Hoppa yfir valmynd
30. maí 2005 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 30. maí 2005

Fundur í mannanafnanefnd haldinn þriðjudaginn 30. maí 2005 í húsakynnum Orðabókar Háskóla Íslands, Neshaga 16, Reykjavík. Fundur hófst kl. 12:00. Mætt voru Aðalheiður Jóhannsdóttir (AJ), Guðrún Kvaran (GK) og Haraldur Bernharðsson (HB).

Eftirfarandi mál voru afgreidd:

 

Mál nr. 48/2005 

 

Eiginnafn:                      Janetta  (kvk.)

 

           Eiginnafnið Janetta tekur eignarfallsendingu (Janettu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

 Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Janetta er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“

  

Mál nr. 49/2005 

 

Millinafn:                       Diljan

 

            Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Millinafnið Diljan telst uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til millinafna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Diljan er tekin til greina og skal færa nafnið á mannanafnaskrá.“

  

Mál nr. 50/2005 

 

Eiginnafn:                      Hnikarr (kk.)

 

            Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Á undanförnum árum hafa nokkur eiginnöfn með -rr endingu komið úrskurðar mannanafnanefndar. Síðast var fjallað um nafnið Hnikarr í úrskurði nefndarinnar nr. 39/2005 þann 3. maí sl. og var því hafnað.

Eiginnafnið Hnikarr er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefur rithátturinn áunnið sér hefð í íslensku máli í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004. Beiðni um eiginnafnið Hnikarr er því hafnað. 

  

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Hnikarr er hafnað.“ 

 

Mál nr. 51/2005 

 

Eiginnafn:                      Mar (kvk.)

 

            Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Fram kemur í beiðni yðar að til stendur að skíra stúlkubarn nafninu Mar. Eiginnafnið Mar er karlmannsnafn og er þegar á mannanafnaskrá sem slíkt. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn skal gefa stúlku kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Þar af leiðandi uppfyllir nafnið ekki þau skilyrði sem tíunduð eru í 5. gr. fyrrgreindra laga.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Mar (kvk.) er hafnað.“

   

 

Mál nr. 52/2005 

 

Eiginnafn:                      Spartacus (kk.)

Spartakus (kk.)

 

            Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

             Eiginnafnið Spartacus er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllir þ.a.l. ekki ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Eiginnafnið Spartakus (ef. Spartakusar) uppfyllir hins vegar skilyrði 1. mgr. 5. gr. fyrrgreindra laga og er fallist á það.

 

 Úrskurðarorð:

 

            Fallist er á beiðni um eiginnafnið Spartakus og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.“

  

Mál nr. 53/2005 

 

Eiginnafnið:                   Ljósálfur  (kk.)

 

            Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Eiginnafnið Ljósálfur tekur eignarfallsendingu (Ljósálfs) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um eiginnafnið Ljósálfur er tekin til greina og skal færa nafnið á mannanafnaskrá.“

 

Mál nr. 54/2005 

 

Eiginnafn:                      Annarósa (kvk.)

 

           Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Í erindi yðar er óskað eftir því að úrskurður nefndarinnar frá xxx, mál nr. 10/1998, verði endurskoðaður af nefndinni og er vísað til þess að „nefndin hefur samþykkt nafnið Annabella og umboðsmaður Alþingis hefur gefið út sitt álit vegna nafnsins Annalísa.“

Við fyrstu sýn kann að virðast sem hér sé um tvö sambærileg tilvik að ræða en svo er ekki þar sem álit umboðsmanns Alþingis frá 2. maí sl. byggðist á því að heimilað yrði að taka upp erlendu nafnmyndina Annalísa sem íslenskt eiginnafn en fól ekki í sér beiðni um viðurkenningu á nýrri nafnmynd sem mynduð væri úr tveimur íslenskum eiginnöfnum.

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa áunnið sér hefð í ísensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Það getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Anna og Rósa sem eitt orð. Slíkur ritháttur uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996. Þegar um er að ræða tvö sjálfstæð eiginnöfn, í þessu tilfelli Anna og Rósa, sem beygjast bæði tvö í samræmi við íslenskt beygingarkerfi, er eðlilegur ritháttur þessi:  

 

            nf. Anna Rósa

            þf. (um) Önnu Rósu

            þgf. (frá) Önnu Rósu

            ef. (til) Önnu Rósu

 

Ef um væri að ræða erlent tökunafn væri hugsanlegt að aðlaga það þannig að einungis síðari liður beygðist og eðlilegur ritháttur yrði þá eftirfarandi:

 

            nf. Annarósa

            þf. (um) Annarósu

            þgf. (frá) Annarósu

            ef. (til) Annarósu

 

            Ekki verður ráðið af beiðni yðar að um sé að ræða erlent tökunafn sem aðlagað hefur verið á þennan hátt (þ.e. Annarósa, ef. Annarósu).

 

Þrátt fyrir álit umboðsmanns Alþingis frá 2. maí sl. sem varðaði erlenda tökunafnið Annalísa eru að mati mannanafnanefndar ekki komnar fram neinar veigamiklar ástæður sem mæla með því að málið verði tekið fyrir að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er því beiðni yðar um endurupptöku hafnað.

  

Úrskurðarorð:

 

            Beiðni um endurupptöku er hafnað.“

  

 

Mál nr. 55/2005 

 

Eiginnafn:                      Elínheiður  (kvk.)

                                     

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Samsetta eiginnafnið Elínheiður (stofnsamsetning) tekur eignarfallsendingu (Elínheiðar) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

  

Úrskurðarorð:

 

            Fallist er á beiðni um eiginnafnið Elínheiður og skal færa nafnið á mannanafnaskrá.“

 

 Mál nr. 56/2005 

 

Eiginnafn:                      Eleonora  (kvk.)

                                                          

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

            Þann 3. maí sl. kvað mannanafnanefnd upp úrskurð í máli nr. 44/2005 þar sem óskað var eftir úrskurði nefndarinnar um eiginnafnið Eleonora. Niðurstaða nefndarinnar var sú að hafna nafninu á þeim forsendum að það teldist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né hefði rithátturinn áunnið sér hefð í íslensku máli í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 1. júlí 2004. Í beiðni um endurupptöku málsins hafa verið lögð fram viðbótargögn: 1) ljósrit úr hjúkrunarkvennatali (ártal ekki ljóst en sennilega útgefið eftir 1962) þar sem fram kemur rithátturinn Eleonora og einnig 2) ljósrit úr kirkjubók frá 1911 þar sem gerð er grein fyrir fæðingu meyjar þar sem nafn sömu manneskju er ritað Eleonóra.

            Að mati nefndarinnar getur einstakur ritháttur eða ritvenja eins einstaklings í gögnum utan þjóðskrár ekki jafngilt hefð í skilningi laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Enn fremur skal áréttað að stafsetning nafna í manntalinu 1910 og eldri heimildum, sbr. liði 1. d og e í tilvitnuðum vinnulagsreglum, er óáreiðanleg að ýmsu leyti, einkum er varðar notkun broddstafa. Ritháttur er víkur frá almennum ritreglum íslensks máls, sbr. auglýsingar nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu, telst því ekki fortakslaust hafa áunnið sér hefð þótt hann birtist í manntali 1910 eða í eldri heimildum. Með vísan til rökstuðnings nefndarinnar í máli nr. 44/2005 eru að mati nefndarinnar ekki komin fram nein veigamikil rök til þess að taka málið upp á ný.            

 

Úrskurðarorð:

 

 

            Beiðni um endurupptöku er hafnað.“

 

  

Fleira gerðist ekki. Fundi lauk kl. 13:15.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta