Nr. 742/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 7. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 742/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU23090109 og KNU23090110
Kæra [...]
og [...]
á ákvörðunum Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 23. september 2023 kærðu [...], fd. [...], (hér eftir K) og [...], fd. [...], (hér eftir M), ríkisborgarar Georgíu, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 21. september 2023, um að synja kærendum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar um að synja þeim um alþjóðlega vernd verði felldar úr gildi. Jafnframt gera kærendur kröfu um að ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann til tveggja ára verði felldar úr gildi.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi 7. september 2023. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun 21. september 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 21. september 2023, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærendum var jafnframt brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Voru framangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 23. september 2023. Kærunefnd barst greinargerð kærenda 9. október 2023. Kærendur voru skráðir horfnir úr úrræði sínu 9. október 2023, samkvæmt upplýsingum. Í tölvubréfi talsmanns kærenda sem sent var kærunefnd 20. október 2023 kom fram að hann hefði engar upplýsingar um þau.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er vísað til viðtala kærenda hjá stofnuninni varðandi ástæður flótta þeirra frá heimaríki.
Fram kemur í ákvörðunum Útlendingastofnunar að þar sem kærendur væru ríkisborgarar ríkis sem skilgreint væri sem öruggt upprunaríki og væri á lista stofnunarinnar sem slíkt yrðu umsóknir þeirra teknar til forgangsmeðferðar með vísan til 1. tölul. b-liðar 1. og 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Var það mat Útlendingastofnunar að umsóknir kærenda teldust bersýnilega tilhæfulausar, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kærendum var brottvísað frá landinu með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og þeim og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára, sbr. 101. gr. sömu laga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvarðanna, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Þá var kærendum leiðbeint um að hægt væri að óska eftir nánari rökstuðningi fyrir ákvörðunum. Kærendur óskuðu ekki eftir nánari rökstuðningi.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að þau byggi málatilbúnað sinn á því að heimaríki þeirra sé ekki öruggt og því hvorki lagaskilyrði til að byggja á því að um öruggt upprunaríki sé að ræða né að umsóknir þeirra séu bersýnilega tilhæfulausar. Í Georgíu hafi bæði kærendur orðið fyrir ítrekuðum hótunum og ofbeldi af hálfu fyrrum sambýlismanns K eftir að hún varð þunguð að barni þeirra og hafi þau því neyðst til þess að flýja frá heimaríki þar sem líf þeirra hafi verið í hættu sem og líf ófædds barns þeirra.
Einnig er byggt á því að ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa kærendum og ákvarða þeim endurkomubann til tveggja ára sé verulega ósanngjörn ráðstöfun gagnvart þeim þar sem þeim verði brottvísað aftur til heimaríkis þar sem líf þeirra séu í hættu og þeim með því gert með öllu ókleift að leita alþjóðlegrar verndar í öðru Schengen ríki.
Kærendur vísa til þess að samkvæmt ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skuli ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Kærendur telja að um ósanngjarna ráðstöfun gegn þeim sé að ræða þar sem K sé þunguð og þau séu því í viðkvæmri stöðu. Þá sé líf þeirra í hættu í heimaríki og geti lögreglan eða yfirvöld ekki veitt þeim viðhlítandi vernd gegn hótunum og ofbeldi fyrrum sambýlismanns K.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað georgískum vegabréfum. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu georgískir ríkisborgarar.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Georgíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Amnesty International Report 2022/2023: Georgia (Amnesty International, 27. mars 2023);
- Country Reports on Human Rights Practices for 2022 – Georgia (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
- Freedom in the World 2023 – Georgia (Freedom House, 13. mars 2023);
- Nations in Transit 2023 – Georgia (Freedom House, 24. maí 2023);
- Temarapport: Georgien – Rätts- och säkerhetssektorn (Lifos, 16. september 2019);
- The Situation in Human Rights and Freedoms in Georgia 2021 (Public Defender (Ombudsman) of Georgia, 31. mars 2022);
- The World Factbook – Georgia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 14. nóvember 2023);
- World Report 2023 – Georgia (Human Rights Watch, 12. janúar 2023) og
- Georgia Country Report (Bartelsmann Stiftung (BTI), 2022)
Georgía er lýðræðisríki með um 3,9 milljónir íbúa. Georgía gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1999 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu það sama ár. Georgía gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 9. ágúst 1999, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 3. ágúst 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu 8. júlí 2005. Hinn 1. júlí 2016 gekk í gildi samstarfssamningur milli Evrópusambandsins og Georgíu. Með þeim samningi hefur Georgía meðal annars skuldbundið sig til að efna víðtækar skuldbindingar á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Hinn 19. júlí 2017 setti Útlendingastofnun Georgíu á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.
Í skýrslu Freedom House fyrir árið 2022 kemur fram að lög frá árinu 2014 veiti vernd gegn mismunum meðal annars á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kyni, aldri, kynhneigð og kynvitund. Fram kemur að þeim lögum sé hins vegar fylgt misvel. Þá kemur fram í skýrslunni að í stjórnarskrá Georgíu sé kveðið á um trúfrelsi. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 sjái tvær stofnanir aðallega um löggæslu og að halda uppi allsherjarreglu í Georgíu, þ.e. innanríkisráðuneytið og öryggissveitir ríkisins. Þá hafi stjórnvöld skilvirka stjórn á innanríkisráðuneytinu, öryggissveitum ríkisins, varnarmálaráðuneytinu og þeim stofnunum sem hafi vald til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun og spillingu. Þá komi fram að spilling sé þó nokkur í georgíska stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum. Stjórnvöldum beri að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og þeir aðilar sem telji brotið á réttindum sínum geti kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi M frá því aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki hafi ástæðan fyrsta lagi verið vegna skulda hans þar í landi. Í öðru lagi hafi M flúið vegna þess að fyrrum sambýlismaður K hafi hótað henni. M kvað þau ekki hafa leitað til lögreglu. K hefði fengið nálgunarbann á manninn en það hafi ekki hjálpað. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst K geta leitað aðstoðar hjá yfirvöldum, hún gæti farið til lögreglunnar og fengið nálgunarbann að nýju gegn umræddum manni en um leið og það falli úr gildi muni hann byrja aftur að áreita hana.
Kærendur lögðu engin gögn fram um hótanir fyrrverandi sambýlismanns K, svo sem gögn um meint nálgunarbann.
Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Georgíu benda til þess að almennt geti borgarar landsins sem telji að á réttindum sínum hafi verið brotið leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í Georgíu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og umboðsmanns. Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík þó svo að úrbóta sé enn þörf að mati umboðsmanns (e. Public Defender (Ombudsman) of Georgia) og frjálsra félagasamtaka í landinu.
Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í heimaríki. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37.gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.
Er því ljóst að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda er það mat kærunefndar að aðstæður kærenda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kváðust kærendur vera andlega og líkamlega heilsuhraust. Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.
Bersýnilega tilhæfulaus umsókn
Í 1. tölul. b-liðar 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga kemur fram að í málum sem tekin séu til efnismeðferðar geti Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ákveðið að umsókn um alþjóðlega vernd sæti forgangsmeðferð, m.a. þegar umsókn er bersýnilega tilhæfulaus, svo sem þegar útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem ekki er talið að hann þurfi að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr. sömu laga.
Í 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga kemur fram að í málum þeim sem greini í b-lið 1. mgr. sé Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki sé átt við ríki þar sem einstaklingar eigi almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum. Við mat á því hvort ríki teljist öruggt upprunaríki skuli m.a. líta til þess hvort í viðkomandi ríki sé stöðugt stjórnarfyrirkomulag sem byggist á viðurkenndum meginreglum um réttarríki. Heimilt sé að líta til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á því hvaða upprunaríki teljist örugg.
Í 46. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 eru ákvæði er mæla nánar fyrir um hvað teljist bersýnilega tilhæfulaus umsókn. Fram kemur í 2. mgr. 46. gr. að komi útlendingur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki telst umsókn bersýnilega tilhæfulaus þegar hún byggir á:
- því að fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki sé ekki til staðar,
- einstaklingsbundnum líkamsárásum, hótunum, ógnunum eða deilum sem ekki geta talist kerfisbundnar,
- því að fullnægjandi aðstoð og aðgengi að heilbrigðisaðstoð í heimaríki sé ekki til staðar, enda hafi þegar verið tekið mið af heilbrigðisaðstæðum við mat á því hvort upprunaríki teljist öruggt eða
- öðrum málsástæðum sem telja má ótrúverðugar með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heimaríki.
Líkt og að framan er rakið tók Útlendingastofnun umsóknir kærenda til forgangsmeðferðar þar sem kærendur koma frá ríki sem metið hefur verið sem öruggt upprunaríki, með vísan til 1. tölul. b-liðar 1. og 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Með vísan til frásagna kærenda, að virtum gögnum mála þeirra og niðurstöðu trúverðugleikamats, var það mat Útlendingastofnunar að umsóknir kærenda teldust bersýnilega tilhæfulausar, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Kærendur byggja á því að þau hafi sætt ofsóknum í heimaríki af hálfu fyrrverandi sambýlismanns K. Kærendur lögðu engin gögn fram um meintar ofsóknir. Líkt og fram hefur komið er það mat kærunefndar að borgarar Georgíu sem telji á sínum sé brotið geti leitað sér aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í Georgíu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kærenda og aðstæðna þeirra þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður þeirra vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kærenda væru ekki þess eðlis eða næðu því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti.
Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. 1. og 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga.
Brottvísun og endurkomubann
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 21. september 2023, var kærendum brottvísað og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.
Kærendum var í viðtali hjá Útlendingastofnun leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa þeim og börnum þeirra frá Íslandi og ákvarða kærendum endurkomubann hingað til lands. Var kærendum gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærendur kváðust engin tengsl hafa við Ísland eða önnur lönd innan Shengen-svæðisins. Greindi M frá því að hann væri með fimm ára endurkomubann til Shengen-svæðisins. M kvað núverandi endurkomubann vera ósanngjarnt en að hann myndi geta farið til Póllands án vandamála. K mótmælti ekki brottvísun og endurkomubanni, hún kvaðst þekkja reglurnar og að endurkomubann væri sanngjörn ákvörðun.
Af þeim svörum sem kærendur gáfu um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kærenda eða nánustu aðstandenda þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frests sem veittur er samkvæmt 104. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 101. gr. laganna. Heimilt er þó að veita styttri frest eða fella hann niður ef umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu.
Samkvæmt gögnum málsins sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi 7. september 2023. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinum kærðu ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kærenda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa þeim úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði ekki réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana.
Eins og að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar að umsóknir kærenda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hafi verið bersýnilega tilhæfulausar og því rétt að veita þeim ekki frest til þess að yfirgefa landið sjálfviljug sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með þeim ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kærenda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kærendum úr landi, enda stendur ákvæði 102. gr. laganna ekki því í vegi.
Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga hefst endurkomubann þann dag sem útlendingur er færður úr landi eða fer af sjálfsdáðum af landi brott. Kærendur voru fluttir úr landi af lögreglu 4. desember sl. og tók endurkomubann kærenda til landsins gildi þann dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana eru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda staðfestar.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.
The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson