Af aðalfundi ICEPRO þriðjudaginn 24. febrúar 2015
Aðalfundur ICEPRO var haldinn í Skála á Hótel Sögu, þriðjudaginn 24. febrúar 2015.
Hjörtur Þorgilsson, formaður ICEPRO, opnaði fundinn og bauð menn velkomna.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði fundinn á léttu nótunum. Hún ICEPRO kveðju sína vegna 25 ára afmælis félagsins, en það var stofnað árið 1989. "Árangurinn er gríðarlegur af starfi ykkar" sagði Ragnheiður Elín, sem sá ýmis sóknarfæri við að auka hlut rafrænna viðskipta. Hún tók eftir því að konur voru í meirihluta á mælendaskrá að þessu sinni og minntist á að aðeins tvær hefðu setið í stjórn ICEPRO síðastliðin 25 ár, reyndar báðar á síðastliðnu ári. Allt um það væru kynjahlutföllin að jafnast!
Ráðherra sagði það hlutverk ráðuneytisins að móta stefnu í sjálfvirkum viðskiptum. Forgangsraða þyrfti til að tryggja samræmt umhverfi með tilliti til samfélagsins. Hún sagði staðla skipta máli til að rafræn viðskipti gengju greitt og minnti á "pinnið og minnið" í því sambandi. Ráðherra sagði Íslendinga verða að vera á varðbergi og gætast þess að dragast ekki afturúr. Verslun á milli landa er að aukast og nefndi hún sem dæmi eBay og Amazon netverslanirnar og að nú væri hægt að kaupa flugmiða á netinu. En stóra verkefnið væri að tryggja samkeppnishæfni Íslands.
Ræða ráðherra í heild birtist hér, þegar hún berst frá ráðuneytinu.
Þá var komið að afhendingu EDI-bikarsins. Sláturfélag Suðurlands varð fyrir valinu að þessu sinni. Ráðherra mæltist svo: „Sláturfélag Suðurlands er verðugur verðlaunahafi. Þeir tóku tilmæli FJR föstum tökum og gátu strax frá 1. janúar 2015 gefið út rafræna reikninga samkvæmt tækniforskriftum Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni. Jafnframt mun Sláturfélagið brátt geta tekið á móti rafrænum reikningum samkvæmt tækniforskriftunum.
Sigurjón Stefánsson, deildarstjóri upplýsingatæknideildar Sláturfélagsins, er formaður samræmingarhóps ICEPRO. Innleiðing XML tækniforskriftanna hefur notið góðs af forystu Sláturfélags Suðurlands og líklega mun brautryðjandastarf þeirra auðveldað öðrum fyrirtækjum innleiðinguna.“
Sigurjón Stefánsson tók síðan við bikarnum úr hendi ráðherra og þakkaði kærlega fyrir þennan heiður.
Bergljót Kristinsdóttur, Veritas hefur komið víða við sögu í upplýsingatækninni. Hún leitaðist við að svara spurningunni: "Eru rafrænir reikningar arftaki EDI samskipta?" Ræða hennar birtist hér: Eru-RR-XML-arftaki-EDI.pdf
Vilma Svövudóttir var sú þriðja á mælendaskrá í hópi öflugra kvenna á aðalfundi ICEPRO. Henni var hugleikið efnið: "Framtíðin með rafrænum reikningum hjá Ölgerðinni". Skyggnur hennar birtast hér: Olgerd-Rafrænir-reikningar.pdf
Hjörtur þakkaði ræðumönnum og sagði að samræming væri megin viðfangsefnið á þessu starfsári.
Næst á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf.