Annað Heimsmarkmiðið til umræðu á stjórnarfundi UNICEF
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur stýrt mörgum næringarverkefnum fyrir börn víðs vegar um heiminn en á nýafstöðnum stjórnarfundi stofnunarinnar í New York var kynnt mat á þeim verkefnum. Að sögn Hildigunnar Engilbertsdóttur fulltrúa utanríkisráðuneytisins á fundinum kom þar fram að þrátt fyrir að fjármögnun UNICEF á næringarverkefnum hafi meira en tvöfaldast undanfarin áratug hefur stofnunin einungis nýlega byrjað að leggja áherslu á verkefni sem takast á við langvarandi næringarvanda barna.
„Þau verkefni þurfa að taka heildstætt á þeim þáttum sem leiða til vaxtarhömlunar hjá börnum. Aðgangur að næringarríkri fæðu er lykilatriði, en aðrir þættir eins og aðgengi að hreinu vatni og bættri salernisaðstöðu, bólusetningar og aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu hafa einnig mikil áhrif,“ segir hún.
Hildigunnur nefnir að þrátt fyrir að hlutfall barna sem búi við alvarlegan næringarskort hafi lækkað umtalsvert undanfarin ár séu enn um 156 milljónir barna yngri en fimm ára sem ekki nái fullum þroska vegna þess að þau fá ekki nóg af næringarríkum mat. Afleiðingin sé vaxtarhömun. „Slík langvarandi vannæring hjá börnum hefur afar neikvæð áhrif á heilsu og þroska barna sem hefur svo síðar áhrif á framleiðni og þjóðartekjur landa,“ segir Hildigunnur.
Á stjórnarfundinum var einnig samþykkt landaáætlun UNICEF fyrir Malaví en þar búa um 42% barna yngri en fimm ára við mikla vaxtarhömlun. Malaví er annað tveggja samstarfslanda Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og þar í landi hafa íslensk stjórnvöld veitt fé í verkefni eins og öflun hreins vatns, byggingu heilsugæslustöðva, og heimaræktaðar skólamáltíðir fyrir börn. Allt eru þetta þættir sem taldir eru líklegir til að hafa jákvæð áhrif á næringarstöðu og þroska barna.