Fyrsta íslenska tónlistarstefnan og frumvarp til heildarlaga um tónlist kynnt í Samráðsgátt
Drög að stefnu í málefnum tónlistar og frumvarp til laga um tónlist eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og stendur samráðið til 31. ágúst nk.
Um er að ræða fyrstu heildarlöggjöf um tónlist á Íslandi.
„Þetta eru mikil tímamót, en með stefnunni og lögum um tónlist vinnum við að því að efla tónlist á landinu öllu og mörkum í fyrsta sinn heildarramma fyrir málefni tónlistar sem lengi hefur vantað. Með þessu viljum við búa tónlistinni hagstæð skilyrði til að vaxa og dafna um ókomna tíð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Frumvarpið byggir á nýrri tónlistarstefnu en grunnur að henni var lagður með skýrslu starfshóps um Tónlistarmiðstöð frá árinu 2021. Á grunni þeirrar skýrslu hefur verið unnið að frekari mótun tónlistarstefnu og samhliða hafa verkefni Tónlistarmiðstöðvar verið skilgreind og útfærð. Við mótun stefnunnar var samráð haft við helstu hagaðila innan tónlistar en einnig við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið um þætti tengda tónlistarnámi.
Mikilvægt er að almenn sátt ríki um þá stefnu sem er mörkuð í málefnum tónlistar og að stjórnvöld hafi sem besta innsýn inn í ólík sjónarmið. Með birtingu í samráðsgátt gefst tækifæri til enn breiðara samráðs og því er kallað er eftir umsögnum um innihald, áherslur og aðgerðir þær sem lagðar eru til í þessum drögum.