Hoppa yfir valmynd
27. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 78/2005 - Umönnunarmat

78/2005 - umönnunargreiðslur

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru dags. 8. mars 2005 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt 5. flokki vegna B.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 2. desember 2004 var sótt um umönnunargreiðslur vegna B. Í læknisvottorði dags. 14. nóvember 2004 vegna umsóknar segir:

„ Drengnum var vísað til undirritaðrar af C sálfræðingi. Athugun hans benti til alvarlega veikleika í athygli og hegðun og uppfyllti greiningarviðmið um ofvirkni. Einnig komu fram verulegir hegðunarerfiðleika, delinquent behaviour og aggressive behaviour. Endurmat hjá mér benti vorið 2004 einnig til verulegra einkenna á tilfinningasviði þar sem hann var yfir 98. hundraðsröð og hegðunarerfiðleikar voru við 97. hundraðsröð. Þetta kom fram á heimili en minni einkenni voru um tilfinningalegan vanda í skóla. Endurmat nú í haust sýni verulegan hegðunarvanda ennþá þar sem hann er við 95. hundraðsröð en minni einkenni tilfinningalega. Drengurinn er á lyfjameðferð vegna tilfinningalegra erfiðleika."

Drengurinn var metinn samkvæmt 5. flokki 0% frá 1. september 2004 til 31. ágúst 2008.

Í rökstuðningi með kæru segir:

„ Eins og komið hefur fram var B greindur með athyglisbrest á síðasta ári og er einnig lesblindur (þó svo sérkennarinn í D-skóla vilji ekki setja lokastimpil á það ennþá). Þetta háir drengnum verulega á margan hátt í hans daglega lífi og hegðun hans hefur að sjálfsögu veruleg áhrif á alla fjölskylduna.

Hann á mjög erfitt með að sætta sig við reglur og aga og því fer mjög mikill tími hjá okkur foreldrunum og ótrúleg orka í að sjá til þess að reglum heimilisins sé framfylgt. Sem dæmi má nefna að drengurinn mætir oft ekki heim á tilsettum tíma og þá fer mikill tími í að leita að honum (þar sem hann er sjaldnast þar sem hann sagðist ætla að vera. Við þurfum að hringja á alla mögulega staði og jafnvel að fara út að leita. Þetta tekur stundum nokkra tíma.

Hann þolir ekki að vera neitað um eitthvað t.d. að fara út og hann hreint út sagt brjálast. Einföld fyrirmæli eins að hann eigi að fara að sofa eða að hann eigi að gera eitthvað áður en hann má gera það sem hann bað um kalla einnig oft á ofsafengin viðbrögð. Hann öskrar stjórnlaust, bölvar, er virkilega orðljótur og lemur þá hluti sem eru við hendina og eða grýtir þeim eitthvað út í loftið. Hann á líka til að skemma það sem hann nær til þá stundina. Þessi köst verða svo ofsafengin að það þarf stundum að halda honum á meðan það versta stendur yfir. Fjöldi þessara "kasta" er mismunandi stundum eru mörg "gos" á dag, stundum eitt og inn á milli koma dagar þar sem allt gengur vel. En það er erfitt að vita aldrei á hverju við eigum von þann daginn.

B hefur einnig átt í vandræðum með að mynda vinatengsl og yfirleitt bara átt einn vin í einu og þá í frekar stuttan tíma. Hann hefur ekki gert mikið í því að fara og leita að félagsskap þannig að ef vinurinn sem hann á þá stundina spyr ekki eftir honum hefur hann oftast setið einn heima. Og það að vera án félaga, þ.e.a.s. jafnaldra hefur mjög slæm áhrif á skapsmunina, það er ekki sérlega gaman þegar eini leikfélaginn sem völ er á er 4 ára og hefur hvorki vit né þroska á við mann sjálfan! Þegar hann hefur farið út til að finna leikfélaga hefur hann yfirleitt sótt í félagsskap yngri barna.

Þegar B hóf skólagöngu (áður en sambúð okkar hófst) var hann í Heilsdagsskóla eftir skólann. Þetta reyndist verulegt álag fyrir hann (slæm áhrif á hegðun) þannig að ákveðið var að minnka tíma í heilsdagvistun þegar sambúðin hófst. Vandamál barnsins hafa því bein áhrif á tekjuöflunarmöguleika fjölskyldunnar þar sem annað foreldrið hefur ekki tækifæri til að stunda fulla vinnu. Þetta á einnig við í dag, þegar Heilsdagsskólavistun er ekki í boði, þar sem við teljum sérstaklega mikilvægt að það sé einhver heima til að taka á móti honum þegar hann kemur úr skóla til að sjá til þess að heimavinnan sé unnin og aðstoða hann við að læra. Svo við tölum nú ekki um aðstoð til að halda sig réttu megin við strikið.

Athyglisbresturinn og lesblinda stuðla að því að B getur ekki gert heimaverkefnin sín án aðstoðar. Honum vaxa öll verkefni sem krefjast þess að hann lesi mjög í augum svo það þarf stöðugt að sitja yfir honum og sjá til þess að hann haldi áfram að vinna auk þess sem hann þarf mikla aðstoð við að leysa verkefnin sín. Slík verkefni og svo próflestur valda barninu miklum kvíða sem brýst út sem fádæma skapillska þannig að það kostar mikið stríð á milli okkar að halda honum við námið. Maður er því oft búinn andlega þegar lærdómurinn er búinn. Það að B þarf bæði mikinn tíma, aðstoð og frið við námið þar sem auðvelt er að rjúfa einbeitinguna hjá honum þýðir líka að yngri bróðir hans verður að vera í heilsdagsvistun í leikskóla og það er ekki hægt að bjóða honum upp á styttri skóladag.

Samband B og kynmóður hans eða öllu heldur sambandsleysi veldur honum miklum kvíða og óróleika. Frá því að hún flutti út af heimilinu hefur hún lítið sem ekkert sinnt barninu eða haft samband við hann það er ekki einu sinni svo gott að hún hafi samband símleiðis. Öll samskipti eru því óregluleg og það að vita aldrei hvenær þau hittast næst hefur veruleg áhrif á líðan og hegðun hans. Eftir hvert skipti sem þau hittast er hann í verulegu andlegu uppnámi og fær útrás með ókurteisi og verulega slæmri hegðun. Sú hegðun er ekki bundin við heimilið heldur hefur hann til dæmis hagað sér illa í skólanum þannig að þurft hefur að kalla okkur foreldrana til og einnig hefur komið fyrir að hann hafi gengið berserksgang í íþróttahúsi í nágrenni við heimilið, síðast var lögreglan meir að segja kölluð til til að fjarlægja drenginn. Það hefur margoft verið rætt við hana um þetta og áhrifin á barnið án árangurs. Við sáum okkur því ekki annað fært en að sækja um fullt forræði í fyrra. Skv. dómi á móðirin að greiða allan málskostnað en fjárhagsaðstæður hennar eru þannig að við munum aldrei fá útlagðan kostnað okkar, rúmlega 146.000 kr., endurgreiddan.

Samkvæmt læknisráði stendur nú til að B fari í taugasálfræðilegt mat (t.d. til að greina sértæka námserfiðleika) og við munum leita til Eirðar - ráðgjafarskrifstofu vegna hegðunarvanda og fá ráðgjöf um hvernig best sé að taka á hans málum auk þess sem við munum fara á námskeið um hvernig á að taka á hegðunarvanda barna. Einnig munum við fara í viðtöl til að finna út hvers konar námsaðstoð henti honum. Það er fyrirsjáanlegt að þau vandamál (athyglisbrestur og lesblinda), sem B þarf að glíma við munu leiða af sér tilfinnanleg útgjöld fyrir okkur fjölskylduna þar sem hann mun þurfa á ýmissi faglegri aðstoð að halda til að takast á við og læra að höndla sinn vanda."

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 11. mars 2005. Barst greinargerð dags. 4. apríl 2005. Þar segir:

„ Um er að ræða rúmlega 10 ára dreng sem glímir við hegðunarraskanir. Samkvæmt vottorði E barnalæknis dags. 14. nóvember 2004 var drengnum vísað til C og athugun hans benti til veikleika í athygli og hegðun. Greiningarviðmið um ofvirkni voru uppfyllt. Þó komu fram einkenni um árásargirni (aggressive behaviour) og misferli (delinquent behaviour).

Endurmat hjá lækninum vorið 2004 benti einni til erfiðleika á tilfinningasviði, einkum á heimili en minna í skóla og í haust voru áfram erfiðleikar í hegðun en minni á tilfinningasviði. Reynt var að draga úr erfiðleikum með lyfjameðferð.

Umsókn föður og stjúpmóður barst Tryggingastofnun 6. desember 2004 og fylgdi henni greinargerð. Þar kom fram að drengurinn glímir við athyglisbrest og lesblindu en fullnaðargreining hefur ekki farið fram. Erfiðleikar eru í hegðun og drengurinn fer ekki að reglum um sem foreldrar setja. Hann þarf aðstoð við heimanám og hafa foreldrar lagt áherslu á að einhver sé heima til að taka á móti drengnum þegar hann kemur heim úr skóla. Útgjöld þeirra hafa verið í tengslum við eftirlit hjá barnalækni og vegna lyfjameðferðar og vegna viðtala hjá sálfræðingi. Með umsókn og greinargerð foreldra barst staðfesting C um að leitað hefði verið til hans fyrir 1 1/2 ári síðan vegna þess að drengurinn átti erfitt með að stjórna skapi sínu.

Í bréfi foreldra með kæru til Úrskurðarnefndar kemur fram til viðbótar við ofangreindar upplýsingar að erfiðleikar drengsins tengist því einnig að samband/sambandsleysi við móður valdi honum kvíða og hafi leitt til skapofsakasta auk þess sem útgjöld föður og stjúpmóður vegna forræðisdeilu við móður á s.l. ári hafi verið allnokkur.

Kveðið er á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993. Nánar er fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 með síðari tíma breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar er það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun, og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er skilgreining á fötlunar- og sjúkdómsstigum. Þar kemur fram að aðstoð vegna barna með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra miðast við 4. fötlunarflokk og greiðslur eru að hámarki 25% af lífeyri og tengdum bótum.

Til 5. flokks eru þau börn aftur á móti metin sem stríða við vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, og þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga. Ekki er um að ræða greiðslur til foreldra barna sem metin eru til 5. flokks, jafnvel þótt útgjöld framfærenda kunni að vera tilfinnanleg, en þau njóta umönnunarkorts sem lækkar lyfja- og lækniskostnað.

Af hálfu barnalæknis Tryggingastofnunar var ekki talið liggja fyrir að erfiðleikum B mætti jafna við geðræna sjúkdóma, en slíkt er skilyrði mats skv. 4. flokki. Um væri að ræða hegðunarröskun sem brugðist hafði verið við með því að leita eftir sérfræðihjálp og lyfjameðferð, auk þess sem stuðnings væri þörf við heimanám. Félagsráðgjafi Tryggingastofnunar fór yfir gögn málsins og taldi ekki liggja fyrir að skilyrði fyrir mati í 4. flokk væru uppfyllt.

Niðurstaða umönnunarmats B var því skv. 5. flokki, þ.e. að um sé að ræða barn sem þarf eftirlit sérfræðinga og reglulega lyfjagjöf en ekki skv. 4. flokki, barn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla, á heimili og á meðal jafnaldra."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 11. apríl 2005 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Kærandi er ósátt við umönnunarmat samkvæmt 5. flokki 0% frá 17. desember 2004 vegna B.

Í rökstuðningi með kæru er lýst vandamálum vegna hegðunarraskana B, m.a. í námi og samskiptum við annað fólk.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vitnað til fyrirliggjandi læknisvottorðs og upplýsinga í umsókn og kæru. Í ljósi fyrirliggjandi gagna hafi það verið niðurstaða barnalæknis Tryggingastofnunar að ekki væri um að ræða alvarlegar hegðunarraskanir hjá drengnum sem jafna mætti við geðræna sjúkdóma. Um væri að ræða barn sem þyrfti eftirlit sérfræðinga og reglulega lyfjagjöf.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. Þar segir í 1. mgr. að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna með mánaðargreiðslum og/eða með því að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Ennfremur eru umönnunargreiðslur heimilar vegna barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma.

Í 3. mgr. segir að um framkvæmd ákvæðisins fari skv. reglugerð. Gildandi reglugerð er nr. 504/1997.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um 5 mismunandi flokka vegna sjúkra barna og 5 flokka fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar, en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í greinargerð með frumvarpi nr. 1314 til laga um breytingu á lögum nr. 118/1993 sem lagt var fram á 121. löggjafarþingi 1996-1997 og færði 4. gr. laganna í núverandi horf, segir m.a.:

„ Þá er miðað við að dregið verði úr greiðslum til foreldra barna sem glíma við minni háttar sjúkdóma, þroska- og hegðunarfrávik, samanber þó ákvæði um heimild til aukinnar þátttöku í læknis- og lyfjakostnaði".

Úrskurðarnefndin lítur til vilja löggjafans er fram kemur í tilvitnuðum orðum, að fyrst og fremst í alvarlegum sjúkdómstilfellum sem leiða til tilfinnanlegra útgjalda og mikillar umönnunar, skuli greiða umönnunarbætur, en koma til móts við vægari tilfelli með aukinni þátttöku í læknis- og lyfjakostnaði.

Um mat skv. 4. og 5. flokki segir í reglugerð nr. 504/1997:

Fl. 4. Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

Fl. 5. Börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga.

Í læknisvottorði E, dags. 14. nóvember 2004 er talað um hegðunarerfiðleika, delinquent behaviour og aggressive behaviour. Við endurmat í haust hafi enn verið fyrir hendi verulegur hegðunarvandi, en minni einkenni tilfinningalega, en drengurinn er á lyfjameðferð vegna tilfinningalegra erfiðleika.

B glímir samkvæmt læknisvottorði dags. 14. nóvember 2004 við ofvirkni með athyglisbresti og aðrar raskanir á hegðun og geðbrigðum. Hann þarf mikla stýringu og aðhald í daglegu lífi, bæði heima fyrir og í skóla. Uppeldi B, eins og annarra barna sem glíma við þroska- og hegðunarraskanir, er tímafrekt og erfitt. Að mati úrskurðarnefndar, sem m.a. er skipuð lækni, eru vandamál B samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki svo alvarleg að jafnað verði við geðræna sjúkdóma, en slíkt er skilyrði fyrir flokkun í 4. flokk.

Fyrir liggur vottorð C, sálfræðings dags. 21. nóvember 2004. Upplýsingar í því styðja mat samkvæmt 5. flokki.

Annað skilyrði umönnunarbótagreiðslna er að fötlun eða sjúkdómur hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld, auk sérstakrar umönnunar eða gæslu. Í þessu máli hafa verið tilgreind væntanleg útgjöld vegna meðferðar drengsins, en þau eru þó nokkuð óljós. Umönnunargreiðslur skv. 4. flokki nema um 20 þúsund krónum á mánuði og þarf að vera sýnt fram á samsvarandi útgjöld svo greiðslur séu heimilar. Ekki hefur verið sýnt fram á viðvarandi kostnað er nemi þeirri fjárhæð. Það hefur þó ekki úrslitaáhrif í málinu, þar sem B fellur ekki undir sjúkdómsskilgreiningu 4. flokks.

Umönnunarmat Tryggingastofnunar frá 17. desember 2004 er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Umönnunarmat frá 17. desember 2004 vegna B er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta