Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2006 Innviðaráðuneytið

Harðari viðurlög við umferðarlagabrotum í gildi á föstudag

Tvær reglugerðir er varða viðurlög og punkta í ökuferilsskrá vegna brota á umferðarlögum taka gildi föstudaginn 1. desember. Meginbreytingarnar eru annars vegar þær að sektir vegna umferðarlagabrota eru hækkaðar umtalsvert og geta orðið allt að 300 þúsund krónum og hins vegar að viðurlög við brotum á reglum um aksturs- og hvíldartíma varða nú bæði sekt og punkti eða punktum í ökuferilsskrá.

Sem dæmi um sektir vegna aksturs yfir lögleyfðum hámarkshraða má nefna að sé ekið á 46 til 50 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km skal sektin vera 15 þúsund krónur en 50 þúsund sé ekið á 71-75 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km. Skal ökumaður jafnframt sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði fyrir slíkt brot.

Sé ekið á 101 til 110 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km skal sektarfjárhæð vera 15 þúsund krónur, 60 þúsund krónur ef hraðinn er orðinn 131 til 140 km og beita skal 110 þúsund króna sekt og þriggja mánaða ökuleyfissviptingu sé ökuhraðinn orðinn 161 til 170 km þar sem hámarkshraðinn er 90 km. Dæmin eru tilfærð í töflu í viðauka I í reglugerðinni og gert ráð fyrir að málum ökumanna sem aka á allt að 170 km hraða megi ljúka með sekt.

Sé hraðinn yfir 170 km má reikna með að komi til ákæru og í framhaldi af því hugsanlega dómsmáls. Er þá gert ráð fyrir að sektarfjárhæðir verði framreiknaðar í hlutfalli við áðurgreinda töflu og því gæti sekt fyrir umtalsverðan hraðakstur numið allt að 300 þúsund krónum.

Í viðauka um brot á ákvæðum umferðarlaga sem varða punktum í ökuferilsskrá kemur fram að sé ekið gegn rauðu ljósi eru skráðir 4 punktar og auk þess beitt 15 þúsund króna sekt, tveir punktar fyrir óhlýðni ökumanns við leiðbeiningum lögreglu og við því er einnig lögð 10 þúsund króna sekt, þrír punktar ef ekið er framúr rétt áður en komið er að gangbraut eða á henni og tveir punktar ef akstur umfram aksturstíma ökumanna flutninga- eða langferðabíla er 20%. Síðastnefnda brotið varðar einnig 40 þúsund króna sekt fyrir ökumann og 60 þúsund króna sekt fyrir eiganda bíls. Eru bæði ökumaður og eigandi bíls sektaðir vegna brota á reglugerð um aksturs- og hvíldartíma. Einnig má vekja athygli á því að varðandi hleðslu ökutækja eru sektir allt frá 10 þúsund krónum og uppí 100 þúsund krónur við því að ökumaður veldur hættu eða óþægindum við akstur undir brú, í göngum, undir rafmagns- eða símalínur og þess háttar.

Reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim nr. 930/2006.

Reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota nr. 929/2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta