Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 3. nóvember 2023

Heil og sæl,

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs halda áfram að setja svip sinn á störf okkar í utanríkisþjónustunni þessa dagana. Íslensk stjórnvöld ítrekuðu ákall um tafarlaust mannúðarhlé á átökunum.

Í vikunni ákváðu stjórnvöld að tvöfalda framlag Íslands til neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna á Gaza. Ákvörðunin var tilkynnt í ávarpi fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gær. 

Yfirstandandi innrás Rússlands í Úkraínu og ástandið í Miðausturlöndum lituðu umræðuna á þingi Norðurlandaráðs sem fór fram í Osló í vikunni. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sótti þingið ásamt fleiri ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Á þinginu tók ráðherra þátt í fjölmörgum fundum og viðburðum og átti tvíhliðafundi með Elinu valtonen, utanríkisráðherra Finnlands, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar og Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. Þar að auki hitti ráðherra Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins á fundi en Stoltenberg var sérstakur gestur þingsins að þessu sinni. 

Lífið heldur áfram, líka á ófriðartímum. Utanríkisþjónustan stendur fyrir fjölmörgum viðburðum á heimsvísu til kynningar lands og þjóðar og vinnur ötullega að framkvæmd utanríkisstefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Megin tilgangur þessa föstudagspósts er einmitt að varpa ljósi á hversu víðtæk og viðamikil sú vinna er en utanríkisþjónustan stóð fyrir hvorki meira né minna en 60 menningar- viðskipta og jafnréttisviðburðum á 18 stöðum í síðasta mánuði. Þá eru ótaldir allir aðrir fundir, borgaraþjónusta og áritanamál svo fátt eitt sé nefnt. 

Um hundrað öryggis- og hermálafulltrúar ræddu kynjajafnrétti á einkar vel heppnuðum Barbershop viðburði hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í Vínarborg í vikunni. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp þar sem hann minntist á uggvænlegt bakslag í jafnréttismálum sumsstaðar í heiminum og það hversu hratt hlutirnir geti breyst til hins verra. Minnti hann á að það ætti að vera okkur skýr áminning um að halda vöku okkar í þessum málaflokki.

Fulltrúi sendiráðs Íslands í Washington sótti viðburð í utanríkisráðuneytinu í tilefni af útgáfu uppfærðrar stefnu og landsáætlunar bandarískra stjórnvalda um konur, frið og öryggi. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna flutti ávarp við tilefnið.  

Sendiráðið í Washington stóð fyrir „Happy Happy Hour“ ásamt hinum norrænu sendiráðunum í Washington DC. Viðburðurinn var haldinn fyrir starfsmenn bandaríska þingsins og nafnið dregið af því að norrænu ríkin eru öll í tíu efstu sætunum yfir hamingjusömustu þjóðir heims. Viðburðurinn, sem var fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni, hefur það að markmiði að styrkja og viðhalda tengslum norrænu sendiráðanna við starfsmenn Bandaríkjaþings.

Í Berlín býður sendiráð Íslands til opnunar á sýningunni Hliðstæðar víddir - Paralell Dimensions II. Elín Hansdóttir er ein af listamönnum sýningarinnar og segir hér frá verkum sínum. 

Hið víðfræga og undurfagra verk Ragnars Kjartanssonar "Visitors" verður líka hluti af sýningunni.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Helsinki tók þátt í lokaviðburði finnsku formennskunnar í BEAC (Barents Euro-Arctic Council). 

og sótti bókamessuna í Helsinki þar sem íslenskir rithöfundar skinu skært að vanda. 

Sendiráð og skrifstofur eru ekki einu staðirnir þar sem hægt er að ræða saman og fá góðar hugmyndir. Þetta veit starfsfólk sendiráðs Íslands í Helsinki mætavel. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn býr sig undir viðburðarríka helgi á Norðurskautshátíð sem fer fram á Norðurbryggju og í sendiráðinu.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Lilongwe heimsótti Chiradzulu District og hitti samstarfsaðila í verkefnum sem eru styrkt af sendiráðinu og hafa það að markmiði að auka þrautseigju samfélaga og koma þeim upp úr fátækt. 

Sendiráðið lýsti jafnframt stuðningi við og hrósaði mannréttindanefnd Malawi sem lagði fram skýrslu í Genf í vikunni í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW).

Sturla Sigurjónsson sendiherra í London hitti Leo Docherty Evrópumálaráðherra Bretlands. 

Í Ottawa var sagt frá fyrirbærinu Arctic Waves, tónlistarviðburði sem verður í ár hluti af Iceland Airwaves sem fer fram um þessar mundir í Reykjavík. Viðburðurinn lyftir norður kanadískum, grænlenskum og samískum tónlistarmönnum sérstaklega en það er ekki á hverjum degi sem listamenn frá þessum slóðum eiga sviðið. 

Og starfsfólk sendiráðsins í Ottawa gerði sér líka för til Nýfundnalands til að sinna ýmsum viðburðum tengdum nýsköpun og loftslagsmálum. 

Sendiráð Íslands í Osló óskaði Rán Flygenring innilega til hamingju með barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs en þau voru afhent á þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í borginni í vikunni og sagt var frá í upphafi þessa pósts.

Þá afhenti Högni S. Kristjánsson forseta Grikklands, Katerina N. Sakellaropoulou trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Grikklandi.

Sendiráð Íslands í París auglýsti viðburð með Fríðu Ísberg þar sem bók hennar "Merking" kom út á frönsku á dögunum. 

Tourism Expo var haldin á dögunum í Tókýó. Gestir voru hvattir til að heimsækja bás Íslands á sýningunni. 

Og sýning á myndinni "Icelandic Fragments" var kynnt á Facebook síðu sendiráðs Íslands í Japan. Myndin verður sýnd á Fukuoka Art Book Expo.

Fyrirlestur um bókina "Iceland and Poles" verður haldinn í sendiráði Íslands í Varsjá í Póllandi þann 7. nóvember næstkomandi. Á fyrirlestrinum gefst gestum tækifæri til að hitta höfunda bókarinnar Aleksandra Kozłowska og Mirella W Zapraszamysiewicz og heyra sögurnar um fólkið sem var óhrætt við að taka áhættu.

Lilja Hjaltadóttir, fyrrum meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Íslands tekur þátt í vinnustofunni "In the heart of Suzuki" í Varsjá í Póllandi. 

Að lokum deilum við með ykkur fallegum flutningi kórs í Úganda á þjóðsöng Íslands sem fluttur var í tilefni af degi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku.

Við kveðjum héðan af Rauðarárstígnum og óskum ykkur góðrar helgar!

Upplýsingadeild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta