Hoppa yfir valmynd
10. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 47/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 47/2023

Miðvikudaginn 10. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 27. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. október 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 2.079.033 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. janúar 2023. Með bréfi, dag. 30. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. mars 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2022, vegna greiðslu að upphæð 2.079.033 kr. Krafan sé byggð á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra greiðslna ársins 2021 í skattframtali.

Í skattframtalinu hafi verið um að ræða hagnað sem hafi orðið til árið 2019 í kjölfar sölu á atvinnuhúsnæði í eigu kæranda. Um hafi verið að ræða 4.266.344 kr., að viðbættu 10% álagningu ríkisskattstjóra vegna tveggja ára frests á greiðslu, alls 4.692.978 kr. Greiðslu skatts hafi verið frestað af upphæðinni í tvö ár í samræmi við lög.

Til þess að hægt hafi verið að reikna út skattlagninguna hafi söluhagnaðurinn verið færður inn sem tekjur á skattframtal ársins 2021. Kærandi hafi ekki fengið peninga eða innkomu vegna þessarar sölu árið 2021 og engar tekjur hafi verið af atvinnurekstri það ár. Einungis hafi verið um að ræða skattlagningu upp á 1.914.220 kr. af sölunni árið 2019, sem hafi falið í sér tekjuskatt og útsvar, og hafi sá skattur verið greiddur að fullu árið 2022. Árið 2022 hafi kærandi því lokið við að greiða skatta af hagnaði ársins 2019. Tryggingastofnun hafi reiknað söluhagnaðinn frá 2019 sem innkomu eða tekjur fyrir árið 2021 og reiknað lífeyrisbætur kæranda út frá þeim tölum. Þessar aðstæður hafi haft veruleg og ófyrirsjáanleg áhrif á skerðingu lífeyrisgreiðslna kæranda.

Kærandi óski þess að krafa Tryggingastofnunar verði felld niður við útreikning á lífeyrisgreiðslum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar að telja tekjur af atvinnurekstri sem hafi komið fram á skattframtali kæranda vegna ársins 2021, að fjárhæð 4.692.978 kr., til tekna við endurreikning tekjutengdra greiðslna þess árs. Tryggingastofnun hafi tilkynnt ákvörðunina með bréfi, dags. 27. október 2022.

Þrátt fyrir afmörkun kæruefnis við það að tilteknar tekjur séu undanskildar við endurreikning tekjutengdra greiðslna árið 2021, þyki Tryggingastofnun ástæða til að rekja útreikninga vegna ársins 2021 og útskýra ásamt tekjuforsendum.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri í samræmi við 17. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, heimilisuppbót og uppbót vegna reksturs bifreiðar í samræmi við 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, allt árið 2021. Kærandi hafi fengið greiddar orlofs- og desemberuppbætur í samræmi við 3. gr. reglugerðar nr. 1334/2020 um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2021, sbr. heimild í 70. gr. laga um almannatryggingar og 14. gr. laga um félagslega aðstoð.

Árið 2021 hafi fullur ellilífeyrir verið 266.033 kr. á mánuði. Ellilífeyri beri að lækka um 45% af tekjum lífeyrisþega uns lífeyririnn falli niður. Frítekjumark ellilífeyrisþega hafi verið 300.000 kr. á árinu 2021 við útreikning ellilífeyris. Þá hafi hann haft 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna í samræmi við þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Full heimilisuppbót hafi verið 67.225 kr. árið 2021. Heimilisuppbót beri að lækka um 11,9% af tekjum lífeyrisþegans uns hún falli niður. Sömu reglur gildi um frítekjumörk gagnvart heimilisuppbót og gildi um ellilífeyri, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Uppbót vegna reksturs bifreiðar hafi verið 18.421 kr. á mánuði árið 2021. Uppbót vegna reksturs bifreiðar falli niður ef greiðslur lífeyris almannatrygginga falli niður, en til að uppfylla skilyrði til greiðslu uppbótarinnar þurfi einstaklingur að vera lífeyrisþegi í samræmi við skilgreiningu í 1. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Fullar orlofs- og desemberuppbætur hafi verið 100.315 kr. árið 2021. Uppbæturnar beri að lækka um 2% af tekjum lífeyrisþega uns þær falli niður, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1334/2020.

Réttindahlutfall kæranda hafi á umræddu ári og jafnframt í dag, verið 96,78%. Búsetuhlutfall kæranda sé 80,65%, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, og hlutfall vegna frestunar á töku lífeyris sé 120%, sbr. 2. mgr. 17. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 19. tölul. ákvæðis til bráðabirgða.

Kæranda hafi verið greitt á grundvelli tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun mánuðina janúar til júlí 2021. Tekjur kæranda samkvæmt þeirri tekjuáætlun hafi verið lífeyrissjóður að fjárhæð 2.562.888 kr. á ári, laun að fjárhæð 1.276.800 kr. og viðbótarlífeyrissparnaður að fjárhæð 496.320 kr. Viðbótarlífeyrissparnaður hafi ekki áhrif til skerðingar á ellilífeyri, heimilisuppbætur og eingreiðslu, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, 2. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1334/2020. Þær tekjur sem hafi haft áhrif á greiðslur kæranda til lækkunar, að teknu tilliti til frítekjumarka, hafi verið 2.339.688 kr. eða 1.052.860 kr. (87.738 kr. á mánuði) miðað við 45% skerðingarhlutfall á ellilífeyri, 278.423 kr. (23.202 kr. á mánuði) miðað við 11,9% skerðingarhlutfall á heimilisuppbót og 46.794 kr. miðað við 2% skerðingarhlutfall á eingreiðslurnar. Greiðsluréttur kæranda hafi því verið 172.554 kr. mánaðarlega í ellilífeyri ((266.044 – 87.738)×96,78%), 42.606 kr. mánaðarlega í heimilisuppbót ((67.225 – 23.202)×96,78%) og 51.798 kr. árlega í eingreiðslur ((100.315 – 46.794)×96,78%). Kærandi hafi samtals fengið greitt í ellilífeyri, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar, 1.526.839 kr.

Tryggingastofnun hafi uppfært tekjuáætlun kæranda í júlí 2021 í samræmi við innsend gögn um erlendar tekjur. Tilkynnt hafi verið um breytta tekjuáætlun með bréfi, dags. 21. júlí 2021. Við fyrri tekjuáætlun hafi bæst við erlendur lífeyrir að fjárhæð 2.930.281 kr. á ári. Þær tekjur sem hafi haft áhrif á greiðslur kæranda til lækkunar, að teknu tilliti til frítekjumarka, hafi verið 5.545.584 kr. eða 2.495.513 kr. (207.959 kr. á mánuði) miðað við 45% skerðingarhlutfall á ellilífeyri, 659.924 kr. (54.994 kr. á mánuði) miðað við 11,9% skerðingarhlutfall á heimilisuppbót og 110.912 kr. miðað við 2% skerðingarhlutfall á eingreiðslurnar. Greiðsluréttur kæranda hafi því verið 56.204 kr. mánaðarlega í ellilífeyri ((266.033 – 207.959)×96.78%) og 11.837 kr. í heimilisuppbót ((67.225 – 54.994)×96,78%). Við nýja tekjuáætlun hafi myndast krafa fyrir tímabilið janúar til júlí að fjárhæð 1.050.552 kr., eða 826.662 kr. eftir leiðrétta staðgreiðslu skatta. Sú krafa hafi beðið innheimtu til uppgjörs ársins. Kærandi hafi samtals fengið greitt í ellilífeyri, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur tímabilið júlí til og með nóvember 2021 á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar 272.164 kr.

Kærandi hafi sent inn nýja tekjuáætlun þann 13. október 2021. Sú tekjuáætlun hafi verið afgreidd þann 3. nóvember 2021. Tryggingastofnun hafi tilkynnt um breyttan greiðslurétt á grundvelli hennar með bréfi, dagsettu samdægurs. Samkvæmt þeirri tekjuáætlun hafi launatekjur kæranda verið 1.200.000 kr., lífeyrissjóður 1.700.000 kr., erlendur lífeyrir 3.205.896 kr. (23.064 USD) og lífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum 496.320 kr. Þá hafi kærandi skráð vaxtatekjur að fjárhæð 23.000 kr. Þær tekjur sem hafi haft áhrif á greiðslur kæranda til lækkunar, að teknu tilliti til frítekjumarka, hafi verið 4.628.896 kr. eða 2.083.003 kr. (175.584 kr. á mánuði) miðað við 45% skerðingarhlutfall á ellilífeyri, 550.839 kr. (45.903 kr. á mánuði) miðað við 11,9% skerðingarhlutfall á heimilisuppbót og 92.578 kr. miðað við 2% skerðingarhlutfall á eingreiðslurnar. Greiðsluréttur kæranda hafi því samkvæmt þeirri tekjuáætlun verið 89.473 kr. mánaðarlega í ellilífeyri ((266.033 – 173.584)×96,78%), 20.635 kr. í heimilisuppbót ((67.225 – 45.903)×96,78%) og 7.487 kr. ((110.315 – 92.578)×96,78%) árlega í eingreiðslur. Við nýja tekjuáætlun hafi myndast réttindi fyrir árið, samtals að fjárhæð 465.732 kr. Hluti þeirra réttinda eða 168.268 kr. hafi verið greiddar út, þ.e. fyrir tímabilið ágúst til nóvember 2021, en hluti hafi verið dreginn af upp í áður myndaða kröfu vegna sama tímabils, þ.e. tímabilsins janúar til júní 2021. Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar fyrir desembermánuð, að fjárhæð 114.600 kr.

Samkvæmt skattframtali 2022 vegna tekna ársins 2021 hafi tekjur kæranda verið laun að fjárhæð 1.200.000 kr., lífeyrissjóðsgreiðslur að fjárhæð 1.589.109 kr., erlendar tekjur að fjárhæð 2.968.396 kr., tekjur af atvinnurekstri að fjárhæð 4.692.978 kr., vaxtatekjur að fjárhæð 22.825 kr. og viðbótarlífeyrissparnaður að fjárhæð 480.000 kr. Erlendar tekjur kæranda hafi verið skilgreindar sem erlendar lífeyrisgreiðslur hjá Tryggingastofnun í samræmi við innsend gögn. Fjárhæðin 2.930.281 kr. (23.064 USD) hafi verið notuð við endurreikninginn í stað 2.968.396 kr. en mismuninn megi rekja til mismunandi gengis sem Tryggingastofnun annars vegar og Skatturinn hins vegar styðjist við. Þær tekjur sem hafi haft áhrif á greiðslur kæranda til lækkunar, að teknu tilliti til frítekjumarka, hafi verið 8.935.193 kr. eða 4.020.837 kr. (335.070 kr. á mánuði) miðað við 45% skerðingarhlutfall á ellilífeyri, 1.063.288 kr. (88.607 kr. á mánuði) miðað við 11,9% skerðingarhlutfall á heimilisuppbót og 178.704 kr. miðað við 2% skerðingarhlutfall á eingreiðslurnar. Greiðsluréttur kæranda til ellilífeyris ((266.033 – 335.070)×96,78%), heimilisuppbótar ((67.225 – 88.607)×96,78%) og eingreiðslu ((100.315 – 178.704)×96,78%) hafi því enginn verið vegna ársins 2021.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt 2.302.923 kr. árið 2021, þ.e. 2.081.871 kr. samtals í ellilífeyri, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur og einnig 221.052 kr. í uppbót vegna reksturs bifreiðar en hafi ekki átt að fá þær greiðslur miðað við tekjur samkvæmt skattframtali. Mismunurinn hafi því leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 2.079.033 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Niðurstaða endurreiknings lífeyrisgreiðslna ársins 2021 hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 27. október 2022. Í kerfi Tryggingastofnunar sé skráð að kærandi hafi hringt þann 20. desember 2022 þar sem hann hafi óskað eftir nánari útreikningi á niðurstöðu endurreiknings greiðslna ársins 2022. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir endurskoðun á niðurstöðu reiknings greiðslna ársins 2021 með bréfi, dags. 12. janúar 2023. Erindum kæranda hafi ekki verið svarað þegar Tryggingastofnun hafi borist beiðni um greinargerð í tilefni af kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Stofnunin líti svo á að málið sé komið til meðferðar á æðra stjórnsýslustigi og að erindum kæranda sé svarað í greinargerðinni.

Ágreiningur málsins lúti að því að kærandi telji að ekki eigi að telja hagnað af atvinnustarfsemi, að fjárhæð 4.692.978 kr., sem fram komi á skattframtali hans 2022, vegna tekna ársins 2021, til tekna á því ári. Fram komi í kæru að um sé að ræða hagnað sem hafi orðið til árið 2019 af sölu atvinnuhúsnæðis sem kærandi hafi átt, að viðbættu 10% álagi skattsins. Kærandi líti svo á að tekjurnar eigi að teljast til tekna á árinu 2019 þar sem söluhagnaður hafi verið greiddur út á því ári þó svo að skattlagningin hafi farið fram árið 2021. Um sé að ræða skattalega tilfærslu á milli ára. Kærandi hafi nýtt sér heimild samkvæmt lögum um tekjuskatt til að fresta skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt þriðja kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt öðrum kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. a-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2007 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á skattframtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála og hafi einnig verði staðfest fyrir dómstólum. Sérstaklega sé vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 347/2019.

Ef komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Með andmælum kæranda, dags. 12. janúar 2023, hafi fylgt afrit af úrskurði Skattsins, dags. 12. september 2022.

Ljóst þyki að hagnaður af atvinnustarfsemi sé tekjustofn sem skerði lífeyri almannatrygginga samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum tekjuskattslaga beri að telja umræddar tekjur kæranda til tekna hans á árinu 2021. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem komi fram á skattframtali greiðsluþega, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun telji hins vegar að álagsgreiðsla vegna frestaðs söluhagnaðar séu ekki tekjur í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. II. kafli laga um tekjuskatt þar sem ekki sé um að ræða gæði, arð, laun eða hagnað sem skattaðila hlotnast. Samkvæmt þeim gögnum sem liggi fyrir í málinu hafi söluhagaður kæranda verið 4.266.344 kr. Samkvæmt skattframtali vegna ársins 2021 hafi hagnaður af atvinnurekstri kæranda hins vegar verið 4.692.978 kr. Mismunurinn sé 426.634 kr. sem sé 10% af 4.266.344 kr. Við endurreikning greiðslna ársins 2021 hafi verið miðað við að hagnaður kæranda af atvinnurekstri væri 4.692.978 kr. í samræmi við upplýsingar úr skattframtali hans. Hins vegar hafi átt að miða við 4.266.344 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi við endurreikninginn. Ekki þyki þó ástæða til að endurreikna greiðslurétt kæranda að nýju þar sem lækkun á hagnaði kæranda af atvinnustarfsemi úr 4.692.978 kr. í 4.266.344 kr. myndi ekki hafa áhrif á greiðslurétt hans vegna ársins 2021.

Tekjur kæranda sem hafi átt að hafa áhrif á greiðslurétt kæranda til lækkunar á árinu 2021, að teknu tilliti til frítekjumarka, væru því 8.508.559 kr. eða 3.828.852 kr. (319.071 kr. á mánuði) miðað við 45% skerðingarhlutfall á ellilífeyri, 1.012.519 kr. (84.377 kr. á mánuði) miðað við 11,9% skerðingarhlutfall á heimilisuppbót og 170.171 kr. á ári miðað við 2% skerðingarhlutfall á eingreiðslurnar. Greiðsluréttur kæranda til ellilífeyris ((266.033 – 319.071)×96,78%), heimilisuppbótar ((67.255 – 84.377)×96,78%) og eingreiðslu ((100.315 – 170.171)×96,78%) miðað við þær tekjuforsendur, sé því enginn vegna ársins 2021.

Tryggingastofnun fallist ekki á þau sjónarmið kæranda að telja beri þær tekjur sem ágreiningur sé um til tekna hans á árinu 2019. Þær beri að telja til tekna á árinu 2021 í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga og í samræmi við skattframtal hans.

Tryggingastofnun fallist hins vegar á að ekki hafi átt að telja 10% álag vegna frestaðs söluhagnaðar til tekna hans á árinu 2021 og því hafi átt að telja til tekna hagnað af atvinnustarfsemi að fjárhæð 4.266.344 kr. í stað 4.692.978 kr. Þar sem sú breyting hafi hins vegar ekki áhrif á greiðslurétt kæranda vegna ársins 2021 þyki ekki ástæða til að endurreikna greiðslurétt hans vegna þess árs að nýju. Því séu ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun, dags. 27. október 2022.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri, heimilisuppbót og uppbót vegna reksturs bifreiðar frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021, frá 1. janúar til 31. desember 2021. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan ellilífeyri, heimilisuppbót og uppbót vegna reksturs bifreiðar árið 2021. Kæranda var greitt frá janúar til júlí 2021 á grundvelli tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun. Þar var gert ráð fyrir 2.562.888 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 1.276.800 kr. í launatekjur og 496.320 kr. í viðbótarlífeyrissparnað. Þann 21. júlí 2021 sendi Tryggingastofnun kæranda uppfærða tekjuáætlun í samræmi við innsend gögn. Þar var gert ráð fyrir sömu tekjuliðum og í fyrri áætlun en til viðbótar 2.930.281 kr., eða 23.064 USD, í erlendar lífeyristekjur. Jafnframt var kærandi upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 826.662 kr. Tryggingastofnun greiddi kæranda samkvæmt þessari áætlun frá júlí til nóvember 2021. Þann 13. október 2021 sendi kærandi Tryggingastofnun uppfærða tekjuáætlun þar sem hann gerði ráð fyrir 1.700.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 1.200.000 kr. í launatekjur, 496.320 kr. í viðbótarlífeyrissparnað og 3.205.896 kr., eða 23.064 USD, í erlendar lífeyrissjóðstekjur. Tryggingastofnun greiddi kæranda samkvæmt þessari áætlun í desember 2021. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur ársins 2021 hafa verið 1.200.000 kr. í launatekjur, 4.692.978 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 4.519.390 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 480.000 kr. í viðbótarlífeyrissparnað og 22.825 kr. í vaxtatekjur. Samtals reyndist ofgreiðsla vera 2.079.033 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. 

Ágreiningur málsins varðar þann tekjulið í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um hagnað af atvinnustarfsemi. Í andmælabréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 12. janúar 2023, vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 og kæru til úrskurðarnefndar, dags. 23. janúar 2023, gerir kærandi athugasemdir við að litið hafi verið til tekna sem kærandi aflaði á árinu 2019 við endurreikning og uppgjör ársins 2021. Fram kemur að um sé að ræða skattalega tilfærslu á milli ára þar sem skattlagningu söluhagnaðar af atvinnuhúsnæði hafi verið frestað. Með andmælabréfi kæranda fylgdi meðal annars úrskurður Skattsins, dags. 12. september 2022, í tilefni af kæru kæranda til stofnunarinnar. Í úrskurðinum kemur fram að kærandi hafi fengið heimild til að fresta skattlagningu á söluhagnaði í tvö ár til að afla eigna sem mætti fyrna samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þar sem eignanna var ekki aflað innan tilskilins tíma taldist söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum árið 2021, að viðbættu 10% álagi.

Í 14. gr. laga um tekjuskatt kemur fram að á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna færist til tekna er skattaðila heimilt að fyrna eignir sem fyrnanlegar eru samkvæmt 33. gr. sömu laga um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Samkvæmt 14. gr. laganna getur aðili þó farið fram á frestun skattlagningar um tvenn áramót í því skyni að afla eigna sem fyrna má samkvæmt 33. gr. sömu laga. Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist, að viðbættu 10% álagi.

Við mat á því hvort tekjur komi til skerðingar tekjutengdum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir eins og áður hefur komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt teljast skattskyldar tekjur hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að hagnaður af atvinnustarfsemi sé tekjustofn sem skerðir tekjutengdar bætur, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt. Úrskurðarnefndin horfir til þess að tekjur kæranda vegna hagnaðar af atvinnustarfsemi frá árinu 2019 voru færðar á skattframtal kæranda vegna tekjuársins 2021. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, enda kveður 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skýrt á um að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á kröfu kæranda um að tekjur vegna hagnaðar af atvinnustarfsemi skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021.

Úrskurðarnefndin telur aftur á móti að álagsgreiðsla vegna frestaðs söluhagnaðar séu ekki tekjur í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. II. kafla laga um tekjuskatt, enda er ekki um að ræða gæði, arð, laun eða hagnað sem skattaðila hlotnast. Líkt og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar fellst stofnunin einnig á það og telur rétt að draga álagsgreiðsluna frá fjárhæð söluhagnaðarins sem fram kom í endurreikningnum. Tryggingastofnun framkvæmdi samt sem áður ekki nýjan endurreikning og uppgjör þar sem framangreind lækkun hafði ekki áhrif á niðurstöðuna. Þrátt fyrir að tekið hefði verið tillit til hennar hefði kærandi ekki átt rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun vegna ársins 2021 vegna tekna. Telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við þá framkvæmd.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum A, á árinu 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta