliða á Víðihlíð í Grindavík, um að hætta keyrslu hennar til og frá Víðihlíð á vegum stofnunarinnar auk greiðslna fyrir aksturstíma, sé andstæð grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs.
Stefndi, íslenska ríkið vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, greiði stefnanda, Sjúkraliðafélagi Íslands vegna Þorbjargar Guðmundsdóttur 250.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Arnfríður Einarsdóttir
Kristjana Jónsdóttir
Guðni Á. Haraldsson
Kristján Torfason