Hoppa yfir valmynd
19. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 62/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 2. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi verið að vinna að hönnun og sölu skartgripa samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. september til 19. nóvember 2011 að fjárhæð samtals 266.668 kr. þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. apríl 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 6. október 2009. Þann 13. desember 2011 var kæranda sent erindi þar sem henni var tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði starfað við hönnun og sölu á skartgripum samhliða að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Í bréfi þessu var kæranda einnig veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þessara upplýsinga innan sjö daga. Þann 20. desember 2011 skilaði kærandi inn skýringum til Vinnumálastofnunar þar sem fram kom að hún hefði hannað armbönd og hálsfestar í einhvern tíma og ein verslun hefði tekið vörur hennar í umboðssölu fyrir jólin.

 

Með bréfi, dags. 2. janúar 2012, var kæranda sent bréf þar sem henni var tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til hennar þar sem hún hefði verið að hanna og selja skartgripi samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Í erindinu sagði enn fremur að það væri niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Einnig var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. september til 19. nóvember 2011 að fjárhæð 266.668 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Af hálfu kæranda er þess krafist að felld verði úr gildi sú tilefnislausa ákvörðun að krefja sig um endurgreiðslu á atvinnuleysisbótum aftur í tímann og að henni verði greiddar þær atvinnuleysisbætur sem hún eigi rétt á samkvæmt lögum frá og með 19. nóvember 2011, en aðeins til 1. júní 2012 þar sem frá þeim tíma hafi hún verið ráðin í starf hjá B.

 

Kærandi kveður það rangt sem fram komi í bréfi Vinnumálastofnunar að hún hafi unnið að hönnun og sölu skartgripa samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.

 

Kærandi hafi um nokkurt skeið prófað og leikið sér að því að setja saman armbönd og hálsmen, aðallega sem áhugamál en í lok síðasta árs bauðst kæranda að setja nokkrar tegundir til sölu í verslun. Fram að þeim tíma hafi hún hvorki haft að atvinnu né tekjur af því að selja neinn varning eftir sig. Það segi sig sjálft að auðvitað hafi hún látið tilleiðast og ákveðið að prófa að setja þær vörur í sölu sem hún hafði dundað sér við að búa til. Á þeim tíma hafi verið algjörlega óvíst hvort hún myndi hafa einhverjar tekjur af því og hvað þá miklar. Auk þess hafi kærandi þurft að kaupa umtalsvert magn af efni til að setja saman þá fáu skartgripi sem prófað var að setja í sölu.

 

Það hafi svo ekki verið fyrr en 1. febrúar 2012 sem kærandi hafi fengið greitt í fyrsta og eina skiptið fyrir þær vörur sem höfðu verið settar í prufusölu í desember. Það sem kærandi hafi fengið greitt fyrir það var um 268.000 kr. en kostnaður hennar á móti í efni hafi verið að lágmarki 170.000 kr. og því ávinningur hennar einungis um 98.000 kr. Það sé því með öllu fráleitt og misvísandi sem sagt sé að hún hafi haft atvinnu af einhverju slíku. Í besta falli séu þetta tekjur sem jafngilda hálfsmánaðarvinnu en eins og áður hafi komið fram hafi kærandi einungis fengið greiddar 50% atvinnuleysisbætur. Þess beri einnig að geta að þegar erindi Vinnumálastofnunar hafi borist hafi henni ekki verið ljóst hvort hún myndi á annað borð fá eitthvað greitt og þá hversu mikið.

 

Þá hafi kærandi einungis fengið 50% atvinnuleysisbætur eða um 77.000 kr. á mánuði og hafi því ekki fengið fullar atvinnuleysisbætur. Sé tekið tillit til þeirra greiðslna sem hún hafi fengið í febrúar 2012 sé ljóst að sú fjárhæð að teknu tilliti til kostnaðar nái ekki einu sinni þeirri fjárhæð sem hún hafi fengið greidda fyrir 50% atvinnuleysisbætur í einn mánuð og komi því í mesta lagi til móts við 50% starfshlutfall í einungis einn mánuð og sýni því með öllu hversu tilhæfulausar þær ásakanir séu sem komi fram í fyrra bréfi Vinnumálastofnunar.

 

Þess ber einnig að geta að kærandi hafi sótt um ýmis störf allt frá þeim tíma sem hún hafi farið á atvinnuleysisbætur. Sú leit hafi loks borið árangur í febrúar 2012 þegar hún hafi fengið starf hjá B frá og með 1. júní 2012.

 

Sé þess óskað geti kærandi lagt fram öll gögn sem óskað sé þessu til staðfestingar. Bæði hvað varði þær tekjur sem hún hafi fengið í febrúar 2012 auk þess kostnaðar sem þar kom á móti í efniskaupum. Það sé í það minnsta ljóst að þessar tekjur dugi skammt og séu langt frá því að geta talist til eðlilegrar framfærslu.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. júní 2012, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum markaði á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing lagagreinarinnar geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

 

Bent er á 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum, skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Jafnframt áréttar Vinnumálastofnun ákvæði 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú skylda sé lögð á þá sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er sá tryggði fær greiddar atvinnuleysisbætur, eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Í 13. gr. laganna segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistrygginga að hann sé í virkri atvinnuleit. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna sé tekið fram að launamaður verði að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eður ei.

 

Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi verið að selja eigin hönnun á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Ljóst sé að kærandi hafi ekki tilkynnt um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Vanþekking kæranda á lögum um atvinnuleysistryggingar breyti ekki þeirri skyldu sem á henni hvíli samkvæmt þeim. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum.

 

Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar frá 1. september til 19. nóvember 2011. Í 39. gr. laganna sé fjallað um leiðréttingu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laganna beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Beri því kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 19. nóvember 2011 að fjárhæð 266.668 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. júní 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að síðarnefndu lögunum var ákvæðið skýrt nánar. Þar kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

 

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

 

Kærandi hannaði og seldi skartgripi á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Varningur hennar var auglýstur á ýmsum netsíðum sem liggja fyrir í málinu. Þá lagði kærandi fram yfirlit yfir tekjur frá verslun sem seldi vörur kæranda.

 

60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á við þegar atvinnuleitandi hefur starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit væri hætt. Þegar 60. gr. laganna er beitt á þessum forsendum þarf að skýra orðin að „starfa á vinnumarkaði“ með hliðsjón af a- og b-lið 3. gr. laganna. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er launamaður hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í b-lið ákvæðisins er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

 

Kærandi var ekki launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda fékk hún ekki laun fyrir að starfa í þjónustu annarra. Hins vegar er ljóst af gögnum málsins að hún hannaði og seldi varning á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Því þarf að skoða hvort hún hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Núverandi skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingum var sett í lög um atvinnuleysistryggingar með 1. gr. laga nr. 37/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Fram kom í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 að „þeir sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna“. Af hinum tilvitnuðum ummælum verður ráðið að jafnvel þeir sem sinna smávægilegum sjálfstæðum rekstri teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Hönnun og sala kæranda var smá í sniðum. Eigi að síður var reksturinn skattskyldur, sbr. b-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Jafnframt bar kæranda að reikna sér endurgjald, sbr. 58. gr. laga um tekjuskatt og reglur skattyfirvalda um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2011. Hvort sem kærandi gerði skattyfirvöldum grein fyrir starfsemi sinni eða ekki er ljóst að hún var sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Hún upplýsti Vinnumálastofnun ekki um þessa starfsemi sína fyrr en eftir að stofnunin spurðist fyrir um hana í desember 2011.

 

Af framansögðu er ljóst að kærandi var starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Hún tilkynnti Vinnumálastofnun hvorki um þessa atvinnustarfsemi sína né að atvinnuleit hennar hafi verið hætt. Það er niðurstaða nefndarinnar að með framangreindri háttsemi hafi hún brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Kærandi lét Vinnumálastofnun ekki vita fyrirfram að hún væri að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Í ljósi þessa voru skilyrði fyrir hendi að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt var heimilt að kveða á um að kærandi skyldi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún myndi sækja aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þá ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. september til 19. nóvember 2011 að fjárhæð samtals 266.668 kr. með 15% álagi þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. janúar 2012 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 266.668 kr. með 15% álagi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður 

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta