Hoppa yfir valmynd
15. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að afskrá ekki firmaheitið Innnes-hús ehf.

Reykjavík 15. maí 2008

Tilv.: FJR08030043/120

Efni: Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að afskrá ekki firmaheitið Innnes-hús ehf.

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru yðar, dags. 10. mars 2008, þar sem kærð er ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 11. desember 2007, um að skráning firmaheitisins Innnes-hús gangi ekki gegn betri rétti firmans Innnes ehf.  Í stjórnsýslukæru yðar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ríkisskattstjóra verði gert að afskrá Innnes-hús ehf. úr hlutafélagaskrá.

Málavextir

Málavextir eru þeir að þann 19. desember 2005 var Innnes-hús ehf., kt. 591205-0130, skráð í fyrirtækjaskrá.  Þann 15. mars 2007 barst fyrirtækjaskrá athugasemd við skráninguna frá Innnes ehf., kt. 650387-1399 og í framhaldinu felldi fyrirtækjaskrá skráninguna úr gildi með ákvörðun dags. 29. mars 2007.  Með bréfi, dags. 11. apríl 2007 var ákvörðun fyrirtækjaskrár kærð til ráðuneytisins sem vísaði málinu aftur til meðferðar hjá ríkisskattstjóra með úrskurði, dags. 18. júní 2007, þar sem ekki hafði verið gætt andmælaréttar Innnes-hús ehf.  Fyrirtækjaskrá kvað síðan að nýju upp úrskurð, dags. 11. desember 2007.  

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn fyrirtækjaskrár með bréfi, dags. 14. mars 2008 og barst hún ráðuneytinu með bréfi, dags. 28. apríl 2008.

Málsástæður og lagarök

Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að skráning Innnes-hús ehf. brjóti í bága við réttindi kæranda á grundvelli 10. gr. laga um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð nr. 24/1903 þar sem segi að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis og í firma megi ekki nefna fyrirtæki er ekki standa í sambandi við atvinnuna.  Ekki verði um það deilt að fyrsti hluti firmaheitis Innnes-hús sé heiti fyrirtækis og því hafi verið óheimilt að nota heiti kæranda í firmaheitið. 

Hvað varði þá reglu ríkisskattstjóra að reki maður atvinnu á stað sem er tengt við örnefni eða ákveðið staðarheiti þá sé ekki unnt að banna að tengja það við atvinnustarfsemi er vakin athygli á því að fullyrðingin er ekki studd neinni tilvísun til viðhlítandi réttarheimildar og fái kærandi ekki séð hvernig slík regla eigi að veita þriðja manni heimild til þess að taka upp í firma sitt nafn á þegar skráðu félagi.  Einnig er mótmælt þeirri fullyrðingu ríkisskattstjóra um að fyrirtækin starfi í sitthvoru sveitarfélaginu leiði til þess að minni líkur séu á ruglingshættu.  Vörur sem Innnes ehf. flytji inn séu seldar út um allt land og starfsemi félags sé ekki einskorðuð við sveitarfélag þar sem skráð aðsetur félags sé.  Varðandi ákvörðun Einkaleyfastofu nr. 14/2006 þá sé ljóst að það mál hafi enga þýðingu fyrir það mál sem hér sé til úrlausnar þar sem ágreiningur sé um orð en ekki myndir. 

Það að Innnes veiti ekki sérstaka hugmynd um atvinnurekstur sé dæmi um sterkt auðkenni fyrirtækis þar sem það sé ekki lýsandi fyrir neina sérstaka starfsemi. Dómur Hæstaréttar vegna firmaheitisins Fiskimjöl hafi því ekki þýðingu í máli þessu þar sem það sé dæmi um veikt auðkenni fyrirtækis.  Samkvæmt samþykktum kæranda sé tilgangur hans m.a. að reka fasteignir og fjárfestingar auk inn- og útflutnings, heildsöluverslun o.fl.  Þá telur kærandi að vart sé hægt að finna augljósara dæmi um ruglingshættu og er fyrir hendi milli Innnes og Innnes-hús hvort sem lýtur að sjónlíkingu, hljóðlíkingu eða merkingarlíkingu.

Í úrskurði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 11. desember 2007, kemur fram að þegar einkahlutafélagi er valið nafn beri fyrst og fremst að fara eftir ákvæðum laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, sbr. 6. mgr. 1. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 en jafnframt hafa hliðsjón af 12. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, sem og 4. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki.  Markmiðið með ákvæðum um firmanöfn sé að tryggja að viðskiptamaður félags fái ávallt þýðingarmiklar upplýsingar um það þ.e. að hann geti ávallt séð hvern hann er að semja við.  Einnig hafi lögverndun firmaheitis mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins á þann hátt að vernda þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firma sínu. 

Í úrskurðinum kemur einnig fram að við úrlausn á því hvað teljist nafn annars manns sem ekki megi nota án hans leyfis þá sé meginreglan sú að teljist heiti almennt þá sé ekki unnt að banna öðrum notkun heitisins svo fremi sem hann aðgreini sitt firmanafn frá því sem þegar kann að vera til skráð með þessu heiti.  En sé heitið til þess fallið að greina vörur og þjónustu fyrirtækisins frá svipaðri vöru eða þjónustu annarra þá sé um lögverndað heiti að ræða sem öðrum sé ekki heimilt að nota án leyfis skráðs rétthafa.  Í vafatilvikum um hvað teljist vera almennt heiti hafi ágreiningur verið borin undir stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.  Sé orðið uppflettiorð í orðabók Menningarsjóðs megi með nokkurri vissu telja heitið vera almennt.  Orðið innnes sé að finna í orðabók Menningarsjóðs og sé það skýrt sem "nes inni í fjörðum eða flóum".  Einnig sé það regla að reki maður atvinnu á ákveðnum stað sem tengt er við örnefni eða ákveðið staðarheiti þá sé eigi unnt að banna mönnum að tengja það heiti við atvinnustarfsemi sína svo framarlega að þeir aðgreini með einhverjum hætti sitt firmaheiti frá öðru sem kann að vera til á skrá með sama heiti.  Fyrirtækið Innnes-húss ehf. sé staðsett við Innnesveg 1 á Akranesi og sé tenging vegarins við svokallað Innnes sem sé nes í Hvalfirði innan Akraness.  Fyrirtækið hafi þannig sterka tengingu við staðarheitið.

Þá kemur fram að ruglingshætta vegna starfsemi félaganna virðist vera hverfandi þar sem aðalstarfsemi Innnes-húss er sögð vera húsbyggingar og önnur mannvirkjagerð en aðalstarfsemi Innnes er heildverslun með matvæli, drykkjarvöru og tóbak.  Fyrirtækin séu þannig í sitthvorri atvinnugreininni sem skarist ekki að neinu leyti.  Þá er vísað í úrskurðinum til ákvörðunar Einkaleyfastofu nr. 14/2006 og dóms Hæstaréttar frá árinu 1947 vegna firmaheitisins Fiskimjöl.

Í umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 28. apríl 2008 er ítrekað að úrskurður ríkisskattstjóra hafi byggst á því að heitið innnes væri almennt heiti sem gæti ekki veitt firmaeiganda Innnes ehf. lögverndaðan einkarétt til nafnsins þar sem það hefði ekki í sér fólgin nægileg sérkenni.  Einnig væru uppfyllt þau skilyrði sem fram koma í 2. mgr. 10. gr. firmalaga nr. 42/1903 að við firmaheitið væri skeytt viðauka og það þannig glögglega aðgreint frá hinu eldra firmanafni. 

Rökstuðningur og niðurstaða

Við mat á því hvort firmaheitin Innnes og Innnes-hús eru of lík vísar fyrirtækjaskrá til 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, 4. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki ásamt 12. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.  Einnig vísar fyrirtækjaskrá til 6. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.  Ráðuneytið tekur undir að líta beri til þessara ákvæða og þeirra markmiða sem ákvæði um firmanöfn eiga að tryggja.  Ákvæðin eru meðal annars sett til að veita eiganda firmaheitis vernd vegna viðskiptavildar en einnig eru ákvæðin til hagsbóta fyrir viðskiptavini þar sem mikilvægt er að augljóst sé fyrir viðskiptavin við hvaða firma viðskipti eiga sér stað. 

Varðandi mat á því hvort Innnes og Innnes-hús eru of lík nöfn verður að horfa til þess hvort nöfnin og starfsemi félaganna geti skapað ruglingshættu.  Í úrskurði fyrirtækjaskrár kemur fram útskýring á því hvað teljist vera almennt heiti sem aðrir megi nota sem firmanafn.  Í vafatilvikum sé borið undir stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hvað teljist vera almennt heiti í íslenskri tungu.  Skilgreiningaratriði þeirrar stofnunar er að ef orðið er í uppflettiorðabók Menningarsjóðs megi með nokkurri vissu telja heitið vera almennt.  Orðið innnes er að finna í orðabók Menningarsjóðs.  Tilgangur Innnes-hús ehf. er samkvæmt samþykktum félagsins bygging fasteigna til atvinnureksturs, kaup og sala fasteigna, útleiga og rekstur fasteigna, öll þjónusta og umsjón sem því fylgir, lánastarfsemi og skyldur rekstur.  Aðalstarfsemi er sögð húsbyggingar og önnur mannvirkjagerð og er Ísat flokkun félagsins

45.20.0.  Rekstur Innnes-hús ehf. snýst um eignarhald og rekstur húseignarinnar við Innnesveg 1 á Akranesi.  Tilgangur Innnes ehf. er samkvæmt samþykktum félagsins inn- og útflutningur, heildverslun, smásöluverslun, iðnrekstur, rekstur fasteigna, auglýsingagerð og auglýsingamiðlun, fjárfestingar og lánastarfsemi.  Aðalstarfsemi  fyrirtækisins er heildverslun með matvæli, drykkjarvöru og tóbak og er Ísat flokkun félagsins 51.39.0.  Á heimasíðu félagsins, www.innnes.is, kemur glögglega fram að félagið er matvöruheildverslun.   Með vísan til þess sem að orðið innnes er almennt heiti og að starfsemi félaganna skarast ekki og skapar því ekki ruglingshættu staðfestir ráðuneytið niðurstöðu fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að firmanafnið Innnes-hús brjóti ekki í bága við lögverndaðan rétt eigenda firmanafnsins Innnes.   

Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að skráning firmaheitisins Innnes-hús gangi ekki gegn betri rétti firmans Innnes ehf. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta