Nr. 187/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 22. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 187/2024
í stjórnsýslumálum nr. KNU24010073 og KNU24010074
Kæra [...] og [...]
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 21. janúar 2024 kærðu [...], fd. [...] (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), ríkisborgarar Indlands, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2024, um að synja þeim um vegabréfsáritanir til Íslands.
Af kæru má ráða að kærendur krefjist þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veittar vegabréfsáritanir til Íslands.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust kærur þeirra fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsóknum, dags. 10. janúar 2024, óskuðu kærendur eftir vegabréfsáritunum til Íslands og Schengen-svæðisins fyrir 13 daga dvöl, frá 19. til 31. mars 2024. Umsóknum kærenda var synjað með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2024. Hinn 21. janúar 2024 bárust kærunefnd kærur frá kærendum ásamt fylgigögnum.
III. Málsástæður og rök kærenda
Í kæru sinni vísa kærendur til fyrirliggjandi ákvarðana og synjunarástæðna Útlendingastofnunar. Kærendur hafi aldrei áður sótt um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðið og því leitað aðstoðar ferðaskrifstofu. Þau hafi síðar komist að því að ferðaáætlun þeirra innihéldi árekstra og gengi ekki upp og vilji þau leiðrétta þann misskilning á kærustigi með framlagningu nýrrar ferðaáætlunar og nýrra fylgigagna. Hin nýja ferðaáætlun sé skýrari og gefi réttari mynd af tilgangi ferðar kærenda sem sé að ferðast um Ísland og fagna afmæli B. Kærendur lögðu einnig fram bréf, dags. 21. janúar 2024, þar sem fram kemur að þau vilji upplifa náttúrufegurð og annað sem Ísland hafi upp á að bjóða. Ferð þeirra hafi verið vandlega undirbúin, þau eigi sterk tengsl við heimaríki, og hafi fjárhagslega burði til þess að standa straum af kostnaði við ferðina. Í því samhengi vísa kærendur m.a. til atvinnu þeirra, og innstæðu á bankareikningum.
Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru ný ferðaáætlun og fylgigögn á borð við hótelbókanir, bókun á bílaleigubíl, og yfirlit yfir flugferðir.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.
Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.
Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í tilteknum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem tilgreind eru í ákvæðinu er ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.
Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðunum í málum kærenda er merkt í reiti 10 og 11 vegna synjunar á umsóknum þeirra, þ.e. að upplýsingar um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar væru óáreiðanlegar, auk þess að rökstudd ástæða væri til að draga í efa að yfirlýsingar varðandi ferðaáætlun og ætlun kærenda að ferðast til Íslands væru áreiðanlegar. Ákvörðununum fylgdu viðbótarupplýsingar þar sem fram kom að ekki hafi tekist að sannreyna flugbókanir kærenda auk þess sem ferðaáætlanir þeirra væru óraunhæfar. Þá hafi kærendur haft litla þekkingu á ferðaáætluninni í viðtölum þeirra við fulltrúa utanríkisþjónustunnar. Uppfylltu kærendur þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.
Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kærendum jafnframt leiðbeint um að þau gætu óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir skriflegur rökstuðningur vegna ákvarðana í máli kærenda.
Meðferð umsókna kærenda fór fram hjá íslenska sendiráðinu í Nýju Delí, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.
Líkt og þegar hefur komið fram lögðu kærendur fram nýja ferðaáætlun á kærustigi, en samhliða henni lögðu þau fram bókanir fyrir gistingu, flugferðir, og bílaleigubíl. Samkvæmt framangreindu hafa komið fram ný gögn sem kærunefnd leggur ekki mat á.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hinar kærðu ákvarðanir grundvallast einkum á ferðaáætlun kærenda og tengdum atriðum á borð við flugbókanir og upplýsingar í viðtölum. Í ljósi þess að nú liggja fyrir gögn í máli kærenda sem áhrif geta haft á niðurstöðu mála þeirra, er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að mál kærenda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun þar sem lagt sé mat á þau nýju gögn sem nú hafa verið lögð fram.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to er-examine the cases.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður