Aukin þjónusta við persónulega talsmenn fatlaðs fólks – námskeið sett á netið
Fólk sem gerist persónulegir talsmenn fatlaðs fólks getur nú sótt námskeið á netinu þegar því hentar. Hingað til hafa staðnámskeið verið haldin tvisvar sinnum á ári og eru nú um 170 manns sem bíða eftir því að geta lokið þeim til að verða persónulegir talsmenn. Með rafrænu útfærslunni verður engin þörf á að bíða enda hægt að sækja námskeiðið hvenær sem er. Með breytingunum mun fjöldi fatlaðs fólks fá persónulega talsmenn fyrr en ella.
Námskeiðið fyrir persónulega talsmenn inniheldur fræðslu um hlutverk þeirra og koma fjölmargir höfundar að gerð efnisins sem fjallar um lög og réttindi, sjálfræði fatlaðs fólks, hagsmunasamtök og fleira. Námskeiðið á að gefa góða innsýn inn í verkefni persónulegra talsmanna og tryggja réttindi fatlaðs fólks. Að því loknu eiga talsmenn að vera í betri stöðu til að aðstoða einstaklinga við að nýta betur þau tækifæri sem samfélagið býður upp á, hvort sem það er á vettvangi félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntakerfis eða á öðrum sviðum.
„Við þurfum markvisst og með skipulegum hætti að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk mætir. Það er mikilvægt að tryggja að þau sem eru að bíða eftir að verða persónulegir talsmenn fatlaðs fólks þurfi ekki að bíða í marga mánuði heldur geti strax hafist handa við að tryggja réttindi síns fólks. Þetta höfum við nú tryggt,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Réttindagæslumenn fatlaðs fólks munu senda þeim sem eru á biðlista eftir námskeiðinu nánari upplýsingar um námskeiðið ásamt hlekk til að sækja það. Þau sem ekki eru á biðlista en vilja skrá sig á námskeið geta jafnframt haft samband við réttindagæslu fatlaðs fólks sem mun leiðbeina og aðstoða við skráningu.
Rafrænu námskeiðin eru hluti af nýrri fræðslugátt félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem opnuð var í gær og miðar að því að bjóða upp á aðgengi að gögnum, upplýsingum og þekkingu og fræðslu á málasviðum ráðuneytisins.