Hoppa yfir valmynd
27. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 27. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 8/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 3. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 23. desember 2013, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. júlí 2013. Kærandi sótti um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu barns með læknisvottorði, dags. 16. desember 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. desember 2013, þar sem ekki hafi verið ráðið af læknisvottorðinu að veikindi móður mætti rekja til fæðingarinnar sjálfrar og hún hafi af þeim völdum verið ófær að annast um barn sitt. Kærandi lagði aftur fram sama læknisvottorð ásamt frekari læknisfræðilegum gögnum en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. febrúar 2014, var kærandi upplýst um að innsendar upplýsingar breyttu ekki fyrri ákvörðun sjóðsins. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð, dags. 26. febrúar 2014, og með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. mars 2014, var kærandi upplýst um að vottorðið breytti ekki fyrri ákvörðun sjóðsins.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála með bréfi, dags. 3. mars 2014. Með bréfi, dags. 7. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 27. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa farið í keisaraskurð en eftir hann hafi borið á óþægindum og vanlíðan hjá henni. Við nánari athugun hafi komið í ljós að blóð hafi komist í mænugöng hennar og því hafi hún þurft að gangast undir svonefnda blóðbót. Hún hafi þurft fulla umönnun fyrstu tvo mánuðina eftir að hún hafi komið heim af fæðingardeild. Vanlíðanin hafi lýst sér einkum í áköfum höfuðverk við að standa á fætur eða sitja upprétt. Hún hafi átt erfitt með að framkvæma einföldustu athafnir og hafi verið algerlega ófær um að sinna hinu nýfædda barni sem og eldri börnum sínum án mikillar aðstoðar. Eftir að fæðingarorlofi eiginmanns og barnsföður hafi lokið hafi hún þurft að fá utanaðkomandi aðstoð til þess að sinna ungabarninu auk annarra starfa. Eftirköst fæðingarinnar hafi orðið til þess að hún hafi þurft á lengra leyfi að halda en einföldu fæðingarorlofi og því hafi verið sótt um lengingu.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vegna málsins er vísað til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 6. gr. laga nr. 136/2011 og 13. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks þar sem fram kemur að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í 5. mgr. 17. gr. laganna komi fram að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis og að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Í málinu hafi verið óskað umsagnar D sérfræðilæknis og liggi fyrir skrifleg umsögn hans, dags. 25. mars 2014. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Í athugasemdum við 6. gr. laga nr. 136/2011, sem breytt hafi 3. mgr. 17. gr. ffl., komi síðan fram að lagt sé til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði skýrt kveðið á um að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008.

Í samræmi við framangreint hafi það verið skilningur Fæðingarorlofssjóðs að einungis sé átt við þau veikindi móður sem hægt sé að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunni að koma upp síðar og ekki sé hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar svo og veikindi móður sem komi upp á meðgöngu en ekki í fæðingunni sjálfri, jafnvel þó þau haldi áfram eftir fæðingu, falli þá utan umrædds ákvæðis. Jafnframt þurfi veikindin síðan að valda því að móðir sé ófær um að annast um barn sitt í fæðingarorlofinu eigi að geta komið til framlengingar fæðingarorlofs. Hafi þetta verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, til dæmis í málum nr. 43/2009, 10/2010 og 33/2010.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til læknisvottorða, dags. 16. desember 2013 og 26. febrúar 2014, og umsögn D sérfræðilæknis, dags. 25. mars 2014. Það sé mat sjóðsins að mögulegir fylgikvillar mænudeyfingarinnar og síðar spennuhöfuðverks geti ekki talist alvarleg veikindi í tengslum við fæðingu barns í skilningi 3. mgr. 17. gr. ffl. Kærandi hafi fengið blóðbót tveimur dögum eftir fæðingu og hafi síðan verið útskrifuð til síns heima fjórum dögum eftir fæðinguna. Hún hafi fengið þau skilaboð að stundum þurfi að endurtaka meðferðina sem öllu jafna lagi höfuðverk í ca 90% tilfella í fyrstu tilraun. Kærandi hafi aftur á móti ekki leitað til læknis aftur fyrr en þremur mánuðum eftir fæðinguna og verði að telja ákaflega ólíklegt að það hefði hún ekki gert fyrr ef hún hafi verið eins illa haldin af höfuðverk og hún sjálf lýsi. Ekki verði annað séð af gögnum málsins en að ítarleg skoðun á kæranda þremur mánuðum eftir fæðinguna hafi komið vel út og að niðurstaða tveggja sérfræðinga sé sú að líklegast hafi verið um spennuhöfuðverk að ræða.

Af gögnum málsins verði heldur ekki ráðið að kærandi hafi verið ófær í sínu fæðingarorlofi að annast um barn sitt vegna veikindanna. Kærandi virðist ekki hafa leitað til læknis fyrr en þremur mánuðum eftir fæðingu barnsins en hafi hún verið ófær að annast um barn sitt á þeim tíma vegna veikindanna verði að telja líklegt að hún hefði leitað til læknis fyrr. Það sé því ekkert sem styðji orð kæranda og maka hennar hvað þennan þátt varði. Að mati Fæðingarorlofssjóðs uppfylli kærandi því hvorugt þeirra skilyrða sem áskilin séu skv. 3. mgr. 17. gr. ffl. svo heimilt sé að veita henni framlengingu á fæðingarorlofi. Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf, dags. 23. desember 2013, 3. febrúar og 3. mars 2014.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) kemur fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Þá kemur einnig fram að styðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði 17. gr. með vottorði læknis en það sé lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Enn fremur segir að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Með 6. gr. laga nr. 136/2011 var ákvæði 17. gr. ffl. breytt og kveðið á með skýrari hætti að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi eignaðist barn með keisaraskurði Y júlí 2013. Í læknisvottorði B, dags. Y. júlí 2013, kemur meðal annars fram að kærandi hafi fengið spinaldeyfingu en eftir keisarann hafi hún verið með klassísk einkenni um höfuðverk vegna mænuvökvaleka. Verkir hafi ekki skánað neitt og því hafi verið ákveðið í samráði við kæranda að reyna blóðbót. Hún hafi fengið þær upplýsingar að í um 90% tilfella lagist höfuðverkurinn við blóðbót en stundum þurfi að endurtaka meðferðina. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi aftur til B læknis þann 10. október 2013 vegna verkja og óþæginda. Í læknisvottorði B segir meðal annars: „Strax eftir keisaraskurðinn fékk hún stöðuháðan höfuðverk, þannig að lögð var blóðbót þ. Y.7. af undirrituðum. Tók verkinn burt í byrjun en síðan kom hann aftur og stóð greinilega í einhvern tíma en mikið hægari. Nú eru liðnir næstum þrír mánuðir og er A með verki í hálsi sem leiða svol. upp í hnakka og eins er hún með út í vinstri hendina stundum eins og nálardofa. Eins eru óþægindi frá baki með samsvarandi einkennum aðeins niður í rass og læri. Skv. sögukerfinu virðist hún hafa verið með grindarlos á meðgöngu. Það er mjög ósennilegt, að enn geti verið til staðar einhver mænuvökvaleki, langsennilegast eru þetta afleiðingar af langvarandi höfuðverk, tengdum honum í byrjun. Eftir situr síðan chronisk einkenni vegna vöðvaspennu.“ Í læknisvottorði E, dags. 26. febrúar 2014, er heiti sjúkdóms kæranda tilgreint sem „Spinal and epidural anaesthesia-induced headache during labour and delivery“. Í lýsingu læknisins á sjúkdómi kæranda kemur meðal annars fram að hún hafi verið mjög slæm eftir að hún hafi útskrifast af fæðingardeildinni. Hún hafi þurft hjálp við klósettferðir og hafi átt erfitt með að standa upp og matast. Hjónin segi að um 8 vikur hafi verið að ræða. Kærandi sé enn með óþægindi sem lýsi sér með höfuðverk og óþægindum í hálsi og höfði. Hún sé þó orðin þannig að hún klári að gera allt sem hún þurfi að gera.

Til þess að veikindi veiti heimild til framlengingar fæðingarorlofs þurfa þau tvímælalaust að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í 3. mgr. 17. gr. ffl. Óumdeilt er að kærandi fékk slæman höfuðverk vegna mænuvökvaleka í kjölfar keisaraskurðar og fékk blóðbót tveimur dögum síðar. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 10. október 2013, er það mat læknis að langsennilegast sé að veikindi kæranda séu afleiðingar af langvarandi höfuðverk tengdum mænuvökvaleka í byrjun en eftir sitji krónísk einkenni vegna vöðvaspennu. Úrskurðarnefndin bendir á að jafnvel þótt veikindi kæranda í upphafi séu talin hafa verið í tengslum við fæðingu gerir ákvæði 3. mgr. 17. gr. ffl. skilyrði um að móðir hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Líkt og að framan greinir skal þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði 17. gr. ffl. studd með vottorði læknis. Af framlögðum læknisvottorðum verður ekki ráðið að það hafi verið mat sérfræðilæknis að kærandi hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna. Þar sem ekki liggur fyrir slíkt mat sérfræðilæknis verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 17. gr. ffl. um rétt til lengingar fæðingarorlofs í tilviki kæranda. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. desember 2013, um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta