Hoppa yfir valmynd
2. september 2020 Innviðaráðuneytið

Einbreiðum brúm á Hringveginum fækkað úr 36 í 22 á næstu fimm árum

Áformað er að verja um 5,8 milljörðum króna á næstu fimm árum til að fækka einbreiðum brúm í vegakerfinu og bæta þar með umferðaröryggi. Stefnt er að því að einbreiðum brúm á Hringveginum fækki um nær helming á tímabilinu, og verði 22 árið 2024 í stað 36 nú. Alls fækkar einbreiðum brúm um 34 á tímabilinu.

Í nýlegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Maríu Hjálmarsdóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi kom fram að fjármagn til þessara verkefna var aukið í nýrri samgönguáætlun 2020-2034. Einnig var hluta fjármuna fjárfestingaátaks ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru varið í að fækka einbreiðum brúm.

Eitt af forgangsmarkmiðum samgönguáætlunar er að fækka einbreiðum brúm á umferðarmestu vegum landsins. Við undirbúning samgönguáætlunar forgangsraðar Vegagerðin verkefnum þ.á m. fækkun einbreiðra brúa. Við forgangsröðunina er fyrst og fremst er tekið tillit til umferðar, burðargetu, aldurs og ástands, samfellu á leiðum auk sérstakra aðstæðna séu þær uppi. Alls er 1.191 brú í þjóðvegakerfinu. Af þeim eru 677 einbreiðar, þar af eru nú 39 brýr á Hringveginum einbreiðar.

Í fimm ára samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020–2024 var fjármagni bætt við fyrri áætlun til að auka umferðaröryggi. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir 2.500 millj. kr. framlagi á næstu fimm árum með markmiði að einbreiðar brýr á Hringvegi verði 22 árið 2024. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að 3.300 millj. kr. af fjármunum fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar verði varið til að fækka einbreiðum brúm á næstu tveimur árum. Samtals er því áformað að verja um 5.800 millj. kr. á næstu fimm árum til fækkunar á einbreiðum brúm.

Alls eru fjórar brýr í byggingu, sem voru boðnar út árið 2019, sem munu leysa af hólmi einbreiðar brýr á Hringvegi 1. Þær eru:

  • Brunná austan við Kirkjubæjarklaustur (2020)  
  • Kvíá í Öræfasveit (2020)  
  • Fellsá í Suðursveit (2020)  
  • Steinavötn í Suðursveit (2021)  

Unnið er að því að alls sex brýr á Hringvegi verði breikkaðar til viðbótar á tímabilinu 2021–2024 miðað við fyrirhugaðar fjárveitingar. Þær eru: 

  • Hverfisfljót (2021)  
  • Búlandsá  
  • Gjádalsá       
  • Hvaldalsá
  • Selá í Álftafirði 
  • Krossá á Berufjarðarströnd

Í tengslum við fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar 2020–2022 verða þessar sjö einbreiðu brýr breikkaðar:

  • Hringvegur um Núpsvötn
  • Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi
  • Bjarnadalsá í Önundarfirði á Vestfjarðavegi
  • Botnsá í Tálknafirði á Bíldudalsvegi
  • Hringvegur um Skjálfandafljót
  • Köldukvíslargil á Norðausturvegi
  • Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi

Margar brýr eru jafnframt tilgreindar sem sérstök verkefni eða hluti af öðrum verkefnum í fimm ára samgönguáætlun. Dæmi um slíkar framkvæmdir úr samgönguáætlun 2020-2024 eru:

  • Hattardalsá á Djúpvegi (2020)
  • Jökulsá á Sólheimasandi (2021)
  • Hringvegur um Hornafjörð 2021-2024 (3 brýr)
  • Vestfjarðavegur um Gufudalssveit 2020-2023 (4 brýr)
  • Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði 2020-2024 (7 brýr)
  • Þverárfjallsvegur og Skagastrandarvegur um Laxá 2021-2023 (1 brú)

Enn frekari áform eru um breikkun einbreiðra brúa á öðru og þriðja tímabili 15 ára samgönguáætlunar fyrir tímabilið 2020-2034, sem Alþingi samþykkti í sumar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta