Hoppa yfir valmynd
28. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 23/2018 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 23/2018

 

Ákvörðunartaka. Ljósrit fundargerðar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. mars 2018, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C, D, E, F og G, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 12. apríl 2018, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 30. apríl 2018, og athugasemdir gagnaðila, dags. 9. maí 2018, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 28. maí 2018.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið H, alls fjóra eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi kjallaraíbúðar í húsinu en gagnaðilar íbúða á fyrstu og annarri hæð hússins og íbúðar í risi. Ágreiningur er um húsfund frá 5. mars 2018 og aðgengi að fundargerðum.

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

I.                    Að viðurkennt verði að hússjóður skuli ekki greiða fyrir hellulögn að bílskúr og á bílastæðum, niðurföll og frárennslislagnir á bílastæðunum við bílskúrana, hellulögn við kjallaratröppur, hellulögn ofan á steypta gangstétt og jarðvegsvinnu.

II.                 Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eigi rétt á því að skoða fundargerðarbók og fá ljósrit af fundargerð húsfundar frá 5. mars 2018.

III.              Að viðurkennt verði að á húsfundi 5. mars 2018 hafi ekki verið heimilt að taka ákvörðun um að helluleggja aðkeyrslu að bílskúr þar sem það hafi ekki verið tilgreint sem sérstakur dagskrárliður í fundarboði.

Í álitsbeiðni kemur fram að 5. mars 2018 hafi verið haldinn húsfundur sem álitsbeiðandi hafi ekki mætt á. Þann 8. mars 2018 hafi álitsbeiðandi fengið upplýsingar um hjá einum gagnaðila að hússjóður ætti að greiða fyrir aðkeyrslu að bílskúrunum. Samkvæmt áliti kærunefndar húsamála beri eigendum bílskúra aftur á móti að greiða kostnað vegna viðhalds á bílastæðunum við þá og aðkeyrslu að þeim.

Í tvö skipti hafi álitsbeiðandi óskað eftir að skoða fundargerðarbók en því ekki verið sinnt.

Álitsbeiðandi hafi hvorki fengið upplýsingar um hvað verkið muni kosta né fengið ljósrit af fundargerðinni frá fundinum 5. mars 2018. Ljóst sé að jarðvegsvinna, hellulögn, frárennslislagnir og niðurföll á bílastæðum við bílskúrana muni kosta mikið. Það sé búið að fjarlægja hellurnar við kjallaratröppurnar þó engin þörf sé á nýjum hellum þar. Búið sé að láta möl yfir steypta gangstétt sem liggi frá götu að tröppunum en ekki sé þörf á að endurnýja þar.

Í greinargerð gagnaðila segir að framkvæmdir hafi byrjað í enda marsmánaðar við heimreið að húsinu, þar sem gangstígar að íbúðum í kjallara og efri hæðum hafi verið hellulagðir, sem og aðkeyrsla að húsinu og fram að bílskúrum. Helsti ásteytingarsteinn álitsbeiðanda snúi að kostnaði við þessa framkvæmd og þrátt fyrir að gagnaðilar hafi tjáð henni að farið sé eftir lögum og að bílskúrseigendur greiði sinn hluta að fullu sé ýjað að öðru í álitsbeiðni.

Gagnaðilar fylgi í einu og öllu lögum um fjöleignarhús, sbr. álit kærunefndar þar sem vísað sé til 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna. Það sé því ekki rétt haft eftir gagnaðila í álitsbeiðni að hún hafi tjáð álitsbeiðanda að hússjóður myndi greiða fyrir framkvæmdina. Henni hafi verið tjáð nákvæmlega hvernig staðið yrði að greiðslum.

Ekki sé rétt að álitsbeiðandi hafi ítrekað óskað eftir því að fá fundargerðarbók húsfélagsins eftir húsfund 5. mars 2018.  Hafi hún óskað eftir því einu sinni við einn gagnaðila en það hafi staðið illa á hjá henni þá stundina. Einnig liggi vafi á því hvort rétt sé að afhenda fundargerðarbók fyrir utan húsfundi íbúanna, þar sem engum sé heimilt að bæta við eða breyta fundargerðum að fundum loknum. Þá geti álitsbeiðanda fengið afrit af fundargerðinni.

Ekkert sé athugavert við fundarboð umrædds fundar eða dagskrá hans. Til hans hafi verið boðað með löglegum hætti og farið eftir auglýstri dagskrá. Undir liðnum önnur mál hafi framkvæmdir verið kynntar. Ekkert hafi verið rætt sem ekki hafi komið fram áður enda hið tiltekna mál varðandi framkvæmdir á heimreið frá árinu 2014.

Í athugasemdum álitsbeiðenda segir að hún hafi óskað skriflega eftir ljósriti af fundargerðinni. Hún hafi látið bréf inn um póstlúgu hjá einum gagnaðila.

Álitsbeiðandi telji að í fundarboðinu hefði átt að greina frá því að til stæði að fjalla um aðkeyrslu og bílastæði.

Í athugasemdum gagnaðila segir að athugasemdir álitsbeiðandi snúi fyrst og fremst að því að ræddar hafi verið fyrirhugaðar framkvæmdir á húsinu undir dagskrárliðnum „önnur mál“. Allir íbúar hússins, að álitsbeiðanda undanskilinni, telji ekkert athugavert við að framkvæmdirnar hafi verið ræddar á fundinum.

Vegna kröfu álitsbeiðanda um ljósrit af fundargerðinni telji gagnaðilar að betra væri að allir aðilar húsfélagsins myndu sækja fundina. Það sé aukinn kostnaður sem felist í því að þurfa ljósrita gögn og afhenda einum íbúa og það sé alls ekki viðbúið að hver og einn hafi aðgengi að ljósritunarvél.

III. Forsendur

Í álitsbeiðni er greint frá því að tekin hafi verið ákvörðun á húsfundi 5. mars 2018 um að hússjóður myndi greiða kostnað vegna hellulagningar á aðkeyrslu að tveimur bílskúrum sem fylgja eignum fyrstu og annarrar hæðar hússins. Ráðið verður af gögnum málsins að sá skilningur álitsbeiðanda sé á misskilningi byggður en til standi að eigendur bílskúranna greiði einir fyrir þá framkvæmd, sbr. álit kærunefndar húsamála í máli nr. 37/2014. Kröfu álitsbeiðanda um viðurkenningu á ólögmæti slíkrar ákvörðunar er því vísað frá kærunefnd.

Álitsbeiðandi greinir frá því að hún hafi ekki fengið að skoða fundargerðarbók þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Þá hafi hún ekki fengið ljósrit af fundargerð húsfundar frá 5. mars 2018. Gagnaðili vísar til þess að álitsbeiðandi geti fengið afrit af fundargerðinni en best væri að allir eigendur myndu sækja húsfundi þar sem aukinn kostnaður felist í því að þurfa ljósrita gögn og ekki viðbúið að hver og einn hafi aðgengi að ljósritunarvél.

Í 4. mgr. 64. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að fundargerðir skulu jafnan vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og eiga þeir rétt á því að fá staðfest endurrit eða ljósrit þeirra. Með vísan til þessa ákvæðis telur kærunefnd að álitsbeiðandi eigi rétt á að skoða fundargerðarbók þegar tækifæri til þess gefst og fá afhent ljósrit af fundargerð húsfundar frá 5. mars 2018.

Samkvæmt 3. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús skal í fundarboði greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skal getið þeirra mála sem ræða á og meginefni tillagna þeirra sem leggja á fyrir fundinn. Kærunefnd telur að álitsbeiðandi byggi á því að ekki hafi verið heimilt að taka ákvörðun um hellulögn á aðkeyrslu bílskúranna á húsfundi 5. mars 2018 þar sem ekki hafi verið tilgreint á fundarboði að slík ákvörðunartaka stæði til. Fyrir liggur að á umræddum húsfundi kom hellulögnin til umræðu á meðal fundarmanna en ekki verður ráðið af gögnum málsins að sérstök ákvörðun hafi verið tekin um þær framkvæmir. Að því virtu að slík ákvörðunartaka fór ekki fram á umræddum fundi er þessari kröfu álitsbeiðanda vísað frá kærunefnd.

IV. Niðurstaða

 

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi eigi rétt á að fá afhent ljósrit af fundargerð húsfundar frá 5. mars 2018.

Öðrum kröfum álitsbeiðanda er vísað frá.

 

 

Reykjavík, 28. maí 2018

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta