Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 99/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 8. apríl 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 99/2013.

                                                                                                               

1.      Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 4. júní 2013 fjallað um greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar til 30. apríl 2013 að fjárhæð samtals 710.247 kr. með inniföldu 15% álagi sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 16. júní 2013. Kærandi óskar þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. nóvember 2012.

Kæranda var sent bréf frá Vinnumálastofnun 15. maí 2013 þess efnis að við samkeyrslu atvinnuleysisskrár við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám á vorönn 2013 jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur. Slíkt gengi í berhögg við 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu var tekið fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta og það kynni að leiða til þess að hann myndi missa rétt sinn til þeirra. Kæranda var bent á að hafa samband við ráðgjafa á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og jafnframt að skila inn staðfestingu á einingafjölda frá viðkomandi skóla. Í skýringabréfi kæranda, dags. 22. maí 2013, kom fram að honum hafi yfirsést að hann þyrfti að gera námssamning við Vinnumálastofnun. Ákvörðun hans um að bæta við sig réttindum til skipstjórnar á flutningaskipum hafi verið tekin í hasti eftir áramót eftir að hann hafi verið orðinn vonlítill um að fá vinnu hérlendis á fiskiskipum. Hafi hann þó sótt um vinnu sem skipstjóri, háseti og allt þar á milli, enda með langa og mikla reynslu og þekkingu á öllu sem viðkomi vinnu og stjórnun á togskipum. Hafi honum þótt nauðsynlegt að bæta við sig fyrrgreindum réttindum með 2ja ára námi utanskóla í Fjöltækniskólanum, skipstjórnardeild, svo að hann yrði gjaldgengur á vinnumarkaði í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Kærandi bendir á að þrátt fyrir námið hafi hann eigi að síður verið virkur í atvinnuleit.

Kærandi kveðst í kæru hafa farið á kynningarfund hjá Vinnumálastofnun 13. desember 2012, en hann muni fátt af því sem þar hafi verið sagt enda hafi honum liðið illa að sitja þar sem bótaþegi eftir að hafa verið yfirmaður á togskipum hálfa ævina. Hefði hann munað fyrirvara Vinnumálastofnunar vegna náms bótaþega hefði honum verið í lófa lagið að fækka námseiningum sínum umrædda vorönn niður í átta einingar.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 16. júní 2013, og er rökstuðningurinn dagsettur 19. júní 2013.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. nóvember 2013, er vísað til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar varðandi skilgreiningu á hugtakinu námi. Fram kemur að mál þetta lúti að 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi lagt stund á nám við skipstjórnardeild í Fjöltækniskólanum. Þar sem ekki sé um háskólanám að ræða, sé ótækt að beita undanþáguákvæðum 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda eigi ákvæðin einungis við um háskólanám. Eftir standi þá 1. mgr. 52. gr. laganna. Í greininni segi að námsmaður teljist ekki tryggður á sama tímabili nema námið sé hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki sé heimild til að gera námssamninga við atvinnuleitendur. Þar segi m.a. að með námssamningum skuldbindi atvinnuleitandinn sig til að stunda að fullu starfstengt nám sem hann hafi valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt og því hafi ekki verið tekin ákvörðun um námssamning við kæranda áður en hann hóf nám við skólann. Kærandi hafi fyrst haft samband við Vinnumálastofnun vegna náms í kjölfar eftirlitsaðgerða stofnunarinnar. Skilyrði framangreinds ákvæðis 1. mgr. 52. gr. og 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 hafi því ekki verið uppfyllt þegar kærandi hafi hafið nám í skipstjórnardeild. Þá sé það ávallt skilyrði fyrir gerð námssamnings skv. 5. gr. reglugerðarinnar að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Samkvæmt upplýsingum frá lánasjóðnum sé skipstjórnarnám lánshæft hjá sjóðnum. Ekki liggi fyrir hvort kærandi hafi sótt um námslán hjá LÍN. Þar sem kærandi hafi ekki upplýst um nám sitt og þar sem hann uppfylli ekki skilyrði fyrir gerð námssamnings á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 telji Vinnumálastofnun að meginregla 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Kærandi teljist því ekki vera tryggður á sama tímabili og hann stundi nám.

Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á meðan hann stundaði nám skv. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggignar hafi greiðslur til hans verið stöðvaðar. Þá beri honum í samræmi vð 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil þegar hann uppfyllti ekki skilyrði laganna að fjárhæð 710.247 kr. með inniföldu 15% álagi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. nóvember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 29. nóvember 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.      Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann var skráður í 16 ECTS-eininga nám í Fjöltækniskólanum á vorönn 2013. Þar sem ekki er um háskólanám að ræða verður ekki beitt undanþáguákvæðum 2. og 3. mgr. laga um atvinnuleysistryggingar enda eiga þau ákvæði einungis við um háskólanám. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að námsmaður telst ekki tryggður á sama tímabili nema námið sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að gera slíkan samning er að atvinnuleitandi óski eftir því að samningur verði gerður við sig í upphafi annar og að hann uppfylli sett skilyrði. Meðal skilyrða þess að gera námssamning við atvinnuleitanda er að námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Nám í Fjöltækniskólanum er lánshæft.

Kærandi upplýsti Vinnumálastofnun ekki um nám sitt fyrr en í kjölfar eftirlitsaðgerða Vinnumálastofnunar og hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir gerð námssamnings samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Kærandi telst því ekki samkvæmt 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar tryggður á sama tíma og hann stundaði nám sitt.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Staðfest er sú ákvörðun að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 710.247 kr. með inniföldu 15% álagi.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. júní 2013 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 617.606 kr. auk 15% álags eða samtals 710.247 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

             

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta