Breyting á lögum um starfsmannaleigur samþykkt á Alþingi
Frumvarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um breytingu á lögum um starfsmannaleigur var samþykkt á Alþingi í dag. Með breytingunni er meðal annars lögfestur réttur starfsmanna sem ráðnir eru til starfa í gegnum starfsmannaleigur til sömu starfskjara og aðbúnaðar og þeir hefðu notið ef um beina ráðningu hefði verið að ræða.
Með lagabreytingunni eru innleidd að fullu ákvæði Evróputilskipunar (2008/104/EB) um starfsmannaleigur. Skerpt er á orðalagi í tengslum við gildissvið og orðskýringar laganna þannig að tekið er skýrar fram en áður að lögunum sé ætlað að gilda um starfsmannaleigur á innlendum markaði og starfsmenn þeirra sem og um skyldur notendafyrirtækja. Í áliti velferðarnefndar sem fjallaði um frumvarpið segir meðal annars:
„Nefndin telur frumvarpið fela í sér mikilvæga breytingu á lögum um starfsmannaleigur sem koma muni í veg fyrir að hér á landi verði aftur vart þeirra félagslegu undirboða sem stunduð voru á uppgangstímanum þar sem starfsmenn starfsmannaleigna fengu ekki greidd samsvarandi laun og starfsmenn notendafyrirtækja og í sumum tilfellum afar lág laun. Með samþykkt frumvarpsins verða tryggð réttindi allra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt áréttuð meginregla íslensks vinnuréttar um ótímabundna ráðningarsamninga starfsmanna beint við vinnuveitendur sína en jafnframt viðurkennt að þörf getur verið á þeim sveigjanleika sem starfsmannaleigur bjóða upp á en að þær verði þá aðeins nýttar í þeim tilgangi en ekki til að greiða starfsfólki lægri laun. Þá tekur nefndin einnig fram að í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er vísað til launa og annarra starfskjara og er þar gengið lengra en gert er í tilskipuninni þar sem aðeins er vísað til launa. Önnur starfskjör geta til að mynda verið afkastatengt launakerfi sé það til staðar hjá notendafyrirtækinu. Þá tryggir 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins starfsmönnum aðgang að t.d. íþróttaaðstöðu sem starfsmenn notendafyrirtækisins hafa aðgang að. Nefndin telur frumvarpið fela í sér mikilvægar breytingar og að með því sé lokað fyrir glufur í lögum um starfsmannaleigur frá 2005 og staðið við alþjóðlegar skuldbindingar. “