Brýnt að efla sveitarstjórnarstigið með fleiri verkefnum
Á málþingi á Akureyri í dag kom fram í tillögum nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins að lögð skuli áhersla á rafræna stjórnsýslu meðal annars með því að greiða fyrir rafrænni framkvæmd íbúakosninga og hvers kyns kannana og undirskriftasafnana. Þá kom fram að mikill meirihluti sveitarstjórnarfulltrúa og alþingismanna telur þörf á að efla sveitarstjórnarstigið og að fjöldi lítilla sveitarfélaga veiki sveitarstjórnarstigið.
Málþingið á Akureyri var haldið á vegum innanríkisráðuneytisins og nefndar þess um eflingu sveitarstjórnarstigsins í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Meginefni málþingsins var annars vegar skýrsla og tillögur nefndar innanríkisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins og hins vegar greindi Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við HA, frá niðurstöðum könnunar um viðhorf sveitarstjórnarfulltrúa og alþingismanna til stöðu sveitarstjórnarstigsins, verkefna, íbúalýðræðis og fleiri atriða.
Stefán B. Sigurðsson, rektor HA, bauð málþingsgesti velkomna í upphafi og síðan flutti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarp í upphafi. Hann sagði brýnt að efla sveitarstjórnarstigið og taldi mikla samstöðu um það, spurning væri hins vegar um leiðir. Hann kvaðst trúa því að sveitarfélögin myndu eflast mjög á næstu árum.
Þá flutti ávarp Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann sagði sveitarfélögum hafa fækkað um 154 á 65 árum og því hefði verið mikið um sameiningar síðustu áratugi. Hann sagði það hafa verið stefnu sambandsins síðustu ár að efla sveitarfélög með því að þau tækju að sér fleiri verkefni en ekki unnið sérstaklega að beinum sameiningarherferðum. Hann sagði stuðning sambandsins við sameiningar skilyrtan því að þær yrðu ekki þvingaðar heldur frjálsar og sagði stefnuna því fara saman við stefnu ráðherra í þeim efnum. Einnig sagði hann íbúa sveitarfélaga vilja sjá skýran ávinning af sameiningum. Þá sagði hann viðbótarverkefni vera forsendu fyrir eflingu sveitarfélaga og þau yrðu að sýna að þau gætu axlað slíka ábyrgð. Sagði hann flutning grunnskólans og síðar málefna fatlaðra hafa sýnt það. Varpaði hann því einnig fram hvort þróunin yrði sú að taka mætti upp þriðja stjórnsýslustigið.
Áhersla á rafræna stjórnsýslu
Þorleifur Gunnlaugsson, formaður nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins, gerði grein fyrir starfi og tillögum nefndarinnar. Innanríkisráðherra skipaði nefndina í mars á síðasta ári og var hlutverkhennar að vinna að frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins. Hélt hún 14 fundi, fékk fjölmarga gesti á fundi sína og hefur staðið fyrir ráðstefnum. Þá heimsótti formaður nefndarinnar sveitarstjórnarfólk víða um land til að kynna sér viðhorf þess. Nefndin hefur sett fram 23 tillögur í nokkrum málaflokkum og vill einkum leggja áherslu á því að efla rafræna stjórnsýslu, lýðræðislega þátttöku íbúa að flytja fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga.
Þorleifur Gunnlaugsson rakti í máli sínu helstu tillögurnar. Hann sagði nauðsynlegt til að auðvelda almenningi notkun rafrænnar stjórnsýslu að rekin verði ein þjónustugátt fyrir alla rafræna þjónustu hins opinbera. Innanríkisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga ættu að hafa um það forystu og nýta island.is vefinn hjá Þjóðskrá sem vettvang. Um lýðræðislega þátttöku leggur nefndin til að ráðuneytið hafi forgöngu um gerð einna laga um kosningar í stað aðskildra laga eftir mismunandi tegundum kosninga og að í þeim lögum verði regluverk um rafrænar kosningar og rafræna kjörskrá. Ráðuneytið hafi einnig forgöngu um að greiða fyrir rafrænni framkvæmd undirskriftasafnana, skoðanakannana og íbúakosninga og eru sveitarfélög hvött til að vinna með ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að finna og prófa bestu leiðir til að auka möguleika almennings til rafrænnar þátttöku á netinu.
Þá telur nefndin að einn veigamesti þátturinn í eflingu sveitarstjórnarstigsins sé að þau taki að sér ábyrgð og framkvæmd fleiri verkefna er varði íbúa sveitarfélaganna. Leggur hún til að málefni aldraðra, heilsugæsla og heimahjúkrun verði flutt samhliða til sveitarfélaganna og sér hún fyrir sér að það geti gerst á árunum 2014 til 2015.
Vilja breyta sveitarfélagaskipan á höfuðborgarsvæðinu
Þá greindi Grétar Þór Eysteinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, frá niðurstöðum áðurnefndrar könnunar sem hann gerði fyrir innanríkisráðuneytið ásamt Sveini Arnarssyni, meistaranema við HA. Þar voru alþingismenn, sveitarstjórnarfulltrúar og framkvæmdastjórar sveitarfélaga spurðir um stöðu sveitarstjórnarstigsins, verkefni, skipan, íbúalýðræði og áhrif efnahagshrunsins. Alls var þýðið 618 manns og fór könnunin fram á liðnu hausti en hliðstæð könnun fór einnig fram árið 2006. Svarhlutfall var 54,4%.
Meðal nokkurra niðurstaðna könnunarinnar eru þessar:
- 70% telur mjög eða frekar æskilegt að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum frá ríkinu
- 72% nefna málefni aldraðra, 58% heimahjúkrun og 51% heilsugæslu
- Álíka margir eru hlynntir því og mótfallnir að ákvæði um lágmarksstærð sveitarfélaga sé í sveitarstjórnarlögum
- 67% telja æskilegt að breyta sveitarfélagaskipan á höfuðborgarsvæðinu; í fyrri könnun töldu 45% það æskilegt
- 82% þeirra sem vilja breytingu þar vilja sameina höfuðborgarsvæðið í eitt sveitarfélag
- 65% aðhyllast að kjósendur komi meira að ákvarðanatöku um mikilvæg mál með íbúakosningum
- 35% geta hugsað sér að gera niðurstöður íbúaþings bindandi fyrir sveitarstjórnir en 46% eru því mótfallnir
Grétar Þór sagði niðurstöðurnar styðja vel við þær tillögur nefndarinnar um eflingu sveitarfélaga að flytja ætti málefni aldraðra, heilsugæslu og heimahjúkrun samhliða til sveitarfélaga. Einnig sagði hann minni áhuga fyrir sameiningum en frekar áhugi á samstarfi og að efling sveitarfélaga verði helst fengin með samvinnu. Þá sagði hann greinilega gerjun í lýðræðismálum með aukinni áherslu á íbúakosningar, íbúaþing og borgarafundi og svo virtist sem hrunið ætti þátt í því. Hann sagði framtíðarmyndin þá að höfuðborgarsvæðið yrði eitt swveitarfélag með 200 þúsund íbúa en aðrir íbúar landsins byggju í 65 sveitarfélögum.
Sveitarfélög sífellt mikilvægari sem stjórnsýslustig
Sjö stjórnmálamenn víðs vegar af landinu ræddu um stöðu, horfur og áskoranir sveitarstjórnarstigsins á síðari hluta málþings
Ræðumennirnir sjö voru: Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Eva Sigurbjörnsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Árneshreppi, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar.
Sjömenningarnir ræddu meðal annars vef- og upplýsingamál, sameiningar sveitarfélaga og hversu þeim hefði fækkað undanfarna áratugi, erfiðar samgöngur, málefni aldraðra og heilbrigðisþjónusta og hvernig íbúar sveitarfélaga búa við misjöfn kjör í þessum efnum. Einnig var rætt um rafræna stjórnsýslu og mikilvægi þess að leggja aukna áherslu á hana. Tíminn væri naumur til að efla sveitarstjórnarstigið, sveitarfélög væru hæf til að veita til hagkvæma þjónustu jafnvel í samkeppni við ríkið. Mörg tækifæri væru í auknu lýðræði, fleiri verkefnum og hagkvæmni meðal sveitarfélaga.
Þá kom fram það sjónarmið að sveitarfélögin væru best hæf til að sjá um alla grunnmenntun, að viðurkenna ætti þriðja geirann, frjálsa félagastarfsemi, sem afl til framfara, samfellda endurskoðun og vöktun á öllum sviðum í rekstri sveitarfélags og nýta markvisst samfélagsmiðla í því skyni að auka lýðræðislega þátttöku. Einnig kom fram ábending um að efla bæri skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Bent var á að mikilvægt sé að tryggja að sveitarfélög geti borið ábyrgð á verkefnum sem þeim eru falin og starfi saman að umfangsmiklum verkefnum. Því var og spáð að sveitarfélögin verði sífellt mikilvægari sem stjórnsýslustig sem héldist í hendur við aukna ábyrgð og aukna tekjustofna.
Þá fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu og sátu eftirtalin í pallborðinu: Albertína F. Elíasdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Fjarðabyggð, Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Grétar Þór Eyþórsson, prófessor, Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu og Ragnheiður Hergeirsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Árborg og varaformaður nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Fram kom meðal annars að sum sveitarfélög hafa þegar þróað ýmsar hugmyndir og ábendingar sem nefndin um eflingu sveitarstjórnarstigsins setur fram, svo sem þau sem hafa tekið að sér tilraunaverkefni í félagsþjónustu. Einnig töldu sveitarstjórnarmenn að samvinna sveitarfélaga hefði aukist mjög síðustu árin og mætti til dæmis nefna ný verkefni á sviði almenningssamgangna. Þá var bent á að fram þyrfti að fara umræða um hugsanlegt þriðja stjórnsýslustig og rætt um fjármál og hvort sveitarfélög gætu ekki veitt ríkisvaldi aðhald varðandi fjármál á sama hátt og ríkið hefur sett sveitarfélögum reglur. Pallborðið taldi lýðræðismál tvímælalaust geta verið liður í eflingu sveitarfélaga.
Rauður þráður í tillögum eru lýðræði og þjónusta
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sleit síðan ráðstefnunni og þakkaði fyrir fróðlegan dag og umræðu. Hann minnti á ábendingu Karls Björnssonar um að sveitarfélög hefðu verið 229 fyrir fáum áratugum en nú 75 og að samsetning starfsmanna sveitarfélaga hefði einnig tekið breytingum. Ráðherra sagði tillögur nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins mjög góðar og þakkaði henni fyrir vönduð störf. Rauði þráðurinn í tillögunum snúi annars vegar að mannréttindum og lýðræði og hins vegar að þjónustu. Tillaga væri um að ríki og sveitarfélög kæmu á sameiginlegri rafrænni gátt og kvaðst hann vilja taka þessa tillögu til frekari könnunar í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta myndi spara fjármuni og bæta þjónustu til samræmingar. Einnig sagði hann að þriðja stjórnsýslustigið væri í raun að taka á sig mynd með til dæmis nýju skipulagi almenningssamgangna og byggðasamlögum um málefni fatlaðra. Ráðherra sagði áhugaverða tillögu um að samræma ýmis lög um kosningar og hefði hann hug á nánara samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélag í þeim efnum.
Ráðherra kvaðst ætla að leggja sitt af mörkum til að nýta það starf og tillögur sem nefndin hefði unnið og þakkaði fyrir góða umræðu á málþinginu.
Málþingið á Akureyri var haldið á vegum innanríkisráðuneytisins og nefndar þess um eflingu sveitarstjórnarstigsins í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Liðlega 100 manns sátu málþingið sem stóð frá 11 til 15.30.