Hoppa yfir valmynd
6. desember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 451/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 451/2023

Miðvikudaginn 6. desember 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. ágúst 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 2. júní 2023. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. ágúst 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með beiðni 6. september 2023 fór kærandi fram á rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 19. september 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. september 2023. Með bréfi, dags. 27. september 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. október 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. október 2023. Viðbótargagn barst frá kæranda 19. október 2023 og var það sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dag. 26. október 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi lent í vinnuslysi […] þann 19. janúar 2022 og í kjölfar slyssins hafi […]. Kærandi hafi farið á spítala þar sem hann hafi verið talinn óvinnufær. Kærandi hafi farið í ómskoðun og til sjúkraþjálfara. Hann hafi mætt í tvö eða þrjú skipti til sjúkraþjálfara en hafi mætt oftar upp á spítala og gert æfingarnar þar. Kærandi hafi farið aftur til læknis og sagt honum frá því hvað hann væri slæmur eftir sjúkraþjálfunina og æfingarnar. Læknirinn hafi tekið kæranda úr sjúkraþjálfun og sagt að af myndunum úr ómskoðuninni að dæma geri sjúkraþjálfun ekkert fyrir hann. Í byrjun júní 2022 hafi kærandi farið í uppskurð vegna brjóskloss. Á þessum tíma hafi kærandi verið á launum hjá B og í byrjun nóvember 2022 hann byrjað að fá greiðslur frá C. Þar sem að kærandi hafi átt sjóð í banka hafi hann lítið verið að velta Tryggingastofnun ríkisins fyrir sér en hann hafi sótt um örorkubætur 2. júní 2023 frá 1. nóvember 2022. Umsókninni hafi verið synjað 31. ágúst 2023 með þeim rökstuðningi að sjúkraþjálfun væri ekki fullreynd þrátt fyrir að kærandi hafi skilað vottorði frá bæklunarlækni um að sjúkraþjálfun muni ekki hafa áhrif og að hann muni ekki lagast í bakinu. Einnig komi fram í vottorðinu að það hefði ekki átt að skera kæranda við brjósklosi, heldur hefði læknirinn viljað að kærandi hefði farið í spengingu á baki. Kærandi hafi spurt Tryggingastofnun hvort þau sjái myndirnar úr ómskoðunum sem hann hafi farið í og einnig hvort hann gæti komið með vottorð með rökstuðningi frá læknum fyrir því hvers vegna þeir telji að sjúkraþjálfun muni ekki bera árangur. Kærandi hafi engin svör fengið nema að sjúkraþjálfun sé ekki fullreynd.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri, dags. 31. ágúst 2023, á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd og hafi kæranda verið vísað á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Fjallað sé um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Tiltekið sé í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Kærandi hafi þann 2. júní 2023 sótt um afturvirkar örorkubætur frá 1. nóvember 2022. Tryggingastofnun hafi í þrígang óskað eftir frekari gögnum með bréfum, dags. 6. og 28. júní og 17. ágúst 2023. Þann 28. júní 2023 hafi verið óskað eftir staðfestingu frá utanumhaldandi endurhæfingaraðila um þá endurhæfingu sem hafi verið og hvort hún sé fullreynd. Í kjölfarið hafi kærandi sent inn læknisvottorð. Þann 17. ágúst 2023 hafi Tryggingastofnun óskað eftir staðfestingu frá sjúkraþjálfara um þá endurhæfingu sem hafi verið og hvort að hún hafi verið fullreynd. Þann 18. ágúst 2023 hafi kærandi hringt til stofnunarinnar og hafi sagt að hann geti ekki skilað neinu frá sjúkraþjálfara þar sem læknirinn hafi látið kæranda hætta í sjúkraþjálfun, þar sem hún myndi ekki skila neinu. Kærandi hafi óskað eftir því að mál hans færi áfram í matsferli án umbeðins gagns. Þann 31. ágúst 2023 hafi kæranda verið synjað um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Í kjölfarið hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi 13. september 2023 sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 19. september 2023.

Við mat á örorku sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Með umsókn, dags. 2. júní 2023, hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 9. júní 2023, og svör við spurningalista, dags. 9. júní 2023.

Í greinargerð stofnunarinnar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 9. júní 2023 og því sem fram kemur í svörum kæranda í spurningalista vegna færniskerðingar.

Kærandi hafi sent inn læknisvottorð, dags. 13. júlí 2023, þar komi fram að endurhæfing hafi verið fullreynd og vísað hafi verið til fyrra læknisvottorðs.

Kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri með bréfi, dags. 31. ágúst 2023, með vísun til þess að Tryggingastofnun væri heimilt samkvæmt 25. gr. laga um almannatryggingar að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Í bréfinu hafi eftirfarandi meðal annars komið fram:

„Fram koma upplýsingar um bakvanda. Upplýst er að sjúkraþjálfun hafi ekki skilað árangri en hún muni þó aðeins hafa verið reynd í tvö skipti. Getið er um lyfjameðferð en ekki ljóst hvort önnur meðferð hefur verið reynd.

Að mati Tryggingastofnunar er meðferð/endurhæfing ekki fullreynd og telst þá ekki tímabært að taka afstöðu til örorku þinnar. Beiðni um örorkumat er því synjað.“

Í framhaldinu hafi kæranda verið bent á reglur er varði endurhæfingarlífeyri.

Í beiðni kæranda um rökstuðning, dags. 6. september 2023, hafi komið fram að síðan í janúar hafi hann beðið eftir því að komast í verkjameðferð á Reykjalundi og að hann muni fara á kynningarfund þar þann 15. september 2023. Hann vonist til þess að komast fljótlega að þar eftir þann fund.

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar, dags. 19. september 2023, hafi verið vísað til þess að það væri hlutverk stofnunarinnar að meta örorku þeirra sem sæki um það. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi.

Ítrekað sé að Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem kærandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Í kæru komi fram að kærandi hafi farið í tvö eða þrjú skipti til sjúkraþjálfara en síðan hafi læknir tekið hann úr sjúkraþjálfun vegna verkja. Í læknisvottorði sé getið um lyfjameðferð en ekki sé ljóst hvort önnur meðferð hafi verið reynd. Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin telji meðferð/endurhæfingu ekki vera fullreynda og því teljist ekki tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda. Í beiðni kæranda um rökstuðning komi fram að kærandi sé að bíða eftir því að komast í verkjameðferð á Reykjalundi og hafi verið að bíða eftir því að komast að þar síðan í janúar. Þann 15. september 2023 hafi kærandi átt að fara þangað á kynningarfund og að hann vonist til þess að komast fljótlega að þar.

Tryggingastofnun bendi á að í 1. gr. reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999 segi að þeir sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eigi rétt á örorkulífeyri. Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir örorkumati að svo stöddu, þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda til þess að auka vinnuhæfni. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við gögn málsins að hafna örorkumati í tilviki kæranda að svo stöddu, sér í lagi þar sem samkvæmt upplýsingum frá kæranda vonist hann til að komast að í meðferð vegna slyssins. Þá megi álíta að kærandi hafi ekki gengist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en sótt hafi verið um örorkulífeyri.

Bent sé á að endurhæfingarúrræði geti heimilað greiðslu endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun, til dæmis vegna meðferðar/þjálfunar/hæfingar á vegum heilbrigðiskerfisins. Í því sambandi skuli þó áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Að öllu framangreindu sé niðurstaða mats Tryggingastofnunar sú að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum sé í þessum skilningi átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að hafna umsókn hans um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum. Ásamt fyrri sambærilegum fordæmum fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hafi verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu ákvörðunar frá 31. ágúst 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.

V.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. ágúst 2023 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð D, dags. 9. júní 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Bakverkur

Contusion of lower back and pelvis

Lumbar and other intervertebral disc disorders with radiculopathy + (G55.1*)

Nerve root and plexus compressions in intervertebral disc disorders (M50-M51+)

Cervicalgia“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Fínt fyrra heilsufar. Var ekki með neina sjúkdóma og tók engin lyf að staðaldri áður en hann lendir í þessu slysi. Ekki með ofnæmi. Reykir ekki. Farið í brjósklosaðgerð á baki fyrir ca. X árum. L5/S1 microdiskectomia.“

Um sjúkrasögu segir í vottorðinu:

„Var […] og hann dettur aftur á bak og fettist með bakið […]. Fór í brjósklosaðgerð í júní í fyrra. Enginn bati eftir þá aðgerð. Hefur átt við bakverk að stríða frá því þetta gerist og með verki sem leiða niður í vinstri ganglim. Getur nú ekki gengið eðlilega, á erfitt með að liggja, getur ekki legið á baki, erfitt með að sitja. Öll hreyfing er erfið, kvöl að vaska upp heima.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Blþr. 126/71. Púls 97. Haltrar inn á stofu, verkjar við gang. Verkjar við að leggjast á bekk og getur það með herkjum. Er með mikla bakverki. Þreyfiaumur yfir L3-S1. Ör í miðlínu á baki yfir L5. Getur ekki lyft upp fæti frá bekk vegna verkja vi. megin. Kemst upp í 45° hægra megin, stoppar vegna verkja í baki, ekki aukinn leiðniverkur. Femoral stretch test negatívt. Babinski sign saknas. Kraftminnkun við að ganga á tám og hælum, meira við að ganga á tám. Patellar reflex symmetrískur, fæ ekki fram achilles reflex.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 20. janúar 2022 og að ekki megi búast við að færni aukist. Í athugasemdum segir meðal annars:

„Hefur farið í aðgerð á baki, microdiskectomíu þann 3.6. 2022. Ekki orðið góður eftir aðgerð. Hefur farið í sjúkraþjálfun en varð bara verri af verkjum eftir þjálfun Tekur núna bara gabapentin vegna verkja.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð E, dags. 13. júlí 2023, þar segir:

„Hér með vottast að endurhæfing hefur verið fullreynd hjá A.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi að hann sé meiddur í baki og sé óvinnufær. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja. Kærandi greinir frá því að hann hafi farið á kvíðalyf eftir slysið en noti þau ekki lengur.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af líkamlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur ekki verið í starfsendurhæfingu. Í fyrrgreindu læknisvottorði D, dags. 9. júní 2023, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og ekki megi búast við að færni aukist.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu læknisvottorði D, dags. 6. júní 2023, að sjúkraþjálfun sé ekki talin heppileg fyrir kæranda en ekki verður dregin sú ályktun af þeim upplýsingum sem fram koma í vottorðinu að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður ekki ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni og samkvæmt gögnum málsins er kærandi að bíða eftir að komast að hjá Reykjalundi í verkjameðferð. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. ágúst 2023, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta