Úrskurður nr. 331/2004 - Uppbót til bifreiðakaupa
331/2004 – uppbót/styrkur til bifreiðakaupa
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson,hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 9. nóvember 2004 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót vegna kaupa á bifreið.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins dags. 14. september 2004 um uppbót vegna kaupa á bifreið. Umsókn var synjað með bréfi stofnunarinnar dags. 27. október 2004.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir:
„ Ástæðan er að kvöð sem hvílir á bílnum rennur ekki út fyrr en í mars 2006. Ég er ósátt við að kvaðatíma sé breytt og það er látið ganga yfir alla. Ég hafði gert ráð fyrir að kvöðin rynni út í mars 2005 eins og var áður en reglugerðinni var breytt. Ég keypti mér annan nýjan bíl þar sem sá gamli var gamall og þar sem ég tel mig uppfylla öll skilyrði til að fá nýjan styrk þá treysti ég á að fá þann styrk í mars 2005. Þessi breyting kemur því mjög illa við mig og var ég ekki upplýst um þessa breytingu á kvöð bílsins. Ef ég hefði vitað að það væri búið eða ætti að lengja tíma kvaðarinnar þá hefði ég ekki fjárfest í nýjum bíl strax."
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 18. nóvember 2004 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 26. nóvember 2004. Þar segir m.a.:
„ Kveðið er á um nánari skilyrði fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið skv. 1. mgr. 11. gr. laganna í 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002. Í 2. ml. 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002, sbr. b-lið 2. gr. breytingareglugerðar nr. 462/2004 er kveðið á um að uppbót sé heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Í 4. gr. reglugerðar 462/2004 er tekið fram að að breyting þessi taki jafnframt til þeirra einstaklinga sem hafa fengið styrki eða uppbætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins í tíð eldri reglna fyrir gildistöku breytingareglugerðarinnar.
Kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með umsókn dags. 14. september 2004 og móttekinni 20. september 2004. Henni var með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 27. október 2004 synjað um greiðslu uppbótar til kaupa á bifreið á grundvelli þess að umsóknin væri ótímabær. Hún fékk styrk til kaupa á bifreið á árinu 2001 og eru fimm ár því ekki liðin fyrr en á árinu 2006."
Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 29. nóvember 2004 og henni gefinn kostur á að koma að athugsemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót vegna kaupa á bifreið.
Í rökstuðningi fyrir kæru segist kærandi ekki hafa vitað af breyttum úthlutunarreglum þ.e.a.s. að einungis væri heimilt að úthluta uppbót vegna bifreiðarkaupa á fimm ára fresti í stað fjögurra ára áður. Hefði kærandi vitað af þessari breytingu þá hefði hún ekki fjárfest í nýrri bifreið.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að með reglugerð nr. 462/2004 hafi reglugerð nr. 752/2002 verið breytt á þann veg að heimilt sé að veita uppbót til sama einstaklings á fimm ára fresti. Í 4. gr. breytingarreglugerðarinnar sé tekið fram að breyting þessi taki jafnframt til einstaklinga sem hafi fengið styrki eða uppbætur greiddar af Tryggingastofnun í tíð eldri reglna fyrir gildistöku breytingarreglugerðarinnar.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsynlegt að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi kemst ekki af án uppbótarinnar er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993.
Með stoð í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Fram kemur í 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 eins og henni var breytt með 2. málsl. 5. gr. reglugerðar nr. 462/2004 frá 26. maí 2004 að ekki er heimilt að veita uppbót vegna kaupa á bifreið oftar en á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Hér er um gildandi rétt að ræða á þeim tíma er umsókn kæranda barst Tryggingastofnun og var afgreidd. Fram að gildistöku breytingarreglugerðarinnar var heimilt að veita uppbót á fjögurra ára fresti. Í 4. gr. reglugerðar nr. 462/2004 segir að breyting úr fjórum árum í fimm taki jafnframt til þeirra einstaklinga sem hafa fengið uppbætur greiddar af Tryggingastofnun í tíð eldri reglna fyrir gildistöku reglugerðar 462/2004.
Það er því ótvírætt samkvæmt gildandi rétti að fimm ára ákvæðið á við í tilviki kæranda. Sá tími er ekki liðinn í máli þessu og á hún af þeirri ástæðu ekki rétt á uppbót til bifreiðakaupa nú.
Afgreiðsla Tryggingastofnunar er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. október 2004 á umsókn A um uppbót til kaupa á bifreið er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
___________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson
formaður