Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2021-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 30/2021

Fimmtudaginn 15. apríl 2021

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 27. október 2020, á beiðni hans um greiðslu fjárhagsaðstoðar frá febrúar 2020 og ákvörðun sveitarfélagsins um að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð frá september 2020 vegna höfnunar á atvinnu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 27. febrúar 2020, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Í kjölfarið var óskað eftir að kærandi legði fram staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi lagði fram slíka staðfestingu frá árinu 2014 en var bent á að skila þyrfti nýrri staðfestingu. Svar Vinnumálastofnunar barst Hafnarfjarðarbæ í september 2020 og var kæranda þá tjáð að hann þyrfti að senda inn nýja umsókn um fjárhagsaðstoð þar sem almennt væri gildistími umsókna þrír mánuðir. Kærandi lagði inn nýja umsókn 9. september 2020. Með bréfi fjölskyldu- og barnamálasviðs, dags. 16. september 2020, var kæranda tilkynnt að beiðni hans um fjárhagsaðstoð aftur í tímann væri synjað með vísan til 2. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Sama dag var kæranda boðið starf hjá Hafnarfjarðarbæ sem hann hafnaði. Kærandi var þá upplýstur um heimild í 2. mgr. 3. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð til lækkunar á framfærslustyrk ef atvinnu væri hafnað. Kærandi áfrýjaði niðurstöðu fjölskyldu- og barnamálasviðs til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem og þeirri ákvörðun að skerða fjárhagsaðstoð vegna höfnunar á atvinnuúrræði. Fjölskylduráð tók mál kæranda fyrir á fundi þann 23. október 2020 og staðfesti synjun á beiðni hans um fjárhagsaðstoð frá febrúar 2020. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 27. október 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. janúar 2021. Með bréfi, dags. 26. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 6. mars 2021 og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greidda óskerta fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ frá dagsetningu fyrstu umsóknar, eða 26. febrúar 2020. Umsókn kæranda hafi ekki verið afgreidd vegna þess að staðfestingu hafi vantað á því að hann ætti rétt á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi óskað eftir slíkri staðfestingu og hún hafi verið afgreidd á fundi Vinnuálastofnunar þann 7. maí 2020. Kærandi hafi sérstaklega óskað eftir því að Vinnumálastofnun myndi senda staðfestinguna með tölvupósti og afrit á tiltekinn félagsráðgjafa hjá Hafnarfjarðarbæ. Vinnumálastofnun hafi ekki orðið við þeirri ósk. Af þeim sökum hafi kæranda ekki verið kunnugt um að beiðnin hafi ekki verið afgreidd fyrr en í september 2020. Þegar formlegheitin hafi legið fyrir hafi þau gögn verið afhent félagsráðgjafanum. Þá hafi kæranda verið tjáð að hann þyrfti að senda nýja umsókn um fjárhagsaðstoð og grunlaus hafi hann orðið við þeirri beiðni. Fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðarbæjar hafi þá ákveðið að fjárhagsaðstoðin skyldi miðast við dagsetningu hinnar nýju umsóknar, eða 9. september 2020. Það hafi samt legið ljóst fyrir að beðið hafi verið eftir gögnum frá Vinnumálastofnum til þess að afgreiða fyrri umsókn. Ráðgjafarteymi fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar hafi svo að sjálfsögðu staðfest fyrri ákvörðun sviðsins. Kæranda sýnist að borgaraleg réttindi til atvinnufrelsis og aðstoðar sem tryggð séu íslenskum þegnum í stjórnarskrá lýðveldisins séu af hafnfirskum stofnunum að vettugi höfð. Ætla skyldi að stjórnarskráin væri æðri reglum sveitarfélaga.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að í greinargerðar Hafnarfjarðarbæjar sé þess ekki getið að honum hafi verið gert að skila inn nýrri umsókn. Ekki sé komið inn á kjarna málsins sem séu borgaraleg réttindi kæranda sem tryggð séu í stjórnarskrá lýðveldisins. Einnig virðist fara fyrir sá skilningur að lög séu æðri reglum sveitarfélaga. Rökstuðningur kæranda sé afar einfaldur og eingöngu byggður á því sem í stjórnarskránni standi. Stjórnarskráin sé grundvallarplagg og samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um hvernig stjórn lýðveldisins og réttindum borgaranna skuli háttað. Þess vegna sé hún skrifuð á einföldu og skýru máli. Það þurfi ekki lögfræðimenntun til að skilja hana. Málið snúist því um afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála um hvort vegi þyngra, þ.e. reglur Hafnarfjarðarbæjar um félagslega aðstoð eða bókstafur stjórnarskrár lýðveldisins. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ vegna atvinnuleysis þar sem önnur úrræði hafi ekki verið til staðar. Gögn frá Ríkisskattstjóra sanni að engar tekjur til framfærslu hafi verið fyrirliggjandi. Engar viðvaranir eða tilkynningar hafi borist kæranda um að umsókn um aðstoð hefði verið felld úr gildi. Starfmanni bæjarins, sem hafi séð um afgreiðslu málsins, hafi þó verið að fullu ljóst að kærandi hafi beðið eftir gögnum til að afgreiða mætti umsóknina samkvæmt verkreglum bæjarins. Dagsetning upphaflegrar umsóknar um aðstoð hljóti því að vera gild.

Kærandi vísar til þess að 75. gr. stjórnarskrárinnar verði ekki skilin öðruvísi en svo að öllum sé frjálst að stunda ekki atvinnu sem þeir kjósi ekki nema almannahagsmunir krefjist þess og þá þurfi að setja lög um það. Reglur Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð og atvinnuþátttöku séu ekki lög. Það sé rétt að Hafnarfjaðarbær hafi boðið kæranda atvinnu. Með fullri virðingu fyrir því tilboði þá sé það starf sem hafi ekki hentað og því hafi tilboðinu verið hafnað. Samkvæmt 68. gr. stjórnarskrárinnar megi engan beita pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nauðungarvinnu skuli engum gert að leysa af hendi. Það að kærandi hafi hafnað nauðungaratvinnutilboði Hafnarfjarðarbæjar hafi falið í sér refsingu. Refsingin hafi verið skerðing á bótum sem nái langt út fyrir það tímabil sem viðkomandi atvinnutilboð hafi staðið til boða ásamt óbeinni hótun um að það gæti endurtekið sig og náð yfir enn lengra tímabil. Kæranda hafi því verið gert að fá skertar bætur sem engan veginn dugi til framfærslu og það sé ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að um vanvirðandi meðferð sé að ræða. Krafa kæranda sé því óbreytt eins og hún komi fram í kæru.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð í febrúar 2020, en hann hafi þá verið atvinnulaus en vinnufær. Kæranda hafi verið bent á hvaða gögnum þyrfti að skila til að umsókn fengi afgreiðslu, meðal annars staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi skilað staðfestingu frá Vinnumálastofnun frá árinu 2014 en hafi verið bent á að skila þyrfti nýrri staðfestingu. Kærandi hafi átt í einhverjum samskiptum við Vinnumálastofnun vegna þessa en af ýmsum ástæðum, sem raktar séu í kæru, hafi svar stofnunarinnar farið fram hjá honum og það ekki borist til Hafnarfjarðarbæjar fyrr en í september. Þá hafi kærandi lagt inn nýja umsókn um fjárhagsaðstoð en óskað eftir að fá greiðslur frá febrúar, eða frá því að hann hafi fyrst lagt inn umsókn. Þar sem gildistími umsókna um fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum sveitarfélagsins þar um sé alla jafna þrír mánuðir hafi verið litið svo á að um nýja umsókn væri að ræða. Umsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til 2. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð frá september 2020, eða frá umsóknardegi hinnar nýju umsóknar. Kæranda hafi verið boðin vinna en samkvæmt 3. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð skuli aðstoðin alla jafna veitt sem tilboð um tímabundið launað starf eða virkniúrræði samhliða fjárhagsstyrk, sé umsækjandi vinnufær. Kæranda hafi verið boðið starf í atvinnuátaki á vegum Hafnarfjarðarbæjar, 70% starf í nokkrar vikur, en hafi alfarið hafnað því þar sem hann væri að leita að annars konar starfi.

Hjá Hafnarfjarðarbæ gildi reglur um fjárhagsaðstoð sem hafi verið samþykktar í maí 2020. Í 1. mgr. 6. gr. reglnanna segi að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð skuli að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þá segi í 2. mgr. að fjárhagsaðstoð sé greidd frá umsóknardegi. Kærandi hafi fyrst sótt um fjárhagsaðstoð þann 27. febrúar 2020 en umsókn hans hafi ekki verið afgreidd þar sem tilskilin gögn hafi ekki borist fjölskyldu- og barnamálasviði, þrátt fyrir að kærandi hafi fengið greinargóðar upplýsingar frá starfsmanni sviðsins um hvaða upplýsingar þyrftu að liggja fyrir, en staðfestingu hafi vantað frá Vinnumálastofnun um að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi segi sínar farir ekki sléttar varðandi samskipti við Vinnumálastofnun og skýringar hans komi fram í kærugögnum. Fjölskyldu- og barnamálasvið geti hvorki borið ábyrgð á því að upplýsingar frá Vinnumálastofnun hafi ekki komist til skila né tekið afstöðu til þess hvaða ástæður hafi legið þar að baki en í 3. mgr. 8. gr. reglnanna segi að skila þurfi tilskildum gögnum frá Vinnumálastofnun þegar sótt sé um fjárhagsaðstoð og umsækjandi sé atvinnulaus. Því sé ljóst að ekki hafi verið unnt að afgreiða umsókn kæranda frá 27. febrúar þar sem umbeðin gögn hafi ekki borist fyrr en liðið hafi verið á sjöunda mánuð frá upphaflegum umsóknardegi. Ný umsókn hafi borist frá kæranda þann 9. september og miðist réttur hans til fjárhagsaðstoðar við þann tíma, sbr. 6. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að synjun Hafnarfjarðarbæjar á beiðni kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar frá febrúar 2020 og ákvörðun sveitarfélagsins um að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð frá september 2020 vegna höfnunar á atvinnu.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 5. mgr. 1. gr.  reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991 þar sem kveðið er á um félagslega ráðgjöf. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt á formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf eða virkniúrræði. Tilgangur aðstoðar er að styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfsbjargar, gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar og að stuðla að valdeflingu þeirra.

Í 8. gr. reglnanna er meðal annars rakið hvaða gögn og upplýsingar umsækjandi skuli leggja fram með umsókn. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. skal umsækjandi sem er atvinnulaus framvísa tilskildum gögnum frá vinnumiðlun. Í tilviki kæranda var um að ræða staðfestingu þess efnis að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun. Ákvæði 9. gr. heimilar fjölskylduráði að afla frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda ef þörf krefur, meðal annars hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, og skal það gert í samráði við hann. Í 1. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram sú meginregla að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglnanna er fjárhagsaðstoð greidd frá umsóknardegi og að jafnaði er um eftir á greiðslur að ræða.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ 27. febrúar 2020. Af gögnum málsins má ráða að sú umsókn hafi ekki verið afgreidd vegna ófullnægjandi gagna, þ.e. hvorki synjað né samþykkt. Sú málsmeðferð er ekki í samræmi við 24. gr. reglna sveitarfélagsins þar sem segir að fjölskylduráð skuli taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er  og sjá jafnframt til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þá segir í 28. gr. reglnanna að kynna skuli niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skuli umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Slíkt svar liggur ekki fyrir í máli kæranda. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki mátt ráða af samskiptum sínum við sveitarfélagið að honum hafi borið að skila umbeðnum gögnum fyrir tiltekinn tíma. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi verið minntur á gagnaskil eða upplýstur um afleiðingar þess að þeim yrði ekki skilað fyrir tiltekinn tíma. Að framangreindu virtu er því lagt fyrir Hafnarfjarðarbæ að taka umsókn kæranda frá 27. febrúar 2020 til efnislegrar afgreiðslu.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð frá september 2020 með vísan til þess að hann hafi hafnað atvinnu. Í 3. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð eru raktar aðstæður sem valda lækkun á framfærslustyrk. Í 1. mgr. segir að fjárhagsaðstoð skuli alla jafna veitt sem tilboð um tímabundið launað starf eða virkniúrræði samhliða fjárhagsstyrk sé umsækjandi vinnufær. Þegar fjárhagsaðstoð sé veitt í formi tilboðs um tímabundið starf skuli kjarasamningsbundin laun að teknu tilliti til starfshlutfalls aldrei vera lægri en grunnframfærsla samkvæmt 11. gr. reglnanna. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða virkni eða hafi sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa sé heimilt að greiða honum allt að hálfri upphæð framfærslustyrks hans samkvæmt 11. gr. þann mánuð sem hann hafni vinnu eða úrræði svo og tvo mánuði þar á eftir.

Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting þess efnis að kæranda var boðin atvinna hjá sveitarfélaginu í september 2020 sem hann afþakkaði með þeim rökum að réttur hans væri tryggilega varinn í 69. gr. stjórnarskrárinnar. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar vísar kærandi til þess að starfið hafi ekki hentað og telur að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar sé í andstöðu við 68. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Líkt og að framan greinir er það hlutverk sveitarfélaga að tryggja að íbúar þess geti séð fyrir sér og sínum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991. Nánari útfærsla á þeirri skyldu er í höndum hvers sveitarfélags, með setningu reglna þar um. Í reglum Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð kemur skýrt fram að fjárhagsaðstoð sé veitt á formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf. Að mati úrskurðarnefndarinnar á sú útfærsla sér stoð í lögum nr. 40/1991 og er ekki í andstöðu við framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að kærandi hafi fært fram viðhlítandi skýringu, í skilningi 2. mgr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, fyrir því að hafna atvinnu hjá Hafnarfjarðarbæ. Að því virtu er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð í september 2020 og tvo mánuði þar á eftir, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða A skerta fjárhagsaðstoð í september 2020 og tvo mánuði þar á eftir, er staðfest.

Lagt er fyrir Hafnarfjarðarbæ að taka umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð frá 27. febrúar 2020 til efnislegrar afgreiðslu.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta