Hoppa yfir valmynd
20. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

Þingsályktunartillaga um fullgildingu Norður-Íshafssamningsins

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær tillögu utanríkisráðherra um að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

Með samningnum skuldbinda samningsaðilar sig til þess að hefja ekki atvinnuveiðar á þeim hluta Norður-Íshafsins sem telst vera úthaf. Fram til þessa hafa veiðar á þessu hafsvæði verið útilokaðar en sökum loftlagsbreytinga kunna möguleikar á úthafsveiðum á þessu hafsvæði að opnast á næstu árum.  Til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum skuldbinda samningsaðilar sig til þess að hefja ekki slíkar veiðar fyrr en tryggt er að slíkar veiðar megi stunda á grundvelli fiskveiðistjórnunar sem byggi á vísindalegu mati á veiðiþoli viðkomandi fiskistofna og áhrifum slíkra veiða á viðkvæm vistkerfi á þessum slóðum. 

„Þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar er í góðu samræmi við áherslur stjórnarsáttmálans á umhverfisvernd og sjálfbærni á norðurslóðum, og fyllilega í takt við fyrirhugaðar formennskuáherslur okkar í Norðurskautsráðinu. Ég vænti þess að þetta mikilvæga málefni fái góðar viðtökur á Alþingi enda ber okkur skylda að sýna bæði ábyrgð og framsýni vegna þeirra breytinga sem eru fyrirsjáanlegar á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra .

Samningurinn var undirritaður hinn 3. október 2018 í Ilulissat á Grænlandi. Auk Íslands var samningurinn undirritaður af Bandaríkjunum, Danmörku f.h. Grænlands, Japan, Kanada, Kína, Noregi, Rússlandi og Suður-Kóreu auk ESB.

Tillagan liggur nú fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna. Samþykkir þeir tillöguna verður hún lögð fyrir Alþingi sem stjórnartillaga.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 14 Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta