Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 15/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. júní 2010. Umsókn kæranda var samþykkt 18. ágúst 2010, en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 60 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, sbr. 1. mgr. 55. gr. og 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, vegna atvika sem rakin eru í eldra máli kæranda hjá úrskurðarnefndinni nr. 154/2010, en gögn þess máls eru meðal gagna þessa máls. Kærandi var sumarið 2010, frá 12. júlí til 12. september, ráðinn í sérstakt tímabundið átaksverkefni hjá B. Að því loknu þurfti hann að ljúka því sem eftir var af biðtímanum hjá Vinnumálastofnun eða 45 daga. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. ágúst 2010 til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði, dags. 4. febrúar 2011.

 

Kærandi leitaði í kjölfarið til umboðsmanns Alþingis og að tilmælum umboðsmannsins tók úrskurðarnefndin mál kæranda fyrir að nýju og ógilti ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. ágúst 2010 um niðurfellingu bótaréttar kæranda í þrjá mánuði, með úrskurði, dags. 1. september 2011. Niðurstaða þess úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var því sú að fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar, frá 19. janúar 2009, skyldi standa óhögguð þannig að kærandi sætti 40 daga biðtíma á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og skyldi eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með 1. júní 2010 að telja að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi útreikninga á greiðslu atvinnuleysisbóta til hans frá og með 1. júní 2010 og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettu erindi, mótteknu 26. janúar 2012. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og tekin verði ákvörðun um að greiða honum þá fjárhæð sem hann telur sig eiga rétt á og þá án tillits til starfa hans í vinnumarkaðsaðgerð. Kærandi telur sig eiga rétt á rúmlega 440.000 kr. í atvinnuleysisbætur í stað 127.170 kr. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að miðað við atvinnuleysisbætur í dag séu þær í þrjá mánuði rúmar 440.000 kr. og hafi hann búist við u.þ.b. þeirri upphæð í leiðréttingu og hafi ætlað að greiða öldruðum foreldrum sínum alla þá fjárhæð, en þeir hafi lánað honum fé þegar hann hafi ekki fengið atvinnuleysisbætur, til þess að hann kæmist af. Það hafi komið honum á óvart að fá aðeins 127.100 kr. í bætur og hann geti hvorki samþykkt rökin fyrir því né skilið þau. Kærandi kveðst ekki skilja að atvinnuleysisbætur hans séu skertar á grundvelli þess að hann hafi unnið um stutt skeið í vinnumarkaðsaðgerð.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. maí 2012, segir að ástæða þess að Vinnumálastofnun hafi aðeins greitt kæranda 127.170 kr. sé sú að á tímabilinu 12. júlí til 12. september 2010 hafi kærandi verið ráðinn í sérstakt átaksverkefni á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Líkt og tekið sé fram í 9. gr. reglugerðarinnar greiði Vinnumálastofnun grunnatvinnuleysisbætur atvinnuleitanda ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til stofnunarinnar sem greiði atvinnuleitanda laun. Í tilfelli kæranda hafi Vinnumálastofnun greitt grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi beint til C, enda hafi kærandi skrifað undir samning þess efnis.

 

Það er niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á frekari greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 12. júlí til 12. september 2010, enda hafi grunnatvinnuleysisbætur hans vegna þess tímabils nú þegar verið greiddar til C.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní 2012. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda, meðal annars bréf móttekið 18. júlí 2010, þar sem hann ítrekar fyrri kröfur sínar og sjónarmið.

 


 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. júní 2010. Á tímabilinu 12. júlí til 12. september 2010 var hann ráðinn í sérstakt átaksverkefni á B á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 1. september 2011 skyldi kærandi sæta 40 daga biðtíma á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. og 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009 kemur eftirfarandi fram:

 

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um að ráða atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins til að sinna sérstökum tímabundnum átaksverkefnum sem eru umfram lögbundin og venjuleg umsvif enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Vinnumálastofnun, fyrirtækið, stofnunin eða frjálsu félagasamtökin og atvinnuleitandinn skulu undirrita samninginn um samþykki sitt. Með undirritun sinni samþykkir atvinnuleitandinn að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækis, stofnunar eða frjálsra félagasamtaka sem greiða honum laun.

 

Í átaksverkefnasamningi skv. 1. mgr. skal kveðið á um að Vinnumálastofnun greiði til fyrirtækisins, stofnunarinnar eð frjálsu félagasamtakanna sem nemur fjárhæð þeirra grunnatvinnuleysisbóta sem atvinnuleitandi á rétt til úr Atvinnuleysistryggingasjóði auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð en fyrirtækið, stofnunin eða frjálsu félagasamtökin skulu greiða atvinnuleitandanum laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Samningurinn skal vera gerður að hámarki til sex mánaða og óheimilt er að framlengja hann vegna sama atvinnuleitanda.

 

Vinnumálastofnun greiddi grunnatvinnuleysisbætur kæranda ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til viðkomandi stofnunar, C í tilviki kæranda, þann tíma sem hann var í umræddu átaksverkefni. Var það samkvæmt framangreindri reglugerðarheimild og í samræmi við ráðningarsamning milli kæranda, viðkomandi vinnustaðar og Vinnumálastofnunar, dags. 12. júlí 2010. Samningurinn er meðal gagna málsins. C greiddi kæranda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings og átti hann þar af leiðandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á sama tíma.

 

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A varðandi útreikning atvinnuleysisbóta á tímabilinu 12. júlí til 12. september 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður 

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta