Hoppa yfir valmynd
24. maí 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Rætt um aðild Íslands að danska lyfjamarkaðnum

Vor-2012-Horsens-DK
Ráðherrarnir Astrid Krag og Guðbjartur Hannesson

Möguleikar þess að Ísland fái aðild að danska lyfjamarkaðnum eru til skoðunar í framhaldi af viðræðum velferðarráðherra og danska heilbrigðisráðherrans fyrir skömmu þar sem þessar hugmyndir voru reifaðar. Lyfjamálastjóri velferðarráðuneytisins fundaði í síðustu viku með dönskum embættismönnum þar sem mögulegt samstarf á sviði lyfjamála var rætt. 

Astrid Krag, danski heilbrigðisráðherrann, tók vel í málaleitanir Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um samstarf á sviði lyfjamála á fundi sem þau áttu í Horsens 23. apríl síðastliðinn. Grænlendingar og Færeyingar njóta þegar samvinnu við Dani á þessu sviði og nýlega samþykkti danska þingið lagabreytingu sem veitir Færeyingum rétt til þátttöku í útboðum og lyfjainnkaupum í gegnum danska fyrirtækið Amgros sem annast innkaup á lyfjum fyrir dönsk sjúkrahús og sjúkrahúsapótek.

Á fundi embættismannanna var einkum rætt um mögulega aðild Íslands að danska lyfjamarkaðnum þannig að dönsk markaðsleyfi gildi hér á landi. Einnig voru ræddir möguleikar á þátttöku Íslands í útboðum og innkaupum lyfja í gegnum danska fyrirtækið Amgros. Loks var til umræðu hvort til greina komi að taka upp samstarf vegna mjög kostnaðarsamra sjúkrahúslyfja (S-merktra lyfja) í tengslum við RADS (Rådet for Anvendelse af Dyr Sygehusmedicin) sem hefur það hlutverk að samræma notkun S-merktra lyfja í Danmörku og stuðla að hagkvæmum innkaupum.

Smæð íslenska lyfjamarkaðarins veldur því að framboð lyfja er mun minna hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og því hafa íslenskir neytendur ekki sama aðgang að ódýrum lyfjum, meðal annars samheitalyfjum, og aðrir Norðurlandabúar. Á þetta er bent í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Þróun lyfjakostnaðar 2008–2010 (nóvember 2011) þar sem segir meðal annars að dýrt sé og fyrirhafnarsamt að sækja um markaðsleyfi fyrir lyf hér á landi, ágóðavon lyfjaframleiðenda sé minni hér en á stærri mörkuðum og því sjái þeir sér iðulega ekki hag í því að sækja um markaðsleyfi eða að nýta sér leyfi sem þeir hafi fengið. Hvatt er til samvinnu við yfirvöld annarra ríkja þannig að Íslendingar fái aðgang að stærri lyfjamörkuðum en með því megi ná niður lyfjakostnaði hins opinbera og einstaklinga og auka lyfjaframboð.

Danska heilbrigðisráðuneytið mun á næstunni skoða nánar hvernig standa megi að samstarfi þjóðanna tveggja á sviði lyfjamála. Af Íslands hálfu verður farið yfir málið í tengslum við viðræður um aðild að Evrópusambandinu þar sem verið er að skoða sameiginlegan vanda lítilla markaðssvæða og möguleika á sérlausnum í þeirra þágu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta