Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 100/2013

Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 8. apríl 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 100/2013.

 

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 25. ágúst 2013 fjallað um greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað samkv. c-lið 3. gr. og 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þar sem hann var í námi og var skráður í nám á næstu önn. Kærandi krefst þess aðallega að réttur hans sem launamanns og launasaga verði virt og hann fái atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi. Til vara krefst kærandi þess að Vinnumálastofnun viðurkenni að hann hafi ekki verið námsmaður skólaárið 2013 – 2014, burtséð frá útskrift úr fjarnámi 11. október 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 19. júní 2013.

Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi, á vorönn 2013, 18 ECTS eininga fjarnámi í Háskólanum á B. Í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur 19. júní 2013 tekur hann fram að hann sé skráður í 12 ECTS einingar á haustmisseri og stefni á að skila ritgerð í september og útskrifast í október.

Kæranda var sent bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 29. júlí 2013, þar sem honum var bent á að hafa samband við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun til þess að athuga hvort hann uppfyllti skilyrði um gerð námssamnings við stofnunina. Með öðru bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, einnig dags. 29. júlí 2013, var honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi uppsögn hans hjá C. Samkvæmt vottorði C sagði kærandi upp hjá félaginu 15. maí 2013. Við starfslok átti hann ótekið orlof í 23 daga.

Athugasemdir bárust frá kæranda, skólavottorð og skýringar hans á starfslokum og stöðu náms hans við Háskólann á B. Í vottorði, dags. 3. júlí 2013, kemur fram að kærandi hafi lokið 18 ECTS einingum á vormisseri 2013. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda var hann skráður í 12 ECTS eininga nám á haustönn 2013, í því skyni að ljúka meistaranámi og stóð til að hann lyki ritgerð í september 2013.

Í hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. ágúst 2013 kemur fram að samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist hver sá sem hafi verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggist halda náminu áfram á næstu námsönn ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námsskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildi um námsmenn sem skipti um skóla milli námsanna eða fari á milli skólastiga.

Kærandi óskaði rökstuðnings á hinni kærðu ákvörðun og er rökstuðningurinn dagsettur 16. september 2013.

Í kæru kæranda kemur fram að að hann hafi ákveðið fyrir þremur árum að hefja fjarnám við Hólaskóla. Hann hafi haldið áfram að vinna í 100% dagvinnu og lært á kvöldin og um helgar. Engin mætingaskylda sé í fjarnámi í Hólaskóla. Námið hafi engin áhrif haft á vinnuna. Kærandi kveðst hafa unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta og uppfylli skilyrði þess að fá greiddar bætur. Hann hafi alltaf litið á sig sem launamann í fjarnámi og geti hvergi séð í lögunum að fjarnám ýti til hliðar réttindum hans sem launamanns og því finnist honum Vinnumálastofnun túlka lögin ranglega og of þröngt. Vinnumálastofnun beiti því ranglega fyrir sér að hann sé námsmaður á milli anna, þegar hann sé í raun launamaður í leit að 100% dagvinnu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. nóvember 2013, er vísað til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar varðandi skilgreiningu á hugtakinu námi. Enn fremur er vísað í 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að af tilvitnuðum ákvæðum sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Þá sé í 6. mgr. 14. gr. laganna skýrt tekið fram að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum í námsleyfum. Ákvæðið sé ekki bundið við frekari skilyrði en að viðkomandi einstaklingur stundi nám í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Í máli þessu þurfi að kanna hvort nám kæranda uppfylli skilyrði 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hafi hann ekki lokið námi sínu við Háskólann á B og hann var skráður í áframhaldandi nám á næstu námsönn. Hann hafði verið skráður í 18 eininga nám á vorönn 2013 og í áframhaldandi nám á haustönn með brautskráningu í október 2013.

 Samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist námsmaður ekki tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið skráður í skóla á einni námsönn og sé jafnframt skráður í nám á næstu námsönn á eftir. Það fag sem kærandi hafi átt eftir að ljúka þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur sé liður í því að ljúka meistaranámi hans. Telji Vinnumálastofnun engan vafa leika á því að kærandi teljist námsmaður í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda sé um nám á háskólastigi að ræða.

Samkvæmt skýru orðalagi 6. mgr. 14. gr. laganna teljist kærandi því ekki tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem námsleyfi hans varir. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. desember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. desember 2013. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda, dags. 18. desember 2013.

 

2. Niðurstaða

 Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 19. júní 2013 var hann í námi samkvæmt skilgreiningu c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segir:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

 Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir síðan að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Í 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur eftirfarandi fram:

,,Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.“

Í athugasemdum við 5. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 134/2009 og er nú 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur var hann á milli anna í námi sínu í Bsamkvæmt skilgreiningu 6. mgr. 14. gr. laganna. Hann taldist því ekki tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. ágúst 2013 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

                         

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta