Mælt fyrir nýjum heildarlögum um loftferðir
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftferðir. Markmið nýju laganna er að stuðla að og tryggja öruggar, greiðar og skilvirkar flugsamgöngur í takt við neytendavernd, umhverfissjónarmið og þjóðréttarlegar skuldbindingar. Frumvarpið tekur mið af nýrri flugstefnu Íslands, sem samþykkt var í fyrra sem hluti af gildandi samgönguáætlun. Markmið flugstefnunnar er viðhalda þeim árangri sem náðst hefur á sviði flugöryggis og styðja við frekari vöxt og framgang flugsamgangna hér á landi.
Í frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum, og öðrum lögum, einkum í því skyni að taka mið af stefnu stjórnvalda á sviði flugsamgangna og þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Breytingar lúta einkum að þremur þáttum:
- Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að stjórn flugmála og eftirliti. Þær helgast fyrst og fremst af aðild Íslands að Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA. Er þar m.a. með skýrari hætti kveðið á um verkaskiptingu Samgöngustofu og EASA í frumvarpinu. Verkaskiptingin á rætur að rekja til Evrópureglugerða um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunarinnar (nr. 2018/1139). Reglugerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samningum en slíkt er í undirbúningi hjá sameiginlegu EES-nefndinni.
- Í öðru lagi eru ýmis efnisákvæði loftferðalaga uppfærð til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands. Það á hvort tveggja við um alþjóðlega samninga á sviði flugmála og EES-gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn eða bíða upptöku. Í frumvarpinu er m.a. tekið tillit til samnings um sameiginlega Evrópska flugsvæðið sem Ísland gerðist aðili að 2006 og tók gildi hvað afmarkaða þætti varðar í desember 2017. Þessi samningur kveður á um frjálsan markaðsaðgang, staðfesturétt, jöfn skilyrði til samkeppni og sameiginlegt regluverk.
- Í þriðja lagi mælir frumvarpið fyrir um lögfestingu alþjóðasamnings um skaðabótaábyrgð flugrekenda, svonefnds Montreal-samnings frá 1999 en með því er leitast við að skapa samningsákvæðum hans traustari grundvöll.
Að auki er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á öðrum lögum. Veigamestu breytingar á lögum um rannsókn samgönguslysa varða skyldur nefndarinnar til að rannsaka flugslys og alvarleg flugatvik. Þá eru afmarkaðar breytingar lagðar til á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, m.a. í því skyni að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA.
Þá eru gerðar eru tillögur að breytingum á lögum um virðisaukaskatt sem byggjast á stefnumiðum í flugstefnu um aukna umhverfisvernd og fela í sér heimild til 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts til bráðabirgða vegna loftfara og hreyfla sem nota rafmagn sem aðalaflgjafa við innflutning og fyrstu sölu. Breytingarnar hafa verið undirbúnar í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti.
Geimför og ómönnuð loftför
Með frumvarpinu er gildissvið loftferðalaga útvíkkað í samræmi við víðtækt gildissvið reglna Evrópusambandsins á sviði flugssamgangna og eftirlitshlutverk Flugöryggisstofnunar Evrópu með loftförum, aðilum og starfsemi í þriðju ríkjum og veitendum samevrópskrar þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsögu. Lögin munu því ná til annarra tækja og hluta sem ferðast geta um loftið en eru ekki loftför og sem ógnað geta öryggi loftferða. Sem dæmi um slíkt má nefna geimför og eldflaugar.
Frumvarpið fjallar einnig um ómönnuð loftför og starfrækslu þeirra. Þar er m.a. kveðið á um skyldu til þess að skrá flugrekendur/umráðendur ómannaðra loftfara og skyldu til að skrá ómönnuð loftför sem hafa útgefið tegundarvottorð. Ákvæði um aðgang að íslensku yfirráðasvæði eru uppfærð í frumvarpinu, m.a. með tilliti til ómannaðra loftfara, ríkisloftfara og flugréttinda, þ.e. réttar til flugs í ábataskyni á íslensku yfirráðasvæði.
Lagt er til að Samgöngustofa haldi tvær nýjar skrár, auk fyrirliggjandi skrár um íslensk loftför. Annars vegar um þá einstaklinga og fyrirtæki hér á landi sem starfrækja ómönnuð loftför og hins vegar um tæki og hluti sem geta ferðast um loftið en eru ekki loftför. Samgöngustofu er jafnframt falið opinbert markaðseftirlit með vörum sem undir lögin falla, þ.m.t. ómönnuðum loftförum.
Ákvæði um skipulagsreglur flugvalla
Í kafla um flugvelli eru nokkur nýmæli. Þar eru m.a. lögð til ný ákvæði um samráðsskyldu sveitarfélaga og rekstaraaðila flugvallar um vöktun flugvallarumhverfis. Þá eru ákvæði um skipulagsreglur yfirfarin og uppfærð og kveðið á um tilkynningarskyldu vegna hindrana og merkingar hindrana.
Ráðherra getur sett skipulagsreglur fyrir flugvöll sem er opinn almenningi og sömuleiðis um landsvæði þar sem fyrirhugað er að byggja flugvöll opinn almenningi. Reglunum er ætlað að stuðla að og viðhalda flugöryggi. Skipulagsreglur eru sérreglur sem ætlað er að ganga framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga (svæðis-, aðal- og deiliskipulag) og frá því að skipulagsreglur flugvallar taka gildi eru sveitarfélög bundin af efni þeirra.
Skipulagsreglur flugvallar tilgreina afmörkun flugvallarsvæðis, hindrunarfleti og aðra fleti umhverfis flugvöllinn þar sem nauðsynlegt er að setja takmarkanir á athafnir fólks og á hæð mannvirkja og annarra hluta í umhverfi þeirra. Þannig skilgreina skipulagsreglur mestu hæð hindrana á aðflugs- og flugtakssvæðum, hringflugssvæði og annars staðar í nágrenni við flugvöll. Einnig skilgreina skipulagsreglur skipulag, starfsemi og umferð innan flugvallarsvæðis, t.d. til að koma í veg fyrir að rekstur sem er ósamrýmanlegur flugstarfsemi.
Ýmsar breytingar
- Í frumvarpinu er fjallað um skyldu flugrekenda frá þriðju ríkjum til að afla sér flugöryggisvottunar Flugöryggisstofnunar ESB vegna flugs til, frá og innan Íslands.
- Á sviði neytendaverndar eru lagðar til breytingar á afgreiðslu kvartana neytenda og er kæruréttur til ráðherra felldur niður. Þess í stað verða úrskurðir Samgöngustofu bindandi með aðfararheimild.
- Ákvæði um vinnuvernd flugverja í áhöfn hafa verið endurskoðuð einkum hvað varðar vinnu- og hvíldartíma og almenna umgjörð eftirlits.
- Lögð eru fram ný ákvæði um skipulag og hönnun loftrýmisins, m.a. til að tryggja víðtækt samráð um þá nýtingu loftrýmisins sem ætlað er að gilda ótímabundið.
- Kveðið er á um víðtækt bann við neyslu geðvirkra efna og Samgöngustofu veittar heimildir til eftirlits með því.
- Í kafla um eftirlits- og valdheimildir, þvingunarúrræði og refsingar eru almennar eftirlits- og valdheimildir styrktar og Samgöngustofu veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir.