Utanríkisráðherra fundar með Leona Aglukkaq ráðherra norðurskautsmála í Kanada
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í dag á móti Leona Aglukkaq, heilbrigðisráðherra og nýskipuðum ráðherra norðurskautsmála í Kanada. Aglukkaq heimsækir á næstu dögum öll ríki norðurskautsins til að kynna formennskuáætlun Kanada í Norðurskautsráðinu. Á fundi ráðherranna voru samstarf ríkjanna og áherslumál Íslands og Kanada í Norðurskautsráðinu rædd en Kanada tekur við formennsku í ráðinu af Svíþjóð á næsta ráðherrafundi sem haldinn verður í Kiruna í maí nk. Aglukkaq, sem mun stýra formennsku Kanada í Norðurskautráðinu, lagði áherslu á að ráðið sinni verkefnum sem hafa beint hagnýtt gildi fyrir íbúa norðurslóða þ.á.m sjálfbæra efnahagsþróun og auðlindanýtingu, bætt siglingaöryggi, samstarf við fyrirtæki á svæðinu auk viðskipta og menningarsamstarfs milli íbúa svæðisins.
Utanríkisráðherra lýsti þeirri skoðun sinni að sterkt svæða- og pólitískt samstarf innan Norðurskautsráðsins þar sem unnið er að hagnýtum verkefnum og samningum væri ein af meginstoðunum í norðurslóðastefnu Íslands. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að treysta hagnýta samvinnu milli norðurskautsríkjanna um viðbrögð við umhverfisvá t.d. með því að styrkja í sessi forvarnir og viðbrögð vegna sjóslysa og olíumengunar í hafi á grundvelli samninga sem unnið hefur verið að á vettvangi ráðsins. Þá nefndi utanríkisráðherra mikilvægi þess að halda áfram að þróa hagnýta samvinnu um viðskipti m.a. með stofnun Viðskiptaráðs norðurslóða. Ráðherrarnir ræddu einnig um fyrirliggjandi umsóknir um áheyrnaraðild að norðurskautsráðinu og framtíðarþróun ráðsins í alþjóðlegu samhengi.
Leona Aglukkaq, fundar í dag með Svandísi Svavarsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra og hittir fulltrúa ýmissa stofnana er vinna að norðurslóðamálum á Íslandi.