Hoppa yfir valmynd
19. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2009

Fimmtudaginn 19. mars 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 20. janúar 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 14. janúar 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. október 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru segir:

„Þann Z. september sl. fæddist sonur minn, tæpum 2 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag sem var 19. nóvember sl. Ég fékk heiftarlega og alvarlega meðgöngueitrun (HELLP) og þurfti að hafa snar handtök við að koma barninu í heiminn (bráðakeisari). Ég dvaldi á sjúkrahúsi í viku og drengurinn í tæpan mánuð.

Þar sem drengurinn fæddist þetta mikið fyrir tímann hafði það talsvert mikil áhrif á útreikningstímabil fæðingarorlofs míns, þ.e.a.s. þá upphæð sem ég fæ greidda en ég var í námi á síðasta ári og einungis búin að stunda launaða vinnu frá og með 1. janúar 2008 (og alveg fram að deginum sem drengurinn fæddist, Z. september).

Samkvæmt reglum um fæðingarorlof miðast útreikningstímabilið við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Sem þýðir að tekjur mínar á tímabilinu mars 2007 til og með febrúar 2008 lágu til grundvallar fyrir útreikningum á upphæð fæðingarorlofsgreiðslna. Þar sem ég var í námi árinu áður, þ.e. 2007 var það undanþegið í útreikningunum. Af þeim sökum var einungis hægt að taka mið af tekjum mínum í janúar og febrúar 2008 og þar með fékk ég úthlutað þeirri upphæð sem samsvarar fæðingarstyrk, sem er X krónur. Hefði ég hins vegar ekki orðið alvarlega veik og náð að ljúka fullri meðgöngu, hefði verið hægt að taka mið af tekjum mínum í apríl, mars, febrúar og janúar 2008 og þar með hefði sú upphæð sem ég fengi greidda í fæðingarorlofi verið talsvert önnur.

Laun mín fyrir janúar febrúar, mars og apríl 2008 voru samtals um X krónur. Þannig reiknast mér til að ég hefði fengið um X krónur í fæðingarorlof á mánuði en ekki rúm X krónur eins og málum er háttað núna. Miðað við að ég taki 6 mánaða fæðingarorlof fæ ég í dag rúmlega X krónur en hefði annars fengið tæpa X krónur.

Segja má að barnið mitt hafi ekki fæðst í eiginlegri merkingu fyrir tímann, heldur varð ég mjög alvarlega veik og því varð að ljúka meðgöngunni mjög snöggt með inngripi.

Það er einlæg ósk mín að mál mitt verði tekið fyrir og metið hvort forsenda sé fyrir því að veita undanþágu frá annars settum reglum varðandi útreikningstímabil fyrir fæðingarorlofsgreiðslur.“

 

Með bréfi, dagsettu 5. febrúar 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 9. febrúar 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 28. október 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hennar yrði X krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum.

Í 2. mgr. 13. gr. segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 kemur fram að átt sé við almanaksmánuði.

Í 6. mgr. 13. gr. ffl. kemur fram að greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25 – 49% starfi í hverjum mánuði skuli þó aldrei vera lægri en sem nemur 65.227 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50 – 100% starfi í hverjum mánuði skuli aldrei vera lægri en sem nemur 91.200 kr. á mánuði (á árinu 2008 103.869 kr. og á árinu 2009 113.902 kr.).

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda var þann Z. september 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði á tímabilinu mars 2007 – febrúar 2008 sem kærandi taldist hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Þó skal aldrei miða við færri en fjóra mánuði. Ekki er að finna neinar undanþágur frá því skilyrði hvorki í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í reglugerð.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi var bara með laun í febrúarmánuði 2008. Aðra mánuði tímabilsins var kærandi launalaus. Meðaltalslaun kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. eru því X krónur. Kærandi var í 50 – 100% starfshlutfalli á ávinnslutímabili 1. mgr. 13. gr. ffl. og skulu greiðslur til kæranda í fæðingarorlofi því vera í samræmi við starfshlutfall hennar skv. 6. mgr. 13. gr. ffl. eða 103.869 kr. á mánuði árinu 2008 og 113.902 kr. á mánuði árinu 2009.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 28. október 2008 beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 27. febrúar, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála bárust ekki frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 28. október 2008.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, öðlast foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr. ffl., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þá segir einnig í 2. mgr. 13. gr. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda er fætt Z. september 2008. Kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, um að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði sex mánuði fyrir fæðingardag barnsins.

Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er tímabilið frá mars 2007 til febrúar 2008. Á því tímabili var kærandi einungis á innlendum vinnumarkaði í febrúar 2008. Skýrt er kveðið á um það í ákvæðinu að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um að þegar starfsmaður uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. skuli hann eiga rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. 13. gr. í samræmi við starfshlutfall hans.

Í 6. mgr. 13. gr. ffl. segir að greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skuli aldrei vera lægri en sem nemur 91.200 kr. í hverjum mánuði. Í 7. mgr. 13. gr. er kveðið á um árlega endurskoðun fjárhæðanna. Árið 2008 var þessi fjárhæð 103.869 kr. samkvæmt reglugerð nr. 1274/2007 en við gildistöku núgildandi reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1218/2008 var þessi fjárhæð 113.902 kr. þann 1. janúar 2009.

Ekki er heimilt samkvæmt ffl. að miða við annað tímabil við útreikning á greiðslum til kæranda en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. laganna. Þar sem ekki er heimild til undanþágu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta