Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 35/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 35/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18010008

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði nr. 514/2017, dags. 12. september 2017, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 31. júlí 2017 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn […], fd. […], ríkisborgara Sýrlands (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. september 2017. Þá óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 23. september 2017. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 30. október 2017.    

Þann 15. janúar 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku úrskurðar nr. 514/2017 hjá kærunefnd með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærunefnd ætlar að beiðnin sé grundvölluð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á áðurnefndum úrskurði kærunefndar á meðan endurupptökubeiðnin væri til meðferðar hjá kærunefnd. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um málið þann 15. janúar 2018 og bárust nefndinni upplýsingar samdægurs.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að meira en 12 mánuðir séu liðnir frá því að kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, að tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á ábyrgð hans sjálfs og því skuli mál hans tekið til efnismeðferðar af íslenskum stjórnvöldum, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Í ljósi þessarar reglu og þar sem kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 16. janúar 2017 og hefur dvalið samfellt hér á landi síðan er það mat kærunefndar að tilefni sé til þess að skoða mál kæranda aftur í ljósi breyttra aðstæðna sem uppi eru í málinu. Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Á hinn bóginn er stjórnvöldum skylt að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsóknin barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. janúar 2017. Kærunefnd telur því ljóst að meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð í máli kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum. Kærandi sótti sem áður segir um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. janúar 2017, mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 2. febrúar 2017 og var ákvörðun stofnunarinnar í málinu, dags. 31. júlí 2017, birt fyrir kæranda þann 1. ágúst 2017. Kærandi tók sér 15 daga frest til að ákvarða um kæru. Kæra barst kærunefnd þann 15. ágúst 2017 og kvað nefndin upp úrskurð sinn þann 12. september 2017. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku málsins til kærunefndar þann 15. janúar 2018.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd aflaði hjá Útlendingastofnun í tilefni af endurupptökubeiðni kæranda var flutningur kæranda af landi brott til viðtökuríkis ákveðinn þann 16. janúar 2018 og var þetta í eina skiptið sem flutningur hafi verið skipulagður. Nokkurn tíma hafi tekið fyrir Útlendingastofnun að leysa úr máli kæranda, m.a. vegna tafa við að finna út hvaða ríki bæri ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Vegna fyrirhugaðs flutnings kæranda til viðtökuríkis hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra haft samband við kæranda og tjáð honum að flutningur færi fram þann 16. janúar 2018. Kærandi hafi tjáð stoðdeild ríkislögreglustjóra að hann gæti ekki hitt deildina fyrir þá dagsetningu líkt og deildin hafi farið fram á. Í kjölfarið hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra reynst ómögulegt að hafa samband við kæranda eða hafa uppi á honum. Stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi þó loks náð sambandi við kæranda að morgni dags þann 15. janúar 2018 og óskað eftir upplýsingum um hvar hann væri niðurkominn. Kærandi hafi neitað að gefa upplýsingar um staðsetningu sína. Ljóst sé að kærandi hafi verið í felum og með athæfi sínu komið í veg fyrir að lögreglan gæti sinnt starfi sínu.

Í ljósi skoðunar á málsmeðferð í máli kæranda er það mat nefndarinnar að kærandi hafi ekki aðhafst neitt sem leiði til þess að tafir á afgreiðslu umsóknar hans teljist á ábyrgð kæranda. Er þá til þess að líta að stjórnvöld höfðu sjálf tekið ákvörðun um að flutningur á kæranda til viðtökuríkis færi fram þann 16. janúar 2018, en eins og áður segir lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd 16. janúar 2017. Þótt litið yrðu svo á að kærandi hefði neitað að veita lögregluyfirvöldum upplýsingar um staðsetningu sína í aðdraganda fyrirhugaðs flutnings hans til viðtökuríkis, telur kærunefnd ljóst að slík háttsemi hefði ekki getað haft áhrif á dagsetningu ætlaðs flutnings sem hefði farið fram að liðnum 12 mánuðum frá því kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd. Í ljósi alls framangreinds er það því niðurstaða kærunefndar að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að endurskoða beri fyrri úrskurð nefndarinnar í máli kæranda og kveða upp nýjan úrskurð á þá leið að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar frá 31. júlí 2017 úr gildi. Í ljósi þess er lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnislegrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta