Þrír íslenskir vefir skora hátt í evrópskri könnun á aðgengi fyrir fatlaða
Þrír íslenskir vefir eru meðal 20 vefja sem þykja skara fram úr í evrópskri könnun þar sem 238 vefir eru metnir með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða og birt var í vikunni. Vefur Tryggingastofnunar var í fjórða sæti, vefurinn island.is í því sjötta og vefur Samgöngustofu í því nítjánda. Um er að ræða verkefni sem heitir EIII - Evrópskt internet fyrir alla.
Frá árinu 2005 hefur aðgengi fyrir fatlaða á opinberum vefjum á Íslandi verið metið annað hvert ár, síðast árið 2013, í úttekt sem ber heitið Hvað er spunnið í opinbera vefi? Úttektin er á vegum innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og verður næst framkvæmd á haustmánuðum. Aðgengi er einn fjögurra þátta sem kastljósinu hefur verið beint að í úttektinni frá upphafi, aðrir matsþættir eru innihald, nytsemi, þjónusta og nú síðast einnig lýðræðisleg virkni á vefjunum.
Niðurstöðurnar árið 2013, þegar skoðaðir voru 270 opinberir vefir, sýndu að aðgengi fyrir fatlaða hafði verið bætt til muna á opinberum vefjum frá síðustu könnun á undan, fór úr 48 stigum í 63 stig. Gátlistinn sem unnið er eftir í matinu endurspeglar ólíkar fatlanir notenda, t.d. skert aðgengi vegna blindu, sjónskerðingar, hreyfihömlunar eða heyrnarleysis.
- Vefur verkefnisins EIII - Evrópsk internet fyrir alla
- Niðurstöður úttektarinnar Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013?
- Frétt á vefnum island.is